Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Óttast þú eigi, ég hjálpa þér“

„Óttast þú eigi, ég hjálpa þér“

ÍMYNDAÐU þér að þú sért að ganga um götu seint um kvöld. Skyndilega tekurðu eftir að einhver er að elta þig. Þegar þú nemur staðar nemur hann líka staðar. Þegar þú eykur hraðann gerir hann það líka. Þú hleypur eins og fætur toga heim til vinar þíns sem býr í nágrenninu. Þú varpar öndinni léttara þegar vinur þinn opnar dyrnar og býður þér inn.

Þú hefur kannski ekki upplifað nákvæmlega þessar aðstæður en aðrar áhyggjur í lífinu gætu valdið þér kvíða. Þú gætir átt í glímu við veikleika sem þú vilt sigrast á, en fellur alltaf í sömu gryfjuna. Hefurðu verið atvinnulaus lengi og ekki tekist að finna vinnu, sama hvað þú reynir? Hefurðu áhyggjur af því að eldast og takast á við heilsubrest sem því fylgir? Eða er eitthvað annað sem veldur þér áhyggjum?

Þætti þér ekki vænt um að eiga einhvern að sem þú gætir sagt frá áhyggjum þínum og getur hjálpað þér þegar þú þarft á því að halda, sama hver vandamál þín eru? Áttu svona góðan vin? Já, það áttu! Jehóva er þér þess konar vinur, rétt eins og hann var ættföðurnum Abraham. Við getum séð það af Jesaja 41:8-13. Í 10. og 13. versi segir Jehóva við þjóna sína: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns. Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: ,Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!‘“ – Biblían 1981.

„ÉG STYÐ ÞIG“

Finnst þér þetta ekki hughreystandi orð? Sjáðu sjálfan þig fyrir þér í myndinni sem Jehóva dregur upp. Hugmyndin hér er ekki sú að Jehóva sé að leiða þig, þó að það sé í sjálfu sér notaleg tilhugsun. Ef Jehóva leiddi þig héldi hann með hægri hendi sinni í vinstri hönd þína. Þess í stað réttir Jehóva fram ,hægri hendi réttlætis síns‘ og grípur í „hægri hönd þína“ eins og hann sé að kippa þér út úr erfiðum aðstæðum. Á sama tíma styrkir hann þig með orðunum: „Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!“

Líturðu á Jehóva sem ástríkan föður og vin sem kemur þér til hjálpar í erfiðleikum? Hann hefur áhuga á þér, er umhugað um velferð þína og er staðráðinn í að hjálpa þér. Þegar erfiðleikar verða á vegi þínum vill Jehóva að þú finnir fyrir öryggi af því að hann ber sterkar tilfinningar til þín. Hann er sannarlega „örugg hjálp í nauðum“. – Sálm. 46:2.

SEKTARKENND VEGNA FYRRI MISTAKA

Sumir kvelja sjálfa sig vegna fyrri breytni og velta fyrir sér hvort Guð hafi fyrirgefið þeim. Ef sú er raunin hjá þér skaltu hugsa um hinn trúfasta Job sem viðurkenndi ,æskusyndir sínar‘. (Job. 13:26) Sálmaritarinn Davíð fann fyrir svipuðum tilfinningum og sárbændi Jehóva: „Minnst þú ekki æskusynda minna og afbrota.“ (Sálm. 25:7) Þar sem við erum ófullkomin höfum við öll „syndgað og skortir Guðs dýrð“. – Rómv. 3:23.

Orðin í 41. kafla Jesaja voru upphaflega skrifuð til að hughreysta þjóð Guðs til forna. Hún hafði syndgað svo alvarlega að Jehóva ákvað að refsa henni með því að láta flytja hana í útlegð til Babýlonar. (Jes. 39:6, 7) En Guð hugsaði fram til þess tíma þegar hann myndi frelsa þá sem iðruðust og sneru aftur til hans. (Jes. 41:8, 9; 49:8) Nú á tímum sýnir Jehóva sama kærleika og miskunn þeim sem iðrast í einlægni og vilja þóknast honum. – Sálm. 51:3.

Tökum Takuya * sem dæmi. Hann átti í baráttu við þá óhreinu ávana að horfa á klám og stunda sjálfsfróun. Aftur og aftur féll hann í sama farið. Hvernig leið honum? „Mér fannst ég ekki eiga neitt gott skilið en þegar ég leitaði til Jehóva í bæn til að biðja hann um fyrirgefningu reisti hann mig á fætur.“ Hvernig gerði Jehóva það? Öldungar í söfnuði Takuya sögðu að hann gæti hringt í hvert skipti sem hann félli. Hann viðurkennir: „Það var ekki auðvelt að hringja í þá en í hvert sinn sem ég gerði það fékk ég styrk.“ Öldungarnir báðu síðan farandhirðinn að fara í hirðisheimsókn til Takuya. Farandhirðirinn sagði við hann: „Það er engin tilviljun að ég er hér. Ég er hér af því að öldungarnir vildu að ég kæmi hingað. Þeir völdu þig til að fá þessa hirðisheimsókn.“ Takuya lítur um öxl og segir: „Það var ég sem syndgaði en Jehóva veitti mér samt hjálp fyrir milligöngu öldunganna.“ Takuya tók framförum og varð hæfur til að gerast brautryðjandi. Núna starfar hann á einni af deildarskrifstofum safnaðarins. Þótt þú fallir reisir Guð þig á fætur rétt eins og hann hjálpaði þessum bróður.

