Vissir þú?
Hvernig komu samkunduhús til sögunnar?
ORÐIÐ „samkunduhús“ er þýðing á gríska orðinu synagoge′ sem merkir „samkoma“ eða „að safnast saman“. Það er viðeigandi nafn þar sem Gyðingar hafa um aldaraðir safnast saman í samkunduhúsum til fræðslu og tilbeiðslu. Í Gamla testamentinu er hvergi talað beint um samkunduhús en af Nýja testamentinu er greinilegt að þau voru orðin vel þekkt á fyrstu öld.
Flestir fræðimenn telja að samkunduhús eigi rætur að rekja til útlegðar Gyðinga í Babýlon. Í alfræðibókinni Encyclopaedia Judaica segir: „Þegar Gyðingar voru í útlegð í ókunnu landi höfðu þeir ekkert musteri og þurftu á huggun að halda í erfiðleikum sínum. Þeir komu þá saman og lásu í Ritningunum, sennilega á hvíldardögum.“ Svo virðist vera að þeir hafi haldið áfram að safnast saman til að lesa í Ritningunum og biðja þegar þeir voru lausir úr útlegðinni. Þeir byggðu því samkunduhús hvar sem þeir settust að.
Á fyrstu öld voru samkunduhús orðin miðpunktur trúar- og félagslífs Gyðinga sem bjuggu á víð og dreif um Mið-Austurlönd, löndin umhverfis Miðjarðarhaf og í Ísrael. „[Samkunduhúsin] voru notuð fyrir fræðslu, helgimáltíðir, réttarhöld, framlög til þeirra sem voru hjálparþurfi, pólitíska fundi og sem félagsheimili,“ segir Lee Levine, prófessor við Hebreska háskólann í Jerúsalem. Hann bætir við: „Mikilvægastar voru þó auðvitað trúarsamkomurnar.“ Það kemur því ekki á óvart að Jesús kom oft í samkunduhúsin. (Mark. 1:21; 6:2; Lúk. 4:16) Þar kenndi hann fólki, hvatti það og uppörvaði. Eftir að kristni söfnuðurinn var stofnaður fór Páll postuli sömuleiðis oft í samkunduhúsin til að boða trúna. Þeir sem höfðu áhuga á andlegum málum sóttu gjarnan samkunduhúsin og því var Páll vanur að fara fyrst þangað til að boða trúna þegar hann kom í nýja borg. – Post. 17:1, 2; 18:4.