SVIPMYNDIR ÚR FORTÍÐINNI
Aristóteles
FYRIR meira en 2.300 árum lagði Aristóteles drjúgan skerf til vísinda og heimspeki. Fólk hefur sýnt hugmyndum hans, uppgötvunum og ritverkum áhuga í gegnum tíðina og þau hafa verið þýdd og rannsökuð víða um heim. James MacLachlan, prófessor í sagnfræði, skrifaði: „Skoðanir Aristótelesar um efnisheiminn voru ríkjandi í Evrópu í næstum 2.000 ár.“ Sumar kenningar Aristótelesar höfðu meira að segja áhrif á kenningar kaþólikka, mótmælenda og múhameðstrúarmanna.
Áhugasvið hans var mjög breitt
Aristóteles skrifaði um listir, stjörnufræði, líffræði, siðfræði, tungumál, lögfræði, rökfræði, segulmagn, frumspeki, aflfræði, lystisemdir, ljóðlist, stjórnmál, sálfræði og mælskulist. Einnig skrifaði hann um sálina en hann hélt því fram að hún væri dauðleg. Hann er þó þekktastur fyrir verk sín á sviði líffræði og rökfræði.
Fræðimenn í Grikklandi til forna treystu á athyglisgáfu sína og rökhugsun og ályktuðu út frá þeim sýnilegu staðreyndum sem þeir höfðu til að útskýra efnisheiminn. Þeir byggðu á því sem þeir töldu vera augljós sannindi og voru sannfærðir um að ef þeir rökhugsuðu vandlega út frá þeim sannindum kæmust þeir að réttri niðurstöðu.
Með því að nota þessa heimspekiaðferð drógu þeir ýmsar skynsamlegar ályktanir – meðal annars að alheimurinn stjórnast af ákveðnum lögmálum. Vandinn var hins vegar sá að ályktanir þeirra takmörkuðust við það sem þeir gátu skynjað með skilningarvitunum en það leiddi marga snjalla menn á villigötur – þar á meðal Aristóteles. Sem dæmi trúðu þeir að stjörnur og reikistjörnur gengju í kringum jörðina. Það var talin augljós staðreynd á þeim tíma. „Skynsemi og
reynsla virtust staðfesta það sjónarmið Grikkja að jörðin væri miðja alheims,“ segir í bókinni The Closing of the Western Mind.Þessi ranga niðurstaða hefði haft litlar afleiðingar hefði henni einungis verið haldið innan vísindanna. En svo var ekki.
Kaþólska kirkjan tekur Aristótelesi opnum örmum
Sumar kenningar Aristótelesar voru teknar sem heilagur sannleikur hjá hinni „kristnu“ Evrópu miðalda. Rómversk-kaþólskir guðfræðingar – einna helst Tómas frá Aquino (um 1224-1274) – blönduðu kenningum Aristótelesar saman við guðfræði sína. Þannig varð skoðun hans um að jörðin væri kyrrstæð í miðju alheimsins að kaþólskri trúarkenningu. Hún var líka gerð að kennisetningu hjá trúarleiðtogum mótmælenda, eins og Kalvín og Lúter, sem fullyrtu að hún væri biblíuleg. – Sjá rammann „ Þeir oftúlkuðu Biblíuna“.
Sumar kenningar Aristótelesar voru teknar sem heilagur sannleikur.
Rithöfundurinn Charles Freeman segir: „Munurinn á sumum hugmyndum [kenningum Aristótelesar] og trúarkenningum kaþólsku kirkjunnar var varla sjáanlegur.“ Sagt hefur verið að Tómas frá Aquino hafi „skírt“ Aristóteles til kaþólskrar trúar. En raunin var sú að „Tómas frá Aquino tók trú á aristótelisma,“ skrifar Freeman. Að vissu leyti gerði kirkjan það líka. Afleiðingin var meðal annars sú að ítalski stjörnu- og stærðfræðingurinn Galíleó Galíleí þurfti að mæta fyrir rannsóknarréttinn þegar hann dirfðist að benda á sýnilegar sannanir fyrir því að jörðin gengi um sólu. Honum var gert að draga kenningar sínar til baka. * Það er í raun kaldhæðnislegt að hugsa til þess að Aristóteles var þeirrar skoðunar að vísindin ættu að vera framsækin og í sífelldri endurskoðun. Kirkjan hefði betur gert þá skoðun að sinni.
^ gr. 11 Til að fræðast meira um „Galíleó Galíleí og átök hans við kirkjuna“ sjá Vaknið! júlí-september 2003.