ÁHYGGJUR AF ÞVÍ HVERNIG ÞÚ ÁTT AÐ SJÁ FYRIR ÞÉR

Margir eru áhyggjufullir af því að þeir eru atvinnulausir. Sumir missa vinnuna og eiga erfitt með að finna aðra tekjulind. Ímyndaðu þér hvernig þér liði ef hver vinnuveitandinn á fætur öðrum neitaði þér um vinnu. Við slíkar aðstæður missa sumir sjálfsvirðinguna. Hvernig getur Jehóva hjálpað þér? Hann sér þér kannski ekki strax fyrir bestu vinnunni en hann gæti hjálpað þér með því að minna þig á það sem Davíð konungur komst að raun um, en hann sagði: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ (Sálm. 37:25) Já, þú ert mikils virði í augum Jehóva og með ,hægri hendi réttlætis síns‘ getur hann hjálpað þér að afla þér þess sem þú þarfnast til að halda áfram að þjóna sér.

Hvernig gæti Jehóva hjálpað þér ef þú missir vinnuna?

Sara, sem býr í Kólumbíu, fann fyrir því hvernig Jehóva hjálpaði henni. Hún var í krefjandi en vel launaðri vinnu hjá virtu fyrirtæki. En hún vildi gera meira fyrir Jehóva og ákvað því að segja upp vinnunni og gerast brautryðjandi. Það var þó ekki auðvelt fyrir hana að finna hentugt hlutastarf. Hún opnaði litla ísbúð en með tímanum þrutu peningarnir og hún þurfti að loka búðinni. „Þrjú löng ár liðu en mér tókst mér að þrauka, þökk sé Jehóva,“ segir Sara. Hún lærði að greina milli nauðsynja og munaðar og að hafa ekki áhyggjur af morgundeginum. (Matt. 6:33, 34) Að lokum hringdi fyrrverandi vinnuveitandi hennar og bauð henni sömu stöðu og hún hafði haft áður. Hún svaraði honum að hún myndi bara þiggja hlutastarf og aðeins ef hún fengi frí til að mæta á samkomur og mót. Þó að Sara þéni ekki eins mikið og áður getur hún haldið brautryðjandastarfinu áfram. Hún segir að á þessu erfiða tímabili hafi hún fundið fyrir kærleiksríkri hendi Jehóva.

VAXANDI ÁHYGGJUR AF ELLINNI

Fólk getur líka haft miklar áhyggjur af því að eldast. Margir sem eru að nálgast eftirlaunaaldurinn velta fyrir sér hvort þeir eigi eftir að hafa nóg handa á milli til að geta lifað þægilegu lífi. Þeir hafa líka áhyggjur af heilsuvandamálum sem gætu komið upp í ellinni. Sennilega var það Davíð sem bað til Jehóva: „Útskúfa mér ekki í elli minni, yfirgef mig eigi er þróttur minn þverr.“ – Sálm. 71:9, 18.

Hvað getur veitt þjónum Jehóva öryggiskennd varðandi ellina? Þeir þurfa að halda áfram að byggja upp trúna á Guð og treysta að hann sjái þeim fyrir því sem þeir þurfa. Sumir sem hafa búið við munað á árum áður gætu þurft að einfalda lífið og læra að láta sér nægja minna. Kannski komast þeir jafnvel að raun um að þeir njóta þess að borða ,einn skammt kálmetis‘ í stað ,alinauts‘, og það gæti líka verið betra fyrir heilsuna. (Orðskv. 15:17) Ef þú ert ákveðinn í að þóknast Jehóva sér hann vissulega fyrir þér í ellinni.

José og Rose með Tony og Wendy.

Tökum José og Rose sem dæmi en þau hafa þjónað Jehóva í fullu starfi í meira en 65 ár. Á tímabili þurftu þau að annast föður Rose sem þurfti umönnun allan sólarhringinn. Auk þess greindist José með krabbamein og þurfti að gangast undir aðgerð og lyfjameðferð. Hefur Jehóva rétt út hægri hönd sína til að hjálpa þessum trúföstu hjónum? Já, hann hefur gert það. Hann notaði til þess hjón í söfnuðinum, Tony og Wendy. Þau voru með íbúð sem þau vildu bjóða brautryðjendum að búa í ókeypis. Tony mundi að þegar hann var í framhaldsskóla hafði hann oft horft út um gluggann og séð José og Rose í boðuninni. Honum þótti ákaflega vænt um þau vegna þess hve mikinn eldmóð þau höfðu og það hafði haft mikil áhrif á hann. Þau höfðu helgað líf sitt þjónustunni við Jehóva og Tony og Wendy langaði því til að bjóða þeim íbúðina. Síðastliðin 15 ár hafa þau hjálpað José og Rose sem eru nú á miðjum níræðisaldri. Eldri hjónin líta á hjálp yngri hjónanna sem gjöf frá Jehóva.

Guð réttir þér líka ,hægri hönd réttlætis síns‘. Bregst þú við með því að grípa í hönd hans sem lofar þér: „Óttast þú eigi, ég hjálpa þér“?

^ gr. 11 Sumum nöfnum er breytt.