Hefur rituðu orði Guðs verið breytt?
Sumir velta fyrir sér hvort rituðu orði Guðs hafi verið breytt. Spámaðurinn Jesaja sagði: „Orð Guðs vors varir að eilífu.“ (Jesaja 40:8) Hvernig getum við verið viss um að loforð Guðs hafi haldist óbreytt?
Guð hefur vald til að varðveita orð sitt og koma í veg fyrir að það spillist. Þegar handskrifuð afrit af því voru gerð til forna töldu vandvirkir afritarar hvern staf til að tryggja að engu væri bætt við, breytt eða sleppt úr heilaga textanum. En menn eru ófullkomnir og sumir afritarar gerðu smávægilegar villur sem breyta þó ekki merkingu frumtextans.
HVERNIG GETUM VIÐ VERIÐ VISS UM AÐ UPPRUNALEGUR BOÐSKAPUR GUÐS SÉ Í RITNINGUNNI NÚNA?
Til eru mörg þúsund afrit af fornum handritum Ritningarinnar. Ef einu afriti hefur verið breytt hið minnsta er hægt að sjá það með því að bera það saman við önnur afrit. Nánari upplýsingar má finna í greininni „Hefur Biblíunni verið breytt?“ á jw.org.
Tökum sem dæmi forn rit sem eru kölluð Dauðahafshandritin. Bedúínar fundu þau árið 1947 í hellum nálægt Dauðahafi. Þessi fornu rit sem hafa að geyma hluta af Ritningunni eru yfir tvö þúsund ára gömul. Sérfræðingar báru þessi fornu handrit saman við Ritninguna sem við höfum nú á dögum. Að hverju komust þeir?
Fræðimenn komust að því að orð Guðs sem við höfum núna hefur að geyma sama boðskap og frumritin. * Nákvæm rannsókn á gömlum handritum staðfestir að það sem við lesum í Ritningunni sé upphaflegur boðskapur Guðs. Við megum treysta því að Guð hafi varðveitt Ritninguna, sem hann lét skrá handa okkur, eins og hún var.
Við getum því lesið orð Guðs fullviss um nákvæmni þess. Höfum það í huga þegar við skoðum næst hvað við lærum um Guð af spámönnum hans.
^ gr. 7 The Complete Dead Sea Scrolls in English eftir Geza Vermes, bls. 16.