Sjónarmið Biblíunnar
Þjáningar
Sumir halda að þjáningar manna séu Guði að kenna eða að honum hljóti að minnsta kosti að standa á sama um þær. En hvað kennir Biblían um málið? Svarið kemur þér kannski á óvart.
Eru þjáningar okkar Guði að kenna?
„Vissulega breytir Guð ekki ranglega.“ – Jobsbók 34:12.
HVAÐ SEGIR FÓLK?
Sumir segja að allt sem gerist sé vilji Guðs. Það telur því að þjáningar okkar séu Guði að kenna. Það telur til dæmis að náttúruhamfarir séu leið Guðs til að refsa fólki fyrir syndir þess.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Biblían segir skýrt að þjáningar okkar séu ekki Guði að kenna. Hún segir til dæmis að það sé rangt að telja að Guð reyni okkur þegar við verðum fyrir erfiðleikum. Hvers vegna? Vegna þess að „hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns“. (Jakobsbréfið 1:13) Guð veldur okkur sem sagt aldrei erfiðleikum og þjáningum. Það væri ranglátt af honum og „vissulega breytir Guð ekki ranglega“. – Jobsbók 34:12.
Hvað veldur þjáningum okkar ef Guð gerir það ekki? Því miður fara aðrir ófullkomnir menn stundum illa með okkur. (Prédikarinn 8:9) Auk þess getur „tími og tilviljun“ valdið okkur skakkaföllum – það að vera á röngum stað á röngum tíma. (Prédikarinn 9:11) Biblían kennir að ,höfðingi þessa heims‘, Satan djöfullinn, sé grunnorsök þess að mennirnir þjáist því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“. (Jóhannes 12:31; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Þjáningar fólks eru Satan að kenna, ekki Guði.
Er Guði sama um þjáningar okkar?
„Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða.“ – Jesaja 63:9, Biblían 1981.
HVAÐ SEGIR FÓLK?
Sumir halda að Guð hafi engan áhuga á erfiðleikum okkar. Til dæmis talar rithöfundur nokkur um „augljóst meðaumkunarleysi [Guðs] og skort á samúð gagnvart þjáningum okkar“. Hann segir að ef Guð er til hljóti hann að vera „vægðarlaus og afskiptalaus“ gagnvart mönnum.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Biblían er langt frá því að segja Guð vægðarlausan og afskiptalausan. Hún kennir að þjáningar okkar snerti hann djúpt og að hann ætli bráðlega að binda enda á þær. Skoðum þrjár uppörvandi staðreyndir sem við finnum í Biblíunni.
Guð tekur eftir þjáningum okkar. Allt frá því að þjáningar manna hófust hefur Jehóva * Guð tekið eftir sorgartárum þeirra því að vökul augu hans sjá allt. (Sálmur 11:4; 56:9) Til dæmis sagði hann þegar þjónar hans til forna voru kúgaðir: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar.“ En hann vissi ekki bara af þjáningu hennar, því að hann bætti við: „Já, ég þekki þjáningu hennar.“ (2. Mósebók 3:7) Guð tekur alltaf eftir því þegar við þjáumst, jafnvel þegar við eigum í erfiðleikum sem enginn annar veit af eða skilur til fulls. Sú tilhugsun ein og sér hefur hughreyst marga. – Sálmur 31:8; Orðskviðirnir 14:10.
Guð finnur til með okkur þegar við þjáumst. Jehóva veit ekki bara af því þegar við þjáumst heldur snertir það hann djúpt. Til dæmis hryggði það Guð að sjá þjóna sína til forna ganga í gegnum raunir. „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða,“ segir í Biblíunni. (Jesaja 63:9, Biblían 1981) Guð er miklu æðri mönnum en finnur þó til með þeim sem þjást – hann finnur sársaukann í eigin brjósti. Já, Jehóva er „mjög miskunnsamur og líknsamur“. (Jakobsbréfið 5:11) Þar að auki hjálpar Jehóva okkur að þola þjáningar. – Filippíbréfið 4:12, 13.
Guð ætlar að binda enda á þjáningar manna. Biblían lofar að Guð muni binda enda á þjáningar allra jarðarbúa. Fyrir milligöngu Guðsríkis ætlar Jehóva Guð að gera róttækar breytingar til að bæta aðstæður fólks. Biblían segir um þann tíma: „Hann [Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4) En hvað um þá sem eru þegar dánir? Guð ætlar að reisa þá upp aftur hér á jörðinni svo að þeir fái líka að njóta lífsins þegar enginn þarf að þjást framar. (Jóhannes 5:28, 29) Eiga sársaukafullar minningar eftir að þjaka einhverja? Nei. Jehóva lofar: „Hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma.“ – Jesaja 65:17. *