Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 47

Höldum áfram að styrkja kærleikann hvert til annars

Höldum áfram að styrkja kærleikann hvert til annars

„Höldum áfram að elska hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði.“ – 1. JÓH. 4:7.

SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars

YFIRLIT a

1, 2. (a) Hvers vegna gat Páll postuli sagt að kærleikurinn væri svona mikilvægur? (b) Hvað spurningar skoðum við?

 ÞEGAR Páll postuli fjallaði um trú, von og kærleika sagði hann: „Kærleikurinn er þeirra mestur.“ (1. Kor. 13:13) Hvers vegna sagði hann það? Í framtíðinni þurfum við ekki lengur að hafa trú á loforðum Guðs um nýjan heim eða von um að loforð hans rætist því að þau verða þá orðin að veruleika. En við munum alltaf þurfa að elska Jehóva og fólk. Kærleikur okkar til þeirra mun halda áfram að vaxa um alla eilífð.

2 Skoðum þrjár spurningar í ljósi þess að við þurfum alltaf að hafa kærleika til að bera. Hvers vegna ættum við að sýna hvert öðru kærleika? Hvernig sýnum við hvert öðru kærleika? Og hvernig getum við haldið áfram að rækta kærleikann hvert til annars?

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ SÝNA HVERT ÖÐRU KÆRLEIKA?

3. Hvaða ástæður höfum við til að elska hvert annað?

3 Hvers vegna er mikilvægt að við elskum hvert annað? Ein ástæða fyrir því er að kærleikurinn einkennir sannkristna menn. Jesús sagði postulum sínum: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Og kærleikurinn stuðlar að einingu meðal okkar. Páll kallaði kærleikann „fullkomið einingarband“. (Kól. 3:14) En það er önnur mikilvæg ástæða sem við höfum til að elska hvert annað. Jóhannes postuli skrifaði trúsystkinum sínum: „Sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.“ (1. Jóh. 4:21) Við sýnum kærleika okkar til Guðs þegar við sýnum hvert öðru kærleika.

4, 5. Lýstu með dæmi hvernig kærleikur okkar til Guðs tengist kærleika okkar til annarra.

4 Hvernig er kærleikur okkar til Guðs nátengdur kærleikanum sem við sýnum bræðrum okkar og systrum? Tökum dæmi. Hjarta okkar tengist öðrum líkamshlutum. Þegar læknir athugar púlsinn við úlnliðinn á okkur til að vita hvort hann sé veikur eða eðlilegur gæti hann komist að því í hvaða ástandi hjartað er. Hvernig getum við heimfært þetta upp á kærleikann?

5 Við getum fengið að vita hversu sterkur kærleikur okkar til Guðs er með því að athuga hversu sterkur kærleikur okkar til annarra er rétt eins og læknir fær upplýsingar um hversu sterkt hjarta okkar er þegar hann athugar púlsinn. Ef við komumst að því að kærleikurinn til trúsystkina hefur að einhverju leyti kólnað gæti það gefið til kynna að kærleikur okkar til Guðs hafi minnkað. En þegar við höldum áfram að sýna trúsystkinum okkar kærleika er það merki um að kærleikur okkar til Guðs sé sterkur.

6. Hvers vegna er það alvarlegt mál ef kærleikur okkar til bræðra og systra hefur dvínað? (1. Jóhannesarbréf 4:7–9, 11)

6 Það er alvarlegt mál ef kærleikur okkar til bræðra og systra hefur minnkað. Hvers vegna? Það þýddi að samband okkar við Jehóva væri í hættu. Jóhannes postuli leggur áherslu á það þegar hann segir: „Sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóh. 4:20) Jehóva er aðeins ánægður með okkur ef við ‚elskum hvert annað‘. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:7–9, 11.

HVERNIG SÝNUM VIÐ HVERT ÖÐRU KÆRLEIKA?

7, 8. Hvernig getum við sýnt hvert öðru kærleika?

7 Aftur og aftur sjáum við boðið um að „elska hvert annað“ í orði Guðs. (Jóh. 15:12, 17; Rómv. 13:8; 1. Þess. 4:9; 1. Pét. 1:22; 1. Jóh. 4:11) Kærleikurinn er hins vegar eiginleiki innra með okkur og enginn maður getur séð hvað býr í hjarta annars manns. Hvernig getum við þá látið kærleika okkar til bræðra og systra í ljós? Með orðum okkar og verkum.

8 Við getum sýnt bræðrum okkar og systrum á margvíslegan hátt að við elskum þau. Skoðum nokkur dæmi. „Verið sannorð hvert við annað.“ (Sak. 8:16) „Haldið frið hver við annan.“ (Mark. 9:50) „Eigið frumkvæðið að því að sýna hvert öðru virðingu.“ (Rómv. 12:10) „Takið því vel á móti hvert öðru.“ (Rómv. 15:7) „Haldið áfram að ... fyrirgefa hvert öðru.“ (Kól. 3:13) „Berið hvert annars byrðar.“ (Gal. 6:2) „Hughreystið hvert annað.“ (1. Þess. 4:18) „Haldið því áfram að ... styrkja hvert annað.“ (1. Þess. 5:11) „Biðjið hvert fyrir öðru.“ – Jak. 5:16.

