Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mun hið góða nokkurn tíma sigra hið illa?

Mun hið góða nokkurn tíma sigra hið illa?

Mun hið góða nokkurn tíma sigra hið illa?

FYRIR hér um bil tvö þúsund árum var saklaus maður, Jesús Kristur, fyrir rétti og átti dauðadóm yfir höfði sér. Illir menn lögðu á ráðin um að drepa hann af því að hann talaði sannleikann. Hann var ranglega ákærður um undirróður og mannfjöldinn heimtaði aftöku hans. Rómverskur landstjóri, sem mat pólitískan orðstír sinn meir en líf lítilmótlegs smiðs, dæmdi Jesú til grimmilegrar aftöku. Eftir öllum ytri merkjum að dæma hafði hið illa gengið með sigur af hólmi.

Samt sem áður sagði Jesús lærisveinum sínum nóttina fyrir aftöku sína. „Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóhannes 16:33) Hvað átti hann við? Að hluta til það að hið illa í heiminum hafði hvorki gert hann bitran né komið honum til að gjalda í sömu mynt. Heimurinn hafði ekki þröngvað honum í sitt illskumót. (Samanber Rómverjabréfið 12:2) Jafnvel þegar hann var að deyja bað hann fyrir böðlum sínum: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.“ — Lúkas 23:34.

Allt fram á dauðastundina sýndi Jesús að það væri hægt að sigra hið illa. Hann hvatti fylgjendur sína til að heyja sína eigin baráttu gegn illskunni. Hvernig geta þeir gert það? Með því að hlýða því ráði Ritningarinnar að ‚gjalda engum illt fyrir illt‘ og ‚sigra illt með góðu‘ eins og Jesús hafði gert. (Rómverjabréfið 12:17, 21) En er þetta raunhæf stefna?

Barist gegn hinu illa í Dachau

Else, þýsk kona sem var fangelsuð í Dachau, gaf 14 ára rússneskri stúlku dýrmæta gjöf — trú og von.

Í Dachau voru illræmdar fangabúðir þar sem þúsundir manna voru drepnar í gasklefum og hundruð manna, þeirra á meðal þessi unga rússneska stúlka, voru notuð til hryllilegra læknisfræðitilrauna. Dachau virtist ímynd hins illa. Eigi að síður skaut hið góða rótum í slíkum jarðvegi, sem virtist algerlega lífvana, og meira að segja fjölgaði sér.

Else fann til ákafrar samúðar með þessari unglingsstúlku sem hafði líka verið neydd til að horfa á SS-verðina nauðga móður hennar villimannlega. Else hætti lífi sínu til að fá færi á að tala við stúlkuna um hið góða og hið illa og um upprisuvon Biblíunnar. Hún kenndi hinni ungu vinkonu sinni að elska fremur en hata. Og þökk sé Else þá lifði rússneska stúlkan af hina hryllilegu dvöl í Dachau.

Else gerði það sem hún gerði vegna þess að hún vildi fylgja óeigingjörnu fordæmi Krists. Sem einn af vottum Jehóva hafði hún lært að endurgjalda ekki illt með illu og trú hennar kom henni til að hjálpa öðrum að gera það líka. Enda þótt hún þyrfti að þjást í Dachau vann hún siðferðilegan sigur yfir illri alræðisstjórn. Og hún var ekki sú eina.

Paul Johnson sagði í bók sinni, A History of Christianity, að „[vottar Jehóva] hafi neitað allri samvinnu við nasistastjórnina er þeir fordæmdu sem alilla. . . . Níutíu og sjö prósent þeirra voru ofsóttir á einn eða annan hátt.“ Og háðu þeir vonlausa baráttu? Í bók sinni, Values and Violence in Auschwitz, segir pólski félagsfræðingurinn Anna Pawelczynska um vottana: „Þessi litli hópur fanga var sterkt hugmyndafræðiafl og vann bardaga sinn gegn nasismanum.“

Hjá flestum okkar er baráttan gegn hinu illa þó fyrst og fremst háð hið innra en ekki gegn utanaðkomandi öflum. Þetta er innri barátta við okkur sjálf.

Sigrum hið illa innra með okkur

Páll postuli lýsti þessari baráttu þannig: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“ (Rómverjabréfið 7:19) Eins og Páll vissi mætavel er mönnum ekki alltaf eðlilegt að gera hið góða.

