Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sítrónan er til margra hluta nytsamleg

Sítrónan er til margra hluta nytsamleg

Sítrónan er til margra hluta nytsamleg

HUGSAÐU þér afurð sem hægt er að nota til lækninga, sem hreinsiefni, til sótthreinsunar og í fegrunarskyni. Hægt er að borða hana, drekka safann úr henni og vinna úr henni ilmolíur. Hún kemur í fallegum umbúðum, er fáanleg um allan heim og er ódýr. Kannski áttu svona afurð í eldhúsinu. Um hvað er verið að ræða? Þetta er sítróna.

Talið er að sítrónan sé upprunnin í Suðaustur Asíu. Þaðan barst hún smám saman vestur á bóginn að Miðjarðarhafinu. Sítrónutré vaxa í mildu loftslagi og þess vegna þrífast þau vel í löndum eins og Argentínu, Ítalíu, Mexíkó, Spáni og jafnvel sums staðar í Afríku og Asíu. Fullþroska tré getur gefið af sér á bilinu 200 til 1.500 sítrónur á ári, eftir því hvaða ræktunarafbrigði um er að ræða og hvar það er staðsett. Þar sem ólík ræktunarafbrigði blómstra á mismunandi árstímum er hægt að fá sítrónuuppskeru allt árið.

Sítrónur festa