Hvernig getum við hjálpað trúsystkini sem líður illa? (Sjá 7.–9. grein.)

9. Hvers vegna er það að hughreysta aðra mikilvæg leið til að sýna kærleika okkar? (Sjá einnig mynd.)

9 Skoðum betur eina leið til að sýna kærleika okkar til annarra. Páll sagði: „Hughreystið hvert annað.“ (1. Þess. 4:18) Hvers vegna er það að hughreysta aðra mikilvæg leið til að sýna þeim kærleika? Samkvæmt biblíuskýringarriti merkir orðið sem Páll notaði og er þýtt „hughreysta“ ‚að standa við hlið einhvers til að uppörva hann þegar hann gengur í gegnum mikla erfiðleika‘. Þegar við hughreystum trúsystkini sem glímir við erfiðleika hjálpum við því að halda áfram að þjóna Jehóva af trúfesti. Og í hvert sinn sem við uppörvum trúsystkini okkar sýnum við að við elskum það. – 2. Kor. 7:6, 7, 13.

10. Hvernig tengist samúð hugreystingu?

10 Að finna til samúðar og að hughreysta er nátengt. Samúðarfull manneskja vill hughreysta þann sem líður illa og gera eitthvað til að hjálpa honum. Við finnum fyrst til samúðar og síðan hughreystum við. Tökum eftir hvernig Páll tengir samúð Jehóva við þá hughreystingu sem hann gefur. Páll lýsir Jehóva sem ‚föður innilegrar samúðar‘ og ‚Guði allrar huggunar‘. (2. Kor. 1:3) Guð er kallaður faðir, eða uppspretta, innilegrar samúðar vegna þess að hann hefur mikla samúð með fólki. Þessi samúð fær hann til að ‚hugga okkur í öllum prófraunum okkar‘. (2. Kor. 1:4) Eins og hreint vatn sprettur úr uppsprettu og endurnærir þá sem eru þyrstir endurnærir Jehóva og huggar þá sem eiga erfitt. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og fundið til samúðar gagnvart öðrum og huggað þá? Ein leið til þess er að þroska með okkur eiginleika sem hjálpa okkur að finna fyrir samkennd og hugga aðra. Hvaða eiginleikar eru þetta?

11. Hvaða aðra eiginleika þurfum við að þroska með okkur til að elska aðra og hughreysta, samanber Kólossubréfið 3:12 og 1. Pétursbréf 3:8?

11 Hvað getur hjálpað okkur að temja okkur þann kærleika sem við þurfum að hafa til að ‚hughreysta hvert annað‘ í daglegu lífi? Við þurfum að rækta með okkur eiginleika eins og samkennd, bróðurást og góðvild. (Lestu Kólossubréfið 3:12; 1. Pétursbréf 3:8.) Hvernig koma þessir eiginleikar okkur að gagni? Þegar samkennd og álíka eiginleikar verða hluti af persónuleika okkar getum við ekki annað en hughreyst þá sem eiga erfitt. Jesús sagði: „Munnurinn talar af gnægð hjartans. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði sínum.“ (Matt. 12:34, 35) Að hughreysta bræður okkar og systur í erfiðleikum er mjög mikilvæg leið til að tjá kærleika okkar til þeirra.

HVERNIG GETUM VIÐ HALDIÐ ÁFRAM AÐ RÆKTA KÆRLEIKANN HVERT TIL ANNARS?

12. (a) Hvers vegna þurfum við að vera á varðbergi? (b) Hvaða spurningu skoðum við núna?

12 Við viljum öll ‚halda áfram að elska hvert annað‘. (1. Jóh. 4:7) En gleymum því ekki að Jesús varaði við því að ‚kærleikur flestra myndi kólna‘. (Matt. 24:12) Hann var ekki að segja að þetta myndi gerast í ríkum mæli meðal lærisveina sinna. Engu að síður ættum við að vera á varðbergi til að smitast ekki af kærleiksleysi fólks í heiminum. Skoðum mikilvæga spurningu í tengslum við það: Er hægt að komast að því hvort kærleikur okkar til trúsystkina sé sterkur?

13. Hvað getur hjálpað okkur að vita hvort kærleikur okkar til trúsystkina sé sterkur?

13 Til að sjá hversu sterkur kærleikur okkar er getum við meðal annars skoðað hvernig við bregðumst við ákveðnum aðstæðum. (2. Kor. 8:8) Pétur postuli nefnir dæmi: „Berið umfram allt brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.“ (1. Pét. 4:8) Veikleikar og ófullkomleiki annarra getur reynt á kærleika okkar.

