FORSÍÐUEFNI | BÆTTU HEILSUNA – 5 EINFÖLD HEILSURÁÐ
Hvernig má bæta heilsuna?
ENGINN vill vera veikur. Veikindi eru alltaf óþægileg og oft kostnaðarsöm. Manni líður ekki bara illa heldur getur maður misst úr vinnu eða skóla og átt erfitt með að sjá um fjölskylduna og afla tekna. Maður gæti jafnvel sjálfur þarfnast umönnunar og þurft að borga háar fjárhæðir fyrir lyf og læknismeðferð.
Betra er að fyrirbyggja sjúkdóma en að lækna þá. Þó er ekki hægt að koma í veg fyrir öll veikindi. En ýmislegt er hægt að gera til að draga úr hættunni á sumum sjúkdómum og jafnvel koma í veg fyrir þá. Skoðaðu fimm heilsuráð sem þú getur fylgt núna.
1 GÆTTU HREINLÆTIS
„REGLULEGUR handþvottur er einhver besta vörnin gegn smiti.“ Þetta kemur fram hjá Mayo Clinic-heilbrigðisstofnuninni. Ein öruggasta leiðin til að krækja sér í kvef eða inflúensu er að nudda augun eða nefið eftir að hendurnar hafa komist í snertingu við sýkla. Besta vörnin gegn slíku smiti er að þvo sér reglulega um hendurnar. Hreinlæti getur líka komið í veg fyrir útbreiðslu alvarlegri kvilla eins og lungnabólgu og niðurgangssjúkdóma. Á hverju ári deyja meira en tvær milljónir barna undir fimm ára aldri af völdum þeirra. Með reglulegum handþvotti er jafnvel hægt að draga úr útbreiðslu banvænna sjúkdóma eins og ebólu.
Við vissar aðstæður er sérstaklega áríðandi að þvo sér um hendur til að gæta heilsu sinnar og annarra. Þvoðu hendurnar ...
-
eftir salernisferðir.
-
eftir að hafa skipt á barni eða aðstoðað barn við að fara á salernið.
-
fyrir og eftir meðhöndlun sára.
-
fyrir og eftir umgengni við sjúklinga.
-
áður en þú borðar eða meðhöndlar mat.
-
eftir að hafa hnerrað, hóstað eða snýtt þér.
-
eftir snertingu við dýr eða úrgang dýra.
-
eftir að hafa meðhöndlað sorp.
Ekki ganga að því vísu að þú þvoir þér nægilega vel um hendurnar. Kannanir hafa leitt í ljós að stór hluti þeirra sem nota almenningssalerni þvær sér ekki um hendurnar eða gerir það ekki almennilega. Hvernig á að þvo sér um hendurnar?
-
Skolaðu hendurnar undir rennandi vatni og notaðu sápu.
-
Nuddaðu höndunum saman svo að sápan freyði. Gleymdu ekki að þvo neglur, þumalfingur, handarbök og milli fingranna.
-
Nuddaðu vel í að minnsta kosti 20 sekúndur.
-
Skolaðu með hreinu rennandi vatni.
-
Þurrkaðu hendurnar með hreinu handklæði eða bréfþurrku.
Þetta er einföld aðgerð en getur komið í veg fyrir sjúkdóma og bjargað mannslífum.
2 NOTAÐU HREINT VATN
Í SUMUM löndum er dagleg áskorun að útvega nóg af hreinu vatni fyrir fjölskylduna. En aðgengi að hreinu vatni getur orðið takmarkað hvar sem er í heiminum ef drykkjarvatnið mengast vegna flóða, fárviðra, skemmdra lagna eða af öðrum sökum. Ef uppspretta vatnsins er óhrein eða vatnið ekki geymt sem skyldi getur það valdið sníkjudýrasýkingum, kóleru, lífshættulegum niðurgangspestum, taugaveiki, lifrarbólgu og öðrum sýkingum. Áætlað er að 1,7 milljarðar manna fái niðurgangssjúkdóma á ári hverju, meðal annars vegna óhreins drykkjarvatns.
Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr hættunni á sumum sjúkdómum og jafnvel koma í veg fyrir þá.
