Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eiginnafn Guðs stendur mjög víða í fornum biblíuhandritum með fornhebresku letri.

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Nafn Guðs

Nafn Guðs

Milljónir manna ávarpa Guð með viðeigandi titlum eins og drottinn, hinn eilífi, Allah eða bara Guð. En Guð á sér nafn. Ættum við að nota það?

Hvað heitir Guð?

HVAÐ SEGJA SUMIR?

 

Margir kristnir menn trúa því að Guð heiti Jesús. Sumir telja að það sé ekki nauðsynlegt að nefna Guð með nafni þar sem aðeins sé til einn almáttugur Guð. Og enn aðrir segja að það sé ekki viðeigandi að nefna Guð ákveðnu nafni.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

 

Guð heitir ekki Jesús enda er Jesús ekki almáttugur Guð. Jesús kenndi lærisveinum sínum að ávarpa Guð í bæn: „Faðir, helgist þitt nafn.“ (Lúkas 11:2) Jesús bað sjálfur til Guðs og sagði: „Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ – Jóhannes 12:28.

Í Biblíunni segir Guð: „Ég er Drottinn [Jehóva], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég ekki öðrum.“ (Jesaja 42:8) Nafn Guðs er ritað með fjórum hebreskum samhljóðum, JHVH, og Jehóva er íslensk þýðing á því nafni. Nafnið kemur fyrir um 7.000 sinnum í Gamla testamentinu. * Það kemur oftar fyrir en nokkur titill eins og til dæmis „Guð“, „Hinn almáttugi“ eða „Drottinn“ og oftar en nokkurt annað nafn svo sem Abraham, Móse eða Davíð.

Hvergi í Biblíunni leggur Jehóva bann við því að nota nafn sitt á viðeigandi hátt. Öllu heldur kemur þar fram að þjónar Guðs hafi notað nafn hans mikið. Það var innifalið í nöfnum sem þeir gáfu börnum sínum, svo sem Elía en það þýðir „Jehóva er Guð minn“ og Sakaría sem þýðir „Jehóva man“. Og þeir hikuðu ekki við að nota nafn Guðs í daglegum samræðum. – Rutarbók 2:4.

Guð vill gjarnan að þjónar hans noti nafn hans. Við erum beinlínis hvött til þess: „Þakkið Drottni, ákallið nafn hans.“ (Sálmur 105:1) Jehóva tekur eftir þeim sem „virða nafn hans“ og hefur velþóknun á þeim. – Malakí 3:16.

„Þeir játi að þú, sem berð nafnið Drottinn [Jehóva], þú einn ert Hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ – Sálmur 83:19.

Hvað merkir nafn Guðs?

Sumir fræðimenn telja að á hebresku merki nafnið Jehóva „hann lætur verða“. Sú skýring felur í sér að Guð geti látið sjálfan sig eða sköpunarverk sitt verða hvaðeina sem þarf til að fyrirætlun hans nái fram að ganga. Enginn getur staðið undir slíku nafni nema almáttugur skaparinn.

HVAÐA ÞÝÐINGU HEFUR ÞAÐ FYRIR ÞIG?

 

Að þekkja Guð með nafni hefur áhrif á það hvernig maður hugsar um hann. Það verður auðveldara að eiga náið samband við hann enda er erfitt að vera náinn einhverjum sem maður veit ekki hvað heitir. Fyrst Guð hefur opinberað okkur nafn sitt vill hann greinilega að við eigum náið samband við sig. – Jakobsbréfið 4:8.

Þú mátt treysta því að Jehóva Guð stendur alltaf undir nafni sínu og lætur verða allt sem hann ákveður. Þess vegna segir í Biblíunni: „Þeir sem þekkja nafn þitt treysta þér.“ (Sálmur 9:11) Þú eignast þetta traust þegar þú lærir hvernig nafn Jehóva er órjúfanlega bundið eiginleikum hans eins og tryggum kærleika, miskunn, samúð og réttlæti. (2. Mósebók 34:5-7) Það er mjög traustvekjandi að vita að Jehóva Guð stendur alltaf við loforð sín og í fullu samræmi við góða eiginleika sína.

Það er augljóslega mikill heiður að þekkja almáttugan Guð með nafni. Það getur verið okkur til blessunar bæði nú og síðar. Guð lofar: „Ég vernda hann því að hann þekkir nafn mitt.“ – Sálmur 91:14.

„Hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn.“ – Jóel 3:5.

Nafn Guðs á nokkrum tungumálum.

^ gr. 9 Í mörgum biblíuþýðingum er nafni Guðs sleppt og titlar eins og „DROTTINN“ settir í staðinn með hástöfum. Í sumum þýðingum er nafn Guðs aðeins að finna í fáeinum völdum versum eða neðanmálsathugasemdum. Í biblíuþýðingunni New World Translation of the Holy Scriptures er nafn Guðs notað alls staðar þar sem það stendur í frummálunum.