Leysir þú úr ágreiningi og stuðlar að friði?
JEHÓVA GUÐ vill að þjónar sínir búi við frið og leggi sig fram um að stuðla að friði. Þegar við gerum það ríkir friður í söfnuðinum og þannig verður hann aðlaðandi í augum fólks sem þráir að losna undan erjum.
Þekktur galdralæknir á Madagaskar tók eftir friðinum og einingunni sem ríkti meðal votta Jehóva. Hann hugsaði með sér að ef hann myndi einhvern tíma ganga í trúarsöfnuð yrði það þessi. Með tímanum hætti hann öllu sem tengdist spíritismanum. Það tók hann svo nokkra mánuði að koma lagi á hjónabandsmál sín en eftir það gerðist hann tilbiðjandi Jehóva, Guðs friðarins.
Á hverju ári finna þúsundir manna friðinn, sem þeir þrá svo heitt og innilega, í kristna söfnuðinum, rétt eins og þessi maður. Í Biblíunni kemur hins vegar fram að afbrýðisemi og þrætugirni í söfnuðinum getur valdið vinaskilnaði og öðrum vandamálum. (Jak. 3:14-16, NW) En Biblían gefur líka góð ráð sem hjálpa okkur að forðast slík vandamál og stuðla að friði. Skoðum nokkur dæmi til að sjá hvernig þessi ráð koma að góðum notum.
VANDAMÁL OG LAUSNIR
„Ég vann með bróður en okkur kom ekki alltaf vel saman. Eitt sinn þegar við rifumst hástöfum komu tveir menn inn og sáu það sem okkur fór á milli.“ – CHRIS.
„Ég átti fast samstarf með systur en allt í einu hætti hún að vilja boða trúna með mér. Síðan hætti hún alveg að tala við mig. Ég vissi ekkert út af hverju.“ – JANET.
„Ég var að tala við tvo aðra í síma. Annar þeirra kvaddi og ég hélt að hann hefði skellt á. Ég hélt áfram að tala við hinn og talaði illa um þann sem ég hélt að hefði skellt á, en hann var enn á línunni.“ – MICHAEL.
„Í söfnuðinum okkar kastaðist í kekki milli tveggja brautryðjendasystra. Önnur þeirra fór að segja hinni til syndanna. Rifrildi þeirra hafði neikvæð áhrif á aðra.“ – GARY.
Manni gæti fundist þessar uppákomur vera minni háttar mál. En þær hefðu allar getað haft varanleg áhrif á þá sem áttu hlut að máli, bæði á tilfinningar þeirra og þjónustu við Jehóva. Við getum þó glaðst yfir því að þessir bræður og systur sættust öll þar sem þau notuðu Biblíuna til að leiðbeina sér. Hvaða ráð heldurðu að hafi komið þeim að gagni?
„Deilið ekki á leiðinni.“ (1. Mós. 45:24) Jósef gaf bræðrum sínum þetta ráð þegar þeir sneru aftur til föður síns, og það var sannarlega viturlegt ráð. Þegar maður hefur ekki stjórn á tilfinningunum og reiðist auðveldlega getur maður líka reitt aðra til reiði. Chris áttaði sig á að hann átti stundum erfitt með að vera auðmjúkur og taka leiðbeiningum. Hann vildi taka sig á og bað því bróðurinn, sem hann hafði rifist við, afsökunar og lagði sig síðan fram um að hafa stjórn á skapinu. Bróðirinn, sem vann með honum, tók eftir því og breytti þá líka ýmsu hjá sér. Þeir þjóna nú Jehóva saman í sátt og samlyndi.
„Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin.“ (Orðskv. 15:22) Janet áttaði sig á að hún þurfti að taka þetta ráð betur til sín. Hún ákvað að ræða málin við hina systurina. Þegar þær töluðu saman hvatti Janet hana nærgætnislega til að segja sér hvað væri að. Í fyrstu var samtalið ekki auðvelt. En þegar þær gátu rætt saman í rólegheitum lagaðist það. Systirin uppgötvaði að hún hafði misskilið mál sem Janet hafði ekki einu sinni komið nálægt. Hún baðst afsökunar og þær þjóna nú Jehóva aftur saman.