Ungur Spánverji, Eugenio, * barðist í tvö löng ár gegn illum tilhneigingum. „Ég varð að vera harður við sjálfan mig,“ segir hann. „Frá unga aldri hneigðist ég til siðleysis. Sem unglingur tók ég fúslega þátt í kynvillusvalli og, í fullri hreinskilni, ég naut þess að lifa þannig.“ Hvað kom honum til að vilja breyta sér?

„Ég vildi þóknast Guði og ég lærði af Biblíunni að hann hefði ekki velþóknun á því hvernig ég lifði,“ segir Eugenio. „Ég ákvað því að verða öðruvísi persóna, að hlýða leiðbeiningum Guðs. Ég þurfti daglega að berjast gegn neikvæðum, óhreinum hugsunum sem enn flæddu inn í huga minn. Ég var staðráðinn í að sigra í þessu stríði og ég bað Guð hjálpar án afláts. Ég komst yfir það versta á tveim árum, þótt ég þurfi enn að vera harður við sjálfan mig. En baráttan var vel þess virði. Núna hef ég sjálfsvirðingu, er í góðu hjónabandi og, það sem mikilvægast er, á gott samband við Guð. Ég veit af eigin reynslu að það er hægt að reka illar hugsanir á dyr áður en þær bera ávöxt — ef maður leggur sig vel fram.“

Hið góða sigrar hið illa í hvert sinn sem illum hugsunum er vísað á bug, í hvert sinn sem við neitum að gjalda illt með illu. Þessir sigrar, þótt mikilvægir séu, útrýma þó ekki tveim aðaluppsprettum hins illa. Hversu mjög sem við reynum getum við ekki sigrast fullkomlega á meðfæddum veikleikum okkar og Satan hefur enn ill áhrif á mannkynið. Mun þetta nokkurn tíma breytast?

Djöfullinn að engu gerður

Trúfesti Jesú allt til dauða var meiri háttar ósigur fyrir Satan. Djöflinum mistókst að brjóta ráðvendni Jesú á bak aftur og það markaði upphaf endalokanna fyrir Satan. Eins og Biblían segir smakkaði Jesús dauðann til að „hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn.“ (Hebreabréfið 2:14) Eftir upprisu sína sagði Jesús lærisveinum sínum: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18) Og þetta vald myndi hann nota til að gera verk Satans að engu.

Opinberunarbók Biblíunnar lýsir þeim degi er Jesús myndi úthýsa Satan af himnum. Athafnasvið þessa erki-illvirkja og djöfla hans yrði takmarkað við nágrenni jarðar. Þar af leiðandi myndi illskan magnast eins og Biblían aðvarar: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:7-9, 12.

Spádómar Biblíunnar gefa til kynna að þessi sögulegi atburður hafi þegar gerst — um svipað leyti og fyrri heimsstyrjöldin var háð. * Það skýrir hvers vegna hið illa hefur stóraukist á okkar tímum svo sem raun ber vitni. En bráðlega verður Satan fjötraður algerlega þannig að hann geti alls engin áhrif haft á nokkurn mann. — Sjá Opinberunarbókina 20:1-3.

Hvað þýðir allt þetta fyrir mannkynið?

‚Þeir munu ekki illt fremja‘

Sem konungur Guðsríkis mun Jesús bráðlega beita ‚valdi sínu á jörðinni‘ til að skipuleggja andlega endurmenntun. „Þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti.“ (Jesaja 26:9) Gagnið af því verður öllum augljóst. Biblían fullvissar okkur: „Hvergi . . . munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:9.

Nú þegar er hægt að sigrast á mörgum af okkar illu tilhneigingum. Þegar áhrif illra anda eru horfin verður örugglega margfalt auðveldara að ‚sneiða hjá illu og gera gott.‘ — 1. Pétursbréf 3:11.

Við höfum fullt tilefni til að treysta því að hið góða muni sigra hið illa vegna þess að Guð er góður, og með hans hjálp geta þeir sem vilja gera hið góða sigrað hið illa eins og Jesús sannaði með fordæmi sínu. (Sálmur 119:68) Þeir sem eru fúsir til að berjast gegn hinu illa núna geta hlakkað til þess að búa á hreinsaðri jörð undir stjórn Guðsríkis, stjórninni sem er helguð því hlutverki að uppræta hið illa fyrir fullt og allt. Sálmaritarinn lýsir árangrinum: „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast. Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.“ — Sálmur 85:11, 12.

[Neðanmáls]

^ Nafninu er breytt.

^ Ítarlegri upplýsingar er að finna á bls. 20-22 í bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.