Kólera smitast oftast með mat eða vatni sem er mengað af saur úr sýktu fólki. Hvað geturðu gert til að tryggja þér hreint vatn, jafnvel í kjölfar hamfara?
-
Gakktu úr skugga um að allt drykkjarvatn sem þú notar – þar á meðal vatnið til að bursta tennurnar, búa til ísmola, skola matvæli, vaska upp eða elda – komi frá traustum aðila, svo sem öruggri vatnsveitu eða úr innsigluðum flöskum frá virtu fyrirtæki.
-
Ef hugsanlegt er að kranavatnið sé mengað skaltu sjóða það fyrir notkun eða sótthreinsa með viðeigandi efnum.
-
Þegar notuð eru efni eins og klór eða hreinsitöflur ætti að fylgja notkunarleiðbeiningum nákvæmlega.
-
Notaðu góðar vatnssíur ef þær fást og eru á viðráðanlegu verði.
-
Ef engin vatnshreinsiefni eru fáanleg geturðu notað venjulegt bleikiefni. Settu tvo dropa í hvern lítra af vatni, blandaðu vel saman og láttu standa í 30 mínútur fyrir notkun.
-
Geymdu hreinsað vatn alltaf í hreinum lokuðum ílátum til að það mengist ekki aftur.
-
Gættu þess að áhöldin, sem þú notar til að ausa vatninu, séu hrein.
-
Vertu með hreinar hendur þegar þú handfjatlar ílátin og stingdu ekki höndunum eða fingrunum ofan í drykkjarvatnið.
3 GÆTTU AÐ MATARÆÐINU
EF HEILSAN á að vera góð er nauðsynlegt að borða hollan og næringarríkan mat. Gættu hófs í neyslu salts, fitu og sykurs. Borðaðu hæfilega mikið í einu. Borðaðu ávexti og grænmeti og fjölbreyttan mat. Lestu utan á umbúðirnar og veldu frekar heilkornavörur þegar þú kaupir brauð, morgunkorn, pasta eða hrísgrjón. Heilkornavörur eru næringarríkari og trefjaríkari en unnið korn. Borðaðu litla skammta af mögru kjöti og reyndu að borða fisk nokkrum sinnum í viku til að fá prótín. Sums staðar fæst einnig prótínríkur matur úr grænmetisafurðum.
Ef þú borðar mikinn sykur og harða fitu áttu á hættu að þyngjast um of. Drekktu heldur vatn en sæta drykki og borðaðu ávexti í stað sætra eftirrétta til að draga úr hættunni á ofþyngd. Takmarkaðu neyslu harðrar fitu með því að borða minna af pylsum, kjöti, smjöri, kökum, osti og kexi. Í staðinn fyrir að nota harða fitu í matargerð væri betra að nota hollari olíur.
Of mikið salt, eða natríum, í mat getur hækkað blóðþrýstinginn. Ef þú ert með of háan blóðþrýsting skaltu skoða innihaldslýsingarnar á umbúðunum til að halda saltneyslunni í skefjum. Notaðu kryddjurtir til að bragðbæta matinn í staðinn fyrir salt.
Hversu mikið þú borðar getur skipt jafn miklu máli og hvað þú borðar. Þótt þú njótir matarins ættirðu ekki að halda áfram að borða eftir að þú ert saddur.
Matareitrun er önnur hætta sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Hvaða matur sem er getur valdið matareitrun ef hann er ekki útbúinn og geymdur á réttan hátt. Árlega veikist sjötti hver Bandaríkjamaður af matareitrun. Flestir ná sér án þess að bera frekari skaða af en sumir deyja úr henni. Hvað geturðu gert til að draga úr hættunni?
-
Stundum er mykja borin á jarðveg þar sem grænmeti er ræktað. Þess vegna skaltu skola grænmeti vandlega áður en þú matreiðir það.
-
Áður en þú undirbýrð hverja matartegund fyrir sig skaltu þvo hendurnar, skurðarbretti, áhöld, diska og borð með heitu sápuvatni.
-
Settu aldrei matvæli á borð eða disk, sem komist hefur í snertingu við hráan mat eins og egg, fisk, fuglakjöt eða annað kjöt, án þess að þrífa flötinn fyrst. Þannig geturðu komið í veg fyrir krosssmit.