„Sértu ... að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn.“ (Matt. 5:23, 24) Jesús gaf þetta ráð í fjallræðunni. Michael leið ömurlega þegar hann áttaði sig á hvað hann hafði verið leiðinlegur og ónærgætinn. Hann ákvað að gera hvað sem þyrfti til að bæta fyrir það sem hann hafði gert. Hann fór til bróðurins sem hann hafði sært og bað hann auðmjúkur afsökunar. Hvernig fór? Michael segir: „Bróðirinn fyrirgaf mér einlæglega.“ Þeir urðu vinir á ný.
„Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“ (Kól. 3:12-14) Hvað um brautryðjendurna sem fóru að rífast? Öldungur hvatti þær vingjarnlega til að hugsa um spurningar eins og þessar: Höfum við rétt á að valda öðrum hugarangri með deilum okkar? Er gild ástæða fyrir því að við umberum ekki hvor aðra og stuðlum ekki að friði þegar við þjónum Jehóva? Þær tóku til sín ráð öldungsins og fóru eftir því. Núna lyndir þeim vel og þær boða fagnaðarerindið saman.
Þegar einhver særir þig getur verið gott að fara eftir leiðbeiningunum í Kólossubréfinu 3:12-14. Margir hafa komist að raun um að auðmýkt getur hjálpað þeim að fyrirgefa og gleyma. En hvað ef við höfum reynt að fyrirgefa en getum það ekki? Meginreglan í Matteusi 18:15 getur reynst okkur vel. Þar talaði Jesús um það skref sem þarf að stíga þegar einhver hefur drýgt alvarlega synd gegn öðrum. En meginreglan getur vel átt við um þínar aðstæður líka. Farðu til bróðurins eða systurinnar og ræddu vingjarnlega við hann eða hana. Vertu auðmjúkur og reyndu að ná sáttum.
Biblían hefur auðvitað að geyma mörg önnur góð ráð. Til að geta fylgt þeim þurfum við að sýna ,ávöxt andans‘, það er að segja ,kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfsaga‘. (Gal. 5:22, 23) Þessir góðu eiginleikar auðvelda okkur að eiga hnökralaus og friðsamleg samskipti rétt eins og olía smyr vél þannig að hún gangi hnökralaust.
ÓLÍKIR PERSÓNULEIKAR AUÐGA SÖFNUÐINN
Hvert og eitt okkar hefur sinn eigin persónuleika. Við höfum mismunandi eiginleika, viðhorf og leiðir til að tjá okkur. Vinátta við ólíka einstaklinga getur verið auðgandi en hún getur líka leitt til þess að upp komi misskilningur og ósætti. Reyndur öldungur bendir á dæmi: „Sá sem er feiminn getur átt erfitt með að umgangast þann sem er sífellt kátur og mannblendinn. Kannski finnst okkur þessi munur á persónuleikum ekki eiga að skipta máli en hann getur valdið miklum erfiðleikum.“ Hugsum við þá að mjög ólíkt fólk geti hreinlega ekki unnið saman vandræðalaust? Tökum tvo af postulunum sem dæmi. Hvers konar maður var Pétur? Við hugsum líklega um hann sem opinskáan og hvatvísan mann. En Jóhannes? Við ímyndum okkur líklega að hann hafi verið kærleiksríkur og oftast yfirvegaður í tali og hegðun. Við höfum ýmis rök fyrir að svo hafi verið. Þeir virðast hafa verið töluvert ólíkir en samt unnu þeir vel saman. (Post. 8:14; Gal. 2:9) Að sama skapi ættu kristnir menn nú á tímum að geta unnið saman þó að þeir séu ólíkir.
