FORSÍÐUEFNI
Þunglyndi unglinga – hvað er til ráða?
„ÞEGAR þunglyndi hellist yfir mig hef ég ekki áhuga á að gera nokkurn skapaðan hlut, ekki einu sinni það sem ég hef venjulega gaman af,“ segir Anna. * Hún bætir við: „Ég vil bara sofa. Mér finnst ég vera öðrum byrði, gjörsamlega gagnslaus og að enginn elski mig.“
„Ég var með sjálfsvígshugsanir,“ segir Julia. „Mig langaði samt ekki til að deyja. Mig langaði bara til að hætta að líða svona illa. Mér þykir venjulega vænt um aðra en þegar ég er langt niðri þá er mér sama um allt og alla.“
Anna og Julia voru á táningsaldri þegar þær kynntust þunglyndi af eigin raun. Mörg ungmenni finna af og til fyrir vanlíðan en Anna og Julia upplifðu þunglyndi sem stóð yfir í nokkrar vikur eða mánuði í senn. „Þetta er eins og að vera ofan í djúpri og dimmri holu og finna enga leið út,“ segir Anna. „Manni líður eins og maður sé að missa vitið og glata sjálfum sér.“
Reynsla Önnu og Juliu er ekkert einsdæmi. Þunglyndi unglinga virðist færast ört í aukana. Að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er þunglyndi „helsta orsök veikinda og örorku hjá drengjum og stúlkum á aldrinum 10 til 19 ára“.
Einkenni þunglyndis geta gert vart við sig á unglingsárunum og þau eru meðal annars breyttar svefn- og matarvenjur, þyngdaraukning eða þyngdartap. Örvænting, vonleysi, depurð og lágt sjálfsmat getur líka komið fram. Önnur einkenni eru félagsfælni, einbeitingarleysi eða lélegt minni, sjálfsvígstilraunir eða sjálfsvígshugsanir og jafnvel óútskýranlegir kvillar. Þegar sérfræðingar á geðheilbrigðissviði greina fólk með þunglyndi kanna þeir hvort fleiri en eitt þessara einkenna séu til staðar og hvort þau hafi varað vikum saman og sett líf einstaklingsins úr skorðum.
HVAÐ VELDUR ÞUNGLYNDI UNGLINGA?
Samkvæmt WHO er „þunglyndi flókið samspil félagslegra, sálrænna og líffræðilegra þátta“. Eftirtalin atriði geta verið áhrifavaldar.
Líkamlegir þættir. Oft er þunglyndi ættgengt. Þannig var því farið hjá Juliu. Erfðaþættir virðast því geta átt hlut að máli og haft áhrif á efnaskipti í heilanum. Hjartasjúkdómar og hormónaójafnvægi geta einnig valdið þunglyndi. Langvarandi lyfjanotkun getur sömuleiðis aukið þunglyndið eða jafnvel verið kveikjan að því. *
Streita. Örlítið álag er ekki af hinu slæma en langvarandi eða óhófleg streita getur verið skaðleg fyrir líkamlegt og andlegt ástand. Unglingur, sem er viðkvæmur fyrir á sál eða líkama, getur dottið niður í þunglyndi við slíkt álag. Ekki er þó vitað með vissu hvað veldur þunglyndi en eins og minnst var á fyrr í greininni getur það stafað af ýmsum samverkandi þáttum.
Streituvaldar, sem geta leitt til þunglyndis, eru meðal annars skilnaður foreldra, ástvinamissir, líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi, alvarlegt slys eða sjúkdómar og
sömuleiðis námserfiðleikar, sérstaklega ef barnið upplifir höfnun vegna þeirra. Auk þess geta óraunhæfar kröfur foreldra, til dæmis um námsárangur, valdið streitu. Aðrar orsakir geta verið einelti, óöryggi um framtíðina, óáreiðanlegir foreldrar eða að annað foreldrið er þunglynt og á erfitt með að bindast öðrum tilfinningalega. En hvað er hægt að gera ef unglingur verður þunglyndur af þessum sökum?HUGAÐU VEL AÐ HEILSUNNI
Miðlungs eða alvarlegt þunglyndi er oftast meðhöndlað með lyfjum og ráðgjöf sérfræðings á geðheilbrigðissviði. * Jesús Kristur sagði: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru.“ (Markús 2:17) Veikindi geta sannarlega lagst á allan líkamann, líka heilann. Þú gætir þurft að breyta daglegum venjum þínum því líkamleg heilsa hefur áhrif á hugann.
Ef þú glímir við þunglyndi gerðu þá það sem þú getur til að hlúa að andlegri og líkamlegri heilsu þinni. Borðaðu hollan mat, fáðu nægan svefn og hreyfðu þig reglulega. Þegar við hreyfum okkur gefur heilinn frá sér efni sem léttir lundina, eykur orkuna og bætir svefninn. Reyndu eftir bestu getu að þekkja hvað það er sem dregur þig niður. Vertu vakandi fyrir byrjunareinkennum þunglyndis hjá þér og gerðu þér þína eigin neyðaráætlun. Talaðu um tilfinningar þínar við einhvern sem þú treystir. Stuðningsnet nánustu fjölskyldu og vina getur hjálpað þér í baráttunni við þunglyndið og jafnvel dregið úr einkennum. Skrifaðu niður hugsanir þínar og tilfinningar í dagbók, en það er eitt af því sem hjálpaði Juliu. Lúkas 11:28.
Mikilvægast af öllu er að hlúa að andlegri þörf sinni. Það getur gert þig bjartsýnni. Jesús Kristur sagði: „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ –Anna og Julia hafa báðar haft gagn af ráðum Jesú. Anna segir: „Andleg dagskrá hjálpar mér að vera upptekin af öðrum, ekki bara eigin vandamálum. Það er ekki alltaf auðvelt en þegar það tekst er ég glöð.“ Julia fær huggun þegar hún les í Biblíunni og biður til Guðs. Hún segir: „Að úthella hjarta mínu í bæn til Guðs gefur mér hugarró. Biblíulesturinn hjálpar mér að skilja að ég er dýrmæt í augum Guðs og að honum er annt um mig. Ég verð líka jákvæðari varðandi framtíðina þegar ég les í Biblíunni.“
Þar sem Jehóva Guð er skapari okkar skilur hann vel hvernig uppeldi, lífsreynsla og erfðafræðilegir þættir hafa áhrif á tilfinningalíf okkar og viðhorf. Hann getur því veitt okkur þann stuðning og huggun sem við þörfnumst. Stundum gerir hann það fyrir milligöngu skilningsríkra og umhyggjusamra vina. Sá tími kemur þegar Guð læknar alla okkar kvilla – bæði líkamlega og andlega. „Enginn borgarbúi mun segja: ,Ég er veikur‘,“ segir Jesaja 33:24.
Já, Biblían lofar að Guð muni „þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:4) Þetta er sannarlega hughreystandi loforð. Ef þú vilt læra meira um vilja Guðs með mannkynið og jörðina farðu þá inn á vefsetur okkar jw.org/is. Þar er hægt að lesa Biblíuna á mörgum tungumálum og greinar um ýmis málefni, þar á meðal um þunglyndi.