14. Hvers konar kærleika þurfum við að hafa samkvæmt 1. Pétursbréfi 4:8? Lýstu með dæmi.

14 Skoðum betur það sem Pétur segir. Fyrri hluti 8. versins lýsir því hvernig kærleika við þurfum að hafa – „brennandi kærleika“. Orðið sem Pétur notaði fyrir „brennandi“ merkir bókstaflega ‚teygður‘. Seinni hluti versins lýsir áhrifunum sem slíkur kærleikur hefur. Hann hylur syndir trúsystkina okkar. Við getum lýst þessu þannig: Við grípum kærleika okkar með báðum höndum eins og hann væri teygjanlegur efnisbútur og teygjum hann meira og meira þangað til hann hylur, ekki eina og ekki tvær heldur „fjölda synda“. Að „hylja“ felur í sér að fyrirgefa. Kærleikur getur hulið veikleika og ófullkomleika annarra eins og efnisbútur getur hulið blett.

15. Hvað erum við fær um að gera þegar kærleikur okkar til bræðra og systra er nógu sterkur? (Kólossubréfið 3:13)

15 Kærleikur okkar til annarra ætti að vera það sterkur að við getum fyrirgefið ófullkomleika trúsystkina okkar – jafnvel þótt það geti stundum verið mjög erfitt. (Lestu Kólossubréfið 3:13.) Þegar okkur tekst að fyrirgefa öðrum sýnum við að kærleikur okkar er sterkur og að við viljum gleðja Jehóva. Hvað fleira getur hjálpað okkur að fyrirgefa mistök annarra og vera ekki fljót að láta það sem þeir gera koma okkur í uppnám?

Við höldum upp á góðar minningar með trúsystkinum okkar og dveljum ekki við þær vondu rétt eins og við höldum bestu myndunum og eyðum hinum. (Sjá 16. og 17. grein.)

16, 17. Hvað getur hjálpað okkur að líta fram hjá minni háttar syndum annarra? Lýstu með dæmi. (Sjá einnig mynd.)

16 Horfum á það jákvæða í fari bræðra okkar og systra en ekki það neikvæða. Ímyndaðu þér að þú eigir góða stund með nokkrum bræðrum og systrum. Allir skemmta sér vel og í lokin tekurðu hópmynd. Þú tekur tvær myndir aukalega ef sú fyrsta skyldi ekki heppnast vel. Þú ert því með þrjár myndir. En þú tekur eftir því að á einni þeirra grettir einn bróðir sig. Hvað gerirðu við myndina? Þú eyðir henni vegna þess að þú átt tvær aðrar þar sem allir eru brosandi, líka þessi bróðir.

17 Við getum líkt myndunum sem við geymum við minningar. Við eigum gjarnan góðar minningar frá þeim tíma sem við vorum með bræðrum okkar og systrum. En segjum að bróðir eða systir hafi við eitt tækifæri sagt eða gert eitthvað sem var óvingjarnlegt. Hvað ættum við að gera? Hvers vegna ekki að reyna að eyða þessari minningu eins og við myndum eyða einni af myndunum? (Orðskv. 19:11; Ef. 4:32) Við getum gleymt minni háttar synd bróður eða systur vegna þess að við eigum svo margar góðar minningar með honum eða henni. Við viljum geyma góðu minningarnar og meta þær mikils.

HVERS VEGNA ER MIKIL ÞÖRF Á KÆRLEIKA NÚNA?

18. Hvaða meginatriði um kærleikann höfum við skoðað í þessari námsgrein?

18 Hvers vegna viljum við að kærleikurinn okkar á milli sé sterkur? Þegar við sýnum bræðrum okkar og systrum kærleika sýnum við Jehóva kærleika. Hvernig sýnum við kærleika okkar til trúsystkina okkar? Ein leið til þess er að hughreysta þau. Við munum geta ‚hughreyst hvert annað‘ ef við höfum samúð hvert með öðru. Hvernig getum við gætt þess að kærleikur okkar hvert til annars sé alltaf sterkur? Með því að gera okkar besta til að fyrirgefa mistök annarra.

19. Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt núna að við sýnum hvert öðru kærleika?

19 Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt núna að við sýnum hvert öðru kærleika? Tökum eftir því sem Pétur segir: „Endir allra hluta er í nánd ... Berið umfram allt brennandi kærleika hvert til annars.“ (1. Pét. 4:7, 8) Hverju getum við búist við eftir því sem endir þessa illa heims nálgast? Jesús talaði um fylgjendur sína þegar hann sagði: „Allar þjóðir munu hata ykkur vegna nafns míns.“ (Matt. 24:9) Við verðum að vera sameinuð til að standast slíkt hatur. Þegar við erum það tekst Satan ekki að sundra okkur vegna þess að kærleikur bindur okkur sterkum böndum – hann er „fullkomið einingarband“. – Kól. 3:14; Fil. 2:1, 2.

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

a Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að sýna bræðrum okkar og systrum kærleika. Hver er ástæðan fyrir því og hvernig getum við sýnt kærleika okkar í ríkari mæli?