Ef til vill er bróðir í söfnuðinum okkar sem segir eða gerir eitthvað sem fer í taugarnar á okkur. Við áttum okkur þó á að Kristur dó fyrir hann og að við eigum að sýna kærleika. (Jóh. 13:34, 35; Rómv. 5:6-8) Við ættum því ekki að reyna að forðast hann eða hugsa sem svo að við getum ekki verið vinir. Spyrjum okkur öllu heldur: Gerir þessi bróðir eitthvað sem stangast greinilega á við Biblíuna? Er hann að reyna að særa mig af ásettu ráði? Eða höfum við einfaldlega ólíka persónuleika? Önnur mikilvæg spurning er: Hvaða eiginleika hans gæti ég tileinkað mér?
Þessi síðasta spurning er lykilatriði. Er hinn málglaður og þú frekar fámáll? Hvernig væri þá að biðja hann um samstarf og reyna að læra af því hvernig hann byrjar samræður í boðuninni? Er hann kannski örlátari en þú? Taktu þá eftir hve mikla ánægju það hefur í för með sér að gefa þeim sem eru aldraðir, veikir eða þurfandi. Málið er að þó að þú og trúsystkini þitt séuð ólík getið þið orðið nánari með því að einbeita ykkur að hinu jákvæða í fari hvort annars. Kannski verðið þið ekki bestu vinir en þið getið samt orðið nánari og stuðlað að friði, bæði ykkar í milli og í öllum söfnuðinum.
Evodía og Sýntýke voru kannski mjög ólíkar að eðlisfari. Páll postuli hvatti þær samt til að vera „samlyndar vegna Drottins“. (Fil. 4:2) Vinnur þú að slíkum markmiðum, að tilbiðja Jehóva í samlyndi við bræður þína og systur og stuðla að friði í söfnuðinum?
LEYFUM EKKI ÓSÆTTI AÐ HALDA ÁFRAM
Neikvæðni í garð annarra versnar líklega bara ef við reynum ekki að uppræta hana,
rétt eins og illgresi sem vex óhindrað í blómabeði. Ef biturð nær tökum á okkur getur það jafnvel haft áhrif á allan söfnuðinn. En ef við elskum Jehóva og trúsystkini okkar leggjum við okkur öll fram um að láta ekki ósætti raska friði safnaðarins.Ef við tökum á ágreiningi með það að markmiði að ná sáttum getur árangurinn komið okkur á óvart. Systir nokkur komst að því en hún segir: „Mér fannst ein systir koma fram við mig eins og ég væri barn og fannst það óþolandi. Ég varð sífellt pirraðri og fór að vera stuttaraleg við hana. Ég hugsaði með mér að fyrst hún sýndi mér ekki þá virðingu sem ég átti skilið ætlaði ég ekki að sýna henni virðingu.“
Systirin fór þó að hugsa um sína eigin framkomu. „Ég fór að taka eftir mínum eigin göllum og varð mjög vonsvikin út í sjálfa mig. Ég áttaði mig á að ég þyrfti að breyta hugarfari mínu. Eftir að hafa rætt málið við Jehóva í bæn keypti ég litla gjöf handa systurinni og skrifaði kort til að biðjast afsökunar á framkomu minni. Við föðmuðumst og ákváðum að gleyma því sem gerst hafði. Eftir það hafa ekki komið upp nein fleiri vandamál.“
Fólk hefur brýna þörf fyrir frið. Margir hegða sér þó ekki friðsamlega þegar þeim finnst stöðu þeirra eða stolti ögrað. Þetta er algengt í heiminum en meðal þjóna Jehóva ætti að ríkja friður og eining. Páli var innblásið að skrifa: „Ég ... áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.“ (Ef. 4:1-3) Þetta ,band friðarins‘ er ómetanlegt. Vinnum að því að styrkja það og verum ákveðin í að leysa úr öllum ágreiningi sem upp kann að koma á meðal okkar.