Hulda náði markmiði sínu
FYRIR nokkrum árum unnu þrjár trúsystur okkar saman á ströndinni. Þær eiga heima á lítilli eyju sem heitir Sangir Besar og er í Indónesíu. Þar eru þær þekktar fyrir að hjálpa fólki að skilja Biblíuna. En í þetta skipti voru þær að gera eitthvað allt annað.
Fyrst óðu þær út í sjóinn og erfiðuðu við að flytja stóra steina á ströndina. Sumir þeirra voru stærri en fótboltar. Næst settust þær á litla tréstóla og notuðu hamar til að mölva steinana í mola minni en hænsnaegg. Þær settu steinana síðan í plastfötur og báru upp stiga þangað sem þær áttu heima. Þar settu þær steinana í stóra poka sem voru settir á vörubíl og síðan notaðir sem efni í vegagerð.
Ein systirin heitir Hulda. Aðstæður hennar voru þannig að hún gat varið meiri tíma en aðrir í þessa vinnu. Venjulega notaði hún allt kaupið til að borga fyrir nauðsynjar handa fjölskyldunni. En núna langaði hana að nota hluta af peningunum í eitthvað annað. Hún vildi fá sér spjaldtölvu til að geta notað appið JW Library®. Hún vissi að myndböndin og annað efni í appinu myndi hjálpa henni í boðuninni og auðvelda henni að öðlast meiri skilning á Biblíunni.
Hulda vann tvo tíma hvern morgun alla daga í einn og hálfan mánuð. Þá hafði hún mölvað nægilega marga steina til að fylla lítinn vörubíl. Að lokum átti hún fyrir spjaldtölvunni.
„Ég var dauðþreytt og aum eftir að hafa mölvað steina,“ segir Hulda, „en ég var fljót að gleyma verkjunum þegar ég gat notað nýju spjaldtölvuna til að ná meiri árangri í boðuninni og ég átti auðveldara með að búa mig undir samkomur.“ Hún segir líka að spjaldtölvan hafi verið gagnleg snemma í faraldrinum þegar öll starfsemi safnaðarins fór fram með hjálp fjarfundabúnaðar. Við samgleðjumst Huldu að hafa náð markmiði sínu.