Enn eitt sönnunargagn
Eru til fornleifar sem styðja frásögur Biblíunnar? Í grein í tímaritinu Biblical Archaeology Review árið 2014 var spurt: „Hversu margar persónur úr Hebresku ritningunum hafa fornleifafundir staðfest að hafi verið til?“ Svarið var: „Að minnsta kosti 50.“ Einn þeirra sem er ekki á listanum var Tatnaí. Hver var hann? Skoðum það litla sem sagt er um hann í Biblíunni.
Jerúsalem var einu sinni hluti af hinu víðfeðma Persaveldi. Borgin var á því svæði sem Persar kölluðu „handan fljóts“ og var vestan Efratfljóts. Eftir að hafa sigrað Babýlon gáfu Persar Gyðingum frelsi og veittu þeim leyfi til að endurreisa musteri Jehóva í Jerúsalem. (Esrabók 1:1-4) Óvinir Gyðinga voru á móti endurreisninni og undir því yfirskini ásökuðu þeir þá um uppreisn gegn Persum. (Esrabók 4:4-16) Á valdatíð Daríusar fyrsta (522-486 f.Kr.) fór persneskur embættismaður fyrir rannsókn þessa máls. Hann hét Tatnaí. Í Biblíunni er hann titlaður „landstjóri handan fljóts“. – Esrabók 5:3-7.
Nokkrar fleygrúnatöflur með nafni Tatnaí hafa varðveist í fornleifum sem eru sennilega úr ættarsafni. Tafla úr safninu, sem tengir þessa biblíupersónu við einn úr ættinni, er skuldaviðurkenning dagsett á 20. stjórnarári Daríusar fyrsta, árið 502 f.Kr. Einn vottur að þessum viðskiptum er sagður vera þjónn „Tattannú landstjóra handan fljóts“ – sá sami og Tatnaí sem nefndur er í Esrabók í Biblíunni.
Hvaða stöðu gegndi hann? Árið 535 f.Kr. skipti Kýrus mikli yfirráðasvæði sínu niður í skattlönd. Eitt af þeim var kallað „Babýlon og handan fljóts“. Því var síðar skipt í tvennt og annar hlutinn kallaður „handan fljóts“. Sílí-Sýrland, Fönikía, Samaría og Júda tilheyrðu þeim hluta og honum var að öllum líkindum stjórnað frá Damaskus. Tatnaí var landstjóri svæðisins frá árinu 520 til 502 f.Kr. eða þar um bil.
Eftir að hafa farið til Jerúsalem til að rannsaka ásakanir um uppreisn Gyðinga sendi Tatnaí skýrslu til Daríusar um að Gyðingar héldu því fram að þeir hefðu leyfi frá Kýrusi til að endurreisa musteri Jehóva. Leit í skjalasafni konungs færði sönnur á það. (Esrabók 5:6, 7, 11-13; 6:1-3) Í kjölfarið fékk Tatnaí skipun um að láta verkið afskiptalaust. Hann hlýddi því. – Esrabók 6:6, 7, 13.
Að vísu er „Tatnaí, landstjóri handan fljóts“, ekki stórt nafn í mannkynssögunni en það er þó eftirtektarvert að Biblían nefnir hann og gefur honum nákvæmlega réttan titil. Fornleifafræðin kemur hér með enn eitt sönnunargagn fyrir sögulegri nákvæmni Biblíunnar.