-
Eldaðu matinn þangað til hann nær réttu hitastigi. Settu strax inn í kæli öll matvæli sem geta skemmst og eru ekki borðuð strax.
-
Hentu viðkvæmum matvælum sem skilin hafa verið eftir í meira en tvo tíma við stofuhita eða í einn tíma þegar hitastigið er yfir 32 gráður á Celsíus.
4 HREYFÐU ÞIG REGLULEGA
ÓHÁÐ aldri þurfa allir að hreyfa sig reglulega til að halda sér í góðu formi. Margir hreyfa sig ekki nógu mikið. Hvers vegna er hreyfing svona mikilvæg? Regluleg hreyfing getur hjálpað þér að ...
-
sofa vel.
-
viðhalda liðleika.
-
viðhalda sterkum beinum og vöðvum.
-
halda eða ná kjörþyngd.
-
draga úr hættunni á þunglyndi.
-
draga úr hættunni á að deyja um aldur fram.
Ef þú hreyfir þig ekki nægilega mikið áttu frekar á hættu að fá ...
-
hjartasjúkdóma.
-
áunna sykursýki.
-
háan blóðþrýsting.
-
hátt kólesteról.
-
heilablóðfall.
Til að finna hreyfingu, sem hentar þér, þarftu að taka mið af aldri og heilsu og þess vegna gæti verið gott að ráðfæra þig við lækni áður en þú byrjar að stunda líkamsrækt. Margir mæla með því að börn og unglingar stundi miðlungserfiða hreyfingu eða erfiða hreyfingu í að minnsta kosti klukkutíma á dag og að fullorðnir stundi miðlungserfiða hreyfingu í 150 mínútur á viku eða erfiða hreyfingu í 75 mínútur á viku.
Veldu hreyfingu sem þú hefur gaman af. Þú gætir til dæmis valið körfubolta, badminton, fótbolta, röska göngu, hjólreiðar, garðyrkju, sund, kajakróður, hlaup eða aðrar þolæfingar. Hvernig er hægt að vita hvort hreyfing er miðlungserfið eða erfið? Almennt viðmið er að maður svitnar við miðlungserfiða hreyfingu en getur varla haldið uppi samræðum við erfiða hreyfingu.
5 FÁÐU NÆGAN SVEFN
SVEFNÞÖRF manna er mismikil. Nýfædd börn sofa að jafnaði 16 til 18 tíma á dag, smábörn um 14 tíma og börn á leikskólaaldri um 11 eða 12 tíma. Eldri börn þurfa að minnsta kosti 10 tíma svefn, táningar 9 eða 10 tíma og fullorðnir 7 til 8 tíma.
Líttu aldrei á það sem aukaatriði að fá næga hvíld. Sérfræðingar segja að nægur svefn sé mikilvægur til að ...
-
örva vöxt og þroska barna og unglinga.
-
örva námsgetu og minni.
-
viðhalda hormónajafnvægi sem hefur áhrif á efnaskipti og þyngd.
-
styrkja blóðrásarkerfið.
-
koma í veg fyrir sjúkdóma.
Ónógur svefn hefur verið settur í samband við offitu, þunglyndi, hjartasjúkdóma, sykursýki og alvarleg slys. Þetta ætti að gefa okkur góða ástæðu til að vilja fá næga næturhvíld.
En hvað geturðu gert ef þú átt erfitt með að fá nægan svefn?
-
Reyndu að fara í rúmið á sama tíma og vakna á sama tíma á hverjum degi.
-
Sjáðu til þess að í svefnherberginu sé hljótt, dimmt og hvorki of heitt né of kalt þannig að þú getir slakað vel á.
-
Ekki horfa á sjónvarpið eða nota tæki eftir að þú ert kominn upp í rúm.
-
Láttu fara eins vel um þig og þú getur í rúminu þínu.
-
Forðastu þungar máltíðir, koffín og áfengi fyrir svefn.
-
Ef þú hefur fylgt þessum ráðum en átt samt erfitt með svefn eða glímir við svefnvandamál eins og mikla þreytu yfir daginn eða kæfisvefn, getur verið gott að leita til læknis.