Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

HAMINGJURÍK LÍFSSTEFNA

Nægjusemi og örlæti

Nægjusemi og örlæti

OFT ER HAMINGJA OG VELGENGNI MÆLD Í EIGNUM OG PENINGUM. Fjöldi fólks vinnur þess vegna langan og strangan vinnudag til að þéna meira. En færa eignir og ríkidæmi fólki varanlega hamingju? Hvað sýnir reynslan?

Að sögn tímaritsins Journal of Happiness Studies breyta hærri tekjur litlu um hamingju okkar og vellíðan ef við eigum fyrir nauðsynjum. Í tímaritinu Monitor on Psychology kemur fram að peningarnir eru ekki vandamálið heldur er það „eftirsóknin í [peninga] sem veldur óhamingju“. Biblían sagði eitthvað svipað fyrir hátt í tvö þúsund árum: „Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir ... valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Hvaða erfiðleikar, eða harmkvæli, eru það?

SVEFNLEYSI OG ÁHYGGJUR AF EIGUM SEM ÞARF AÐ VERNDA. „Betra er að eiga lítið og óttast Drottin en mikinn fjársjóð með áhyggjum.“ – Orðskviðirnir 15:16.

VONBRIGÐI ÞEGAR HAMINGJAN LÆTUR Á SÉR STANDA. Vonbrigðin stafa að hluta til af því að lönguninni í peninga verður aldrei fullnægt. „Sá sem elskar peninga seðst aldrei af peningum og sá sem elskar auðinn hefur ekki gagn af honum.“ (Prédikarinn 5:9) Auk þess verður löngun í auðinn oft til þess að fólk fórnar því sem stuðlar að hamingju, svo sem dýrmætum tíma með fjölskyldu og vinum eða því að sinna andlegum málum.

SORG OG REIÐI ÞEGAR PENINGAR EÐA EIGNIR FALLA Í VERÐI. „Leitastu ekki við að verða ríkur, hafðu vit á að gera það ekki. Beinir þú augum þínum til auðsins er hann horfinn. Hann á sér vængi sem örn og hverfur.“ – Orðskviðirnir 23:4, 5.

EIGINLEIKAR SEM STUÐLA AÐ HAMINGJU

NÆGJUSEMI. „Ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan. Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja.“ (1. Tímóteusarbréf 6:7, 8) Þeir sem eru nægjusamir eru ekki gjarnir á að kvarta, nöldra eða öfundast út í aðra. Og þeir komast hjá óþarfa kvíða og streitu vegna þess að þeir leyfa sér ekki að langa í hluti sem þeir hafa ekki ráð á.

ÖRLÆTI. „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Örlæti veitir hamingju vegna þess að það veitir ánægju að gleðja aðra. Örlátir gefa jafnvel þó að þeir eigi ekki annað aflögu en dálítið af tíma sínum og kröftum. Og þeir fá oft endurgoldið í því sem ekki fæst fyrir peninga – kærleika, virðingu og sönnum vinum sem sjálfir eru örlátir. – Lúkas 6:38.

AÐ META FÓLK MEIRA EN HLUTI. „Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinaut með hatri.“ (Orðskviðirnir 15:17) Gott samband við aðra er verðmætara en miklar eignir. Og eins og við munum sjá síðar í þessu blaði er kærleikur nauðsynlegur til að njóta hamingju.

Kona, sem heitir Sabina og býr í Suður-Ameríku, komst að því hve gagnlegar meginreglur Biblíunnar eru. Hún átti erfitt með að sjá sér og dætrum sínum tveim fyrir nauðsynjum eftir að maðurinn hennar fór frá henni. Hún var í tveim vinnum og fór á fætur klukkan fjögur á hverjum morgni. Þrátt fyrir að hafa gríðarlega mikið á sinni könnu ákvað Sabina að kynna sér Biblíuna. Hver var árangurinn?

Viðhorf hennar til lífsins batnaði stórlega þó að efnahagurinn væri óbreyttur. Meðal annars öðlaðist hún þá gleði sem fylgir því að fullnægja andlegri þörf sinni. (Lúkas 11:28) Hún eignaðist sanna vini meðal trúsystkina sinna og kynntist ánægjunni af að gefa með því að segja öðrum frá því sem hún hafði lært.

„Spekin sannast af verkum sínum,“ segir í Biblíunni. (Matteus 11:19) Nægjusemi og örlæti, auk þess að meta fólk meira en hluti, sannast greinilega af verkum sínum.