SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR
Fóstureyðingar
Meira en 50 milljónum ófæddra barna er vísvitandi eytt á ári hverju – en það er meira en íbúafjöldi margra landa.
Persónuleg ákvörðun eða siðferðileg?
HVAÐ SEGIR FÓLK?
Konur fara í fóstureyðingu af ýmsum ástæðum. Þær eiga til dæmis í fjárhags- eða sambandserfiðleikum, vilja frelsi til að mennta sig eða komast áfram í starfi eða vilja ekki verða einstæðar mæður. Öðrum finnst hins vegar siðferðilega rangt að eyða fóstri og telja það brot á því trausti sem barnshafandi konu er falið.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Lífið er heilagt í augum Guðs – sérstaklega mannslíf. (1. Mósebók 9:6; Sálmur 36:10) Þessi meginregla á líka við um fóstur sem vex og þroskast í móðurlífi. Guð hannaði móðurlífið sem öruggt skjól fyrir barnið. Biblíuritari nokkur sagði: „Þú hefur ... ofið mig í móðurlífi. Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni, ævidagar mínir voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína.“ – Sálmur 139:13, 16.
Viðhorf Guðs til barns í móðurkviði sést líka í lögmálinu sem hann gaf Ísraelsþjóðinni og á samviskunni sem Guð gaf mönnunum. Í lögmálinu kom fram að ef einhver réðst á ófríska konu og varð ófæddu barni hennar að bana skyldi hann líflátinn. Morðinginn skyldi gjalda fyrir líf barnsins með sínu eigin lífi. (2. Mósebók 21:22, 23) Auðvitað þurftu dómarar að taka hvatir og kringumstæður með í reikninginn. – 4. Mósebók 35:22-24, 31.
Við erum líka gædd samvisku. Þegar kona hlýðir innri rödd sinni og virðir líf ófædds barns síns hefur hún góða samvisku. * Samviskan getur nagað hana ef hún brýtur gegn henni. (Rómverjabréfið 2:14, 15) Rannsóknir benda jafnvel til þess að konur séu líklegri til að þjást af kvíða og þunglyndi ef þær hafa gengist undir fóstureyðingu.
Hvað ef tilhugsunin um að ala upp barn skelfir þig, sérstaklega ef barneignir voru ekki inni í myndinni? Taktu eftir hughreystandi loforði Guðs til þeirra sem fylgja siðferðiskröfum hans trúfastlega: „Þú ert trúföstum trúfastur, ráðvöndum ráðvandur.“ (Sálmur 18:26) Í öðrum sálmi segir: „Því að Drottinn hefur mætur á réttlæti og yfirgefur eigi sína trúuðu.“ – Sálmur 37:28.
„Samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra sem ýmist ásaka þá eða afsaka.“ – Rómverjabréfið 2:15.
Hvað ef þú hefur farið í fóstureyðingu?
HVAÐ SEGIR FÓLK?
Ruth, sem er einstæð móðir, segir: „Ég átti þegar þrjú ung börn og mér fannst ég ekki ráða við að hugsa um fjögur. En eftir að ég fór í fóstureyðingu fannst mér ég samt hafa gert eitthvað hræðilegt af mér.“ * En var það sem hún gerði ófyrirgefanlegt í augum Guðs?
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Jesús Kristur endurspeglaði hugsunarhátt Guðs þegar hann sagði: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta til afturhvarfs heldur syndara.“ (Lúkas 5:32) Þegar við sjáum í einlægni eftir að hafa syndgað, iðrumst og biðjum Guð um að fyrirgefa okkur gerir hann það fúslega – jafnvel þótt við syndgum alvarlega. (Jesaja 1:18) „Sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta,“ segir í Sálmi 51:19.
Guð gefur iðrunarfullum syndurum hreina samvisku og hugarfrið þegar þeir biðja til hans í einlægni. Í Filippíbréfinu 4:6, 7 segir: „Gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir.“ * Ruth fann þennan innri frið þegar hún hafði kynnst Biblíunni og úthellt hjarta sínu fyrir Guði. Hún komst að því að „hjá [Guði] er fyrirgefning“. – Sálmur 130:4.
„[Guð] hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum.“ – Sálmur 103:10.
^ Hugsanleg hætta fyrir móður eða barn réttlætir ekki fóstureyðingu. Ef velja þarf á milli lífs móður og barns meðan á fæðingu stendur er sú ákvörðun undir foreldrunum komin. Í efnameiri löndum heims er sú staða þó mjög sjaldgæf vegna framfara í læknavísindum.
^ Nafninu hefur verið breytt.
^ Vonin um upprisu getur líka stuðlað að innri friði. Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 15. apríl 2009. Þar er rætt um meginreglur Biblíunnar um hvort börn, sem deyja í móðurkviði, eigi möguleika á upprisu.