Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Þakklæti

Þakklæti

Þakklæti hefur góð áhrif á líkamlega, andlega og tilfinningalega líðan okkar. Allir ættu því að temja sér að vera þakklátir.

Hvernig er þakklæti gott fyrir líðan okkar?

HVAÐ SEGJA LÆKNAVÍSINDIN?

Í grein í fréttabréfinu Harvard Mental Health Letter segir að „þakklæti sé nátengt hamingju. Þakklæti hjálpar fólki að upplifa jákvæðar tilfinningar, njóta góðra stunda, það bætir heilsu þess og það á auðveldara með að takast á við erfiðleika og byggja upp góð sambönd við aðra.“

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Í Biblíunni erum við hvött til að temja okkur þakklæti. „Verið þakklát,“ skrifaði Páll postuli, en hann var sjálfur þakklátur maður. Hann ,þakkaði Guði án afláts‘ fyrir það hve vel fólk brást við boðun hans. (Kólossubréfið 3:15; 1. Þessaloníkubréf 2:13) Varanleg hamingja fæst ekki með því að þakka fyrir sig endrum og eins heldur með því að vera þakklátur að jafnaði. Þá erum við síður kröfuhörð, gröm eða öfundsjúk en það getur fælt fólk frá okkur og rænt okkur hamingjunni.

Skaparinn er okkur góð fyrirmynd í að sýna þakklæti. Hann sýnir jafnvel mönnum þakklæti. Í Hebreabréfinu 6:10 segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ Í augum skaparans er óréttlátt og ósanngjarnt að vera vanþakklátur.

„Verið ætíð glöð. Þakkið alla hluti.“ – 1. Þessaloníkubréf 5:16, 18.

Hvernig bætir þakklæti samskipti okkar við aðra?

ÞAÐ SEM REYNSLAN SÝNIR Þegar við tjáum öðrum þakklæti okkar – hvort sem það er fyrir gjöf, vingjarnleg orð eða veitta hjálp – finnst gefandanum hann vera mikils metinn.

Jafnvel ókunnugir bregðast vel við þegar þeim er þakkað fyrir góð verk, eins og til dæmis að halda hurð opinni.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Jesús Kristur sagði: „Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar.“ (Lúkas 6:38) Tökum sem dæmi reynslu heyrnarlausrar stúlku sem heitir Rose og býr á Vanúatú, eyríki í Suður-Kyrrahafi.

Rose sótti samkomur hjá Vottum Jehóva en hafði takmarkað gagn af kennslunni því að hvorki hún né aðrir í söfnuðinum kunnu táknmál. Þegar hjón ein, sem eru færir táknmálstúlkar, heimsóttu söfnuðinn áttuðu þau sig á þessum vanda og buðu í kjölfarið upp á táknmálskennslu. Rose var ákaflega þakklát. Hún sagði: „Ég er mjög glöð að eiga svona marga vini sem þykir vænt um mig.“ Hjónunum, sem hjálpuðu henni, finnst það mikil blessun að fá að fylgjast með Rose taka þátt í samkomunum og finna hversu þakklát hún er. Rose er líka innilega þakklát öllum sem lögðu það á sig að læra táknmál til að geta átt samskipti við hana. – Postulasagan 20:35.

„Sá sem færir þakkarfórn heiðrar [Guð].“ – Sálmur 50:23.

Hvernig getum við tamið okkur þakklæti?

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Tilfinningar okkar eru nátengdar hugsunum okkar. Biblíuritarinn Davíð sagði í bæn til Guðs: „[Ég] hugleiði allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.“ (Sálmur 143:5) Davíð var skynsamur og djúphugull maður. Alla ævi ígrundaði hann vegi Guðs og það vakti með honum þakklæti. – Sálmur 71:5, 17.

Biblían gefur okkur þetta ágæta ráð: „Allt sem er satt ... allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ (Filippíbréfið 4:8) Orðin „hugfestið það“ undirstrika enn og aftur hversu mikilvægt það er að ígrunda hlutina. Ef við temjum okkur það verðum við þakklátari.

„Ígrundun hjarta míns er hyggindi.“ – Sálmur 49:4.