NÁMSGREIN 2
SÖNGUR 132 Nú erum við eitt
Eiginmaður á að virða eiginkonu sína
„Þið eiginmenn … virðið þær.“ – 1. PÉT. 3:7.
Í HNOTSKURN
Hvernig getur eiginmaður sýnt eiginkonu sinni virðingu í orði og verki?
1. Nefndu eina ástæðu fyrir því að Jehóva gaf mönnunum hjónabandið.
JEHÓVA er „hinn hamingjusami Guð“ og vill að við séum líka hamingjusöm. (1. Tím. 1:11) Hann hefur gefið okkur margt sem hjálpar okkur að njóta lífsins. (Jak. 1:17) Hjónabandið er ein af gjöfum hans. Þegar karl og kona ganga í hjónaband lofa þau að elska, virða og annast hvort annað. Að varðveita náið samband veitir þeim sanna gleði. – Orðskv. 5:18.
2. Hvernig er staðan hjá mörgum hjónum nú á dögum?
2 Því miður gleyma mörg hjón loforðunum sem þau gáfu á brúðkaupsdeginum. Þess vegna eru þau ekki hamingjusöm. Nýleg skýrsla frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni gefur til kynna að margir eiginmenn beiti eiginkonu sína líkamlegu, andlegu eða tilfinningarlegu ofbeldi. Sá sem gerir það sýnir eiginkonu sinni kannski virðingu þegar aðrir sjá og heyra til en beitir hana ofbeldi heima fyrir. Það reynir líka á hjónabandið ef eiginmaðurinn horfir á klám.
3. Hvað getur stuðlað að því að eiginmaður sé ofbeldisfullur?
3 Hvað veldur því að sumir eiginmenn eru ofbeldisfullir? Þeir gætu hafa alist upp hjá ofbeldisfullum föður og halda því að ofbeldi sé eðlilegt. Sumir eru undir áhrifum menningarinnar í samfélaginu sem ýtir kannski undir þá ranghugmynd að „alvöru karlmaður“ þurfi að beita valdi til að sýna konunni hver sé húsbóndinn á heimilinu. Sumir karlmenn hafa ekki lært að hafa hemil á tilfinningum sínum, þar á meðal reiði. Sumir hafa tileinkað sér brenglaða mynd af konum og kynlífi af því að þeir horfa reglulega á klám. Skýrslur benda einnig til þess að þessi vandamál hafi versnað í COVID-19 faraldrinum. En ekkert af þessu réttlætir þó ofbeldisfulla hegðun eiginmannsins.
4. Hvað þurfa kristnir eiginmenn að varast og hvers vegna?
4 Kristnir eiginmenn þurfa að gæta þess að tileinka sér ekki rangt viðhorf til kvenna. a Af hverju? Meðal annars af því að hugsanir eru oft undanfari verka. Páll postuli hvatti andasmurða kristna menn í Róm til að ‚láta ekki heiminn móta sig lengur‘. (Rómv. 12:1, 2) Söfnuðurinn í Róm hafði verið til í nokkur ár þegar Páll skrifaði bréfið. Orð hans bera samt með sér að sumir í söfnuðinum hafi látið siði og hugsunarhátt heimsins hafa áhrif á sig. Þess vegna hvatti hann þá til að breyta hugarfari sínu og hegðun. Leiðbeiningar Páls eiga fullt erindi til kristinna eiginmanna nú á dögum. Sumir þeirra hafa því miður látið hugsunarhátt heimsins hafa áhrif á sig og hafa jafnvel beitt eiginkonu sína ofbeldi. b Hvernig ætlast Jehóva til að eiginmaður komi fram við eiginkonu sína? Svarið er að finna í versinu sem heiti þessarar greinar er byggt á.
5. Hvernig ætti maður að koma fram við eiginkonu sína samkvæmt 1. Pétursbréfi 3:7?
5 Lestu 1. Pétursbréf 3:7. Jehóva skipar eiginmanni að virða konu sína. Maður sem virðir eiginkonu sína er góður og hlýlegur við hana. Í þessari grein ræðum við hvernig maður getur sýnt konunni sinni virðingu. En fyrst skulum við fjalla um það sem eiginmaður ætti aldrei að gera konunni sinni.
ÓVIRTU EKKI KONUNA ÞÍNA MEÐ HEGÐUN ÞINNI
6. Hvernig lítur Jehóva á mann sem beitir eiginkonu sína líkamlegu ofbeldi? (Kólossubréfið 3:19)
6 Líkamlegt ofbeldi. Jehóva hatar þá sem beita ofbeldi. (Sálm. 11:5) Hann fordæmir sérstaklega eiginmenn sem beita konu sína ofbeldi. (Mal. 2:16; lestu Kólossubréfið 3:19.) Ef eiginmaður kemur ekki vel fram við konuna sína hefur það áhrif á samband hans við Guð eins og kemur fram í 1. Pétursbréfi 3:7 sem greinin er byggð á. Það er ekki víst að Jehóva hlusti einu sinni á bænir hans.
7. Hvers konar tal þarf eiginmaður að forðast samkvæmt Efesusbréfinu 4:31, 32? (Sjá einnig orðaskýringu.)
7 Andlegt ofbeldi. Sumir eiginmenn beita konu sína ofbeldi með reiðilegum og særandi orðum. En Jehóva hatar „reiði, bræði, öskur og svívirðingar“. c (Lestu Efesusbréfið 4:31, 32.) Hann heyrir allt. Það skiptir Jehóva máli hvernig maður talar við eiginkonu sína, jafnvel innan veggja heimilisins. Maður sem talar hranalega við eiginkonu sína skaðar ekki aðeins hjónabandið heldur líka vináttusamband sitt við Guð. – Jak. 1:26.
8. Hvernig lítur Jehóva á klám og hvers vegna?
8 Að horfa á klám. Hvernig lítur Jehóva á klám? Hann hatar það. Maður sem horfir á klámfengnar myndir skemmir sambandið við Jehóva og niðurlægir eiginkonu sína. d Jehóva ætlast til þess að eiginmaður sé konunni sinni trúr, ekki aðeins í verki heldur líka í hugsun. Jesús sagði að maður sem horfði girndaraugum á aðra konu hefði þegar framið hjúskaparbrot með henni „í hjarta sínu“. e – Matt. 5:28, 29.
9. Af hverju hefur Jehóva andstyggð á því að eiginmaður niðurlægi konuna sína kynferðislega?
9 Niðurlægjandi kynferðislegar athafnir. Sumir eiginmenn þvinga konuna sína til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum sem eru niðurlægjandi og valda því að henni finnst hún óhrein eða ekki elskuð. Jehóva hatar slíka eigingirni og vanvirðingu. Hann ætlast til þess að eiginmaður elski og annist eiginkonu sína og virði tilfinningar hennar. (Ef. 5:28, 29) Hvað ef kristinn eiginmaður niðurlægir konuna sína, beitir hana ofbeldi eða horfir á klám? Hvernig getur hann breytt hugarfari sínu og hátterni?
AÐ HÆTTA NIÐURLÆGJANDI HEGÐUN
10. Hvað geta eiginmenn lært af fordæmi Jesú?
10 Hvað getur hjálpað eiginmanni að hætta ofbeldisfullri og niðurlægjandi hegðun? Hann getur lagt sig fram um að líkja eftir Jesú. Jesús var ógiftur en framkoma hans við lærisveinana er fyrirmynd um hvernig eiginmaður á að koma fram við eiginkonu sína. (Ef. 5:25) Hvernig talaði Jesús við postulana? Hvernig kom hann fram við þá og hvað geta eiginmenn lært af því?
11. Hvernig kom Jesús fram við postulana?
11 Jesús var alltaf hlýlegur við postula sína og sýndi þeim virðingu. Hann var aldrei hranalegur eða ráðríkur. Þótt hann væri Drottinn þeirra og meistari fannst honum hann ekki þurfa að sanna vald sitt með því að vera ógnandi í framkomu. Hann var öllu heldur auðmjúkur og þjónaði þeim. (Jóh. 13:12–17) Hann sagði við lærisveinana: „Lærið af mér því að ég er ljúfur í lund og lítillátur í hjarta, og þá endurnærist þið.“ (Matt. 11:28–30) Við tökum eftir að Jesús var ljúfur í lund. Slíkur maður er ekki veikgeðja heldur býr hann yfir innri styrk og sjálfstjórn. Hann heldur ró sinni þegar honum er ögrað og hefur stjórn á tilfinningum sínum.
12. Hvernig talaði Jesús við fylgjendur sína og aðra?
12 Jesús hvatti og hughreysti aðra með orðum sínum. Hann var ekki hranalegur við fylgjendur sína. (Lúk. 8:47, 48) „Hann svaraði ekki með fúkyrðum“ þegar andstæðingar smánuðu hann og reyndu að reita hann til reiði. (1. Pét. 2:21–23) Hann kaus stundum að segja ekki neitt frekar en að svara hranalega. (Matt. 27:12–14) Hann er frábær fyrirmynd fyrir kristna eiginmenn.
13. Hvernig „binst“ maður eiginkonu sinni eins og kemur fram í Matteusi 19:4–6? (Sjá einnig mynd.)
13 Jesús sagði að eiginmaður ætti að vera eiginkonu sinni trúr. Hann vitnaði í föður sinn sem sagði að maður ætti að ‚bindast konu sinni‘. (Lestu Matteus 19:4–6.) Gríska sagnorðið sem þýtt er ‚bindast‘ merkir bókstaflega ‚að líma‘. Samband hjóna ætti að vera svo sterkt að það er eins og þau séu límd saman. Það er ekki hægt að rjúfa bandið án þess að bæði hljóti skaða af. Maður sem myndar slík tengsl við eiginkonu sína forðast klám í hvaða mynd sem er. Hann snýr augunum strax frá „því sem er einskis virði“. (Sálm. 119:37) Það má segja að hann geri sáttmála við augu sín um að horfa ekki girndaraugum á nokkra aðra konu en eiginkonu sína. – Job. 31:1.
14. Hvernig getur ofbeldisfullur eiginmaður bætt sambandið við Jehóva og eiginkonu sína?
14 Maður sem beitir eiginkonu sína líkamlegu eða andlegu ofbeldi þarf að gera fleira til að bæta sambandið við Jehóva og konuna sína. Hvað þarf hann að gera? Í fyrsta lagi þarf hann að horfast í augu við að hann á við alvarlegt vandamál að stríða. Ekkert er hulið augum Jehóva. (Sálm. 44:21; Préd. 12:14; Hebr. 4:13) Í öðru lagi hættir hann að beita eiginkonu sína ofbeldi og breytir hegðun sinni. (Orðskv. 28:13) Í þriðja lagi biður hann konu sína og Jehóva fyrirgefningar. (Post. 3:19) Hann ætti líka að sárbæna Jehóva um að gefa sér bæði löngun til að breyta sér og hjálp til að hafa stjórn á hugsunum sínum, orðum og verkum. (Sálm. 51:10–12; 2. Kor. 10:5; Fil. 2:13) Í fjórða lagi breytir hann í samræmi við bænir sínar með því að gera allt sem hann getur til að fá hatur á öllu ofbeldi og niðrandi tali. (Sálm. 97:10) Í fimmta lagi leitar hann tafarlaust hjálpar hjá kærleiksríkum öldungum safnaðarins. (Jak. 5:14–16) Í sjötta lagi gerir hann sér viðbragðsáætlun sem hjálpar honum að forðast alla óviðeigandi hegðun eftirleiðis. Eiginmaður sem horfir á klám ætti að gera sams konar ráðstafanir. Jehóva blessar viðleitni hans til að breyta sér. (Sálm. 37:5) En það er ekki nóg að eiginmaður hætti rangri breytni. Hann þarf líka að læra að sýna konunni sinni virðingu. Hvernig fer hann að því?
HVERNIG SÝNIRÐU KONUNNI ÞINNI ÁST OG VIRÐINGU?
15. Hvernig getur eiginmaður sýnt konunni sinni að hann elski hana?
15 Sýndu henni að þú elskir hana. Sumir bræður hafa vanið sig á að sýna konunni sinni á hverjum degi hversu vænt þeim þykir um hana. (1. Jóh. 3:18) Það stuðlar að hamingjuríku hjónabandi. Eiginmaður getur sýnt konu sinni ástúð með ýmsum hætti eins og að halda í hönd hennar og faðma hana hlýlega. Hann sendir henni kannski smáskilaboð eins og „ég sakna þín“ eða „hvernig gengur í vinnunni?“ Af og til gæti hann tjáð ást sína með því að skrifa nokkur vel valin orð á kort. Þegar eiginmaður gerir eitthvað þessu líkt sýnir hann konunni sinni virðingu og styrkir hjónabandið.
16. Af hverju ætti eiginmaður að sýna konu sinni þakklæti?
16 Sýndu henni þakklæti. Maður sem virðir konuna sína er uppörvandi og hvetjandi. Hann gerir það meðal annars með því að sýna henni þakklæti fyrir allt sem hún gerir til að styðja hann. (Kól. 3:15) Henni hlýnar um hjartarætur að fá einlægt hrós frá manninum sínum. Hún finnur fyrir öryggi, ást og virðingu. – Orðskv. 31:28.
17. Hvernig getur eiginmaður sýnt konunni sinni virðingu?
17 Vertu hlýlegur og sýndu henni virðingu. Eiginmaður sem elskar konuna sína hefur miklar mætur á henni. Hann lítur á hana sem dýrmæta gjöf frá Jehóva. (Orðskv. 18:22; 31:10) Þess vegna er hann hlýlegur og sýnir henni virðingu á öllum sviðum, líka í ástarlífinu. Hann þvingar hana ekki til að taka þátt í kynferðislegum athöfnum sem henni finnst óþægilegar, niðurlægjandi eða angra samvisku hennar. f Hann reynir líka að varðveita hreina samvisku frammi fyrir Jehóva. – Post. 24:16.
18. Hvað ætti eiginmaður að vera staðráðinn í að gera? (Sjá einnig rammann „ Fjórar leiðir til að sýna eiginkonunni virðingu.“)
18 Eiginmenn, þið getið treyst að Jehóva sér og kann vel að meta það sem þið gerið til að sýna konunni ykkar virðingu á öllum sviðum lífsins. Vertu staðráðinn í að sýna konunni þinni virðingu með því að forðast niðurlægjandi hegðun og með því að vera hlýlegur og ástúðlegur. Þannig sýnir þú að þú elskar hana og að hún er þér mikils virði. Virtu eiginkonu þína og þá verndarðu vináttusambandið við Jehóva sem er mikilvægast af öllu. – Sálm. 25:14.
SÖNGUR 131 „Það sem Guð hefur tengt saman“
a Eiginmenn ættu að lesa greinina „Kemur þú fram við konur eins og Jehóva gerir?“ í Varðturninum í janúar 2024.
b Þeir sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi geta haft gagn af greininni „Hjálp handa fórnarlömbum heimilisofbeldis“ í greinaröðinni „Fleiri viðfangsefni“ á jw.org og í JW Library®.
c ORÐASKÝRING: „Svívirðingar“ ná yfir niðrandi uppnefni og harkalega og sífellda gagnrýni. Öll illkvittni, móðganir og niðrandi tal fellur undir svívirðingar.
d Sjá greinina „Klám getur eyðilagt hjónaband þitt“ á jw.org og í JW Library.
e Eiginkona manns sem horfir á klám gæti haft gagn af greininni „Þegar makinn horfir á klám“ í Varðturninum í ágúst 2023.
f Biblían lýsir ekki í smáatriðum hvaða kynlífsathafnir hjóna teljast hreinar eða óhreinar. Kristin hjón þurfa að sýna með ákvörðunum sínum að þau vilja þóknast Jehóva og hvort öðru og varðveita hreina samvisku. Almennt ættu hjón ekki að ræða við aðra um ástarlíf sitt.
g MYND: Vinnufélagar reyna að fá bróður til að kíkja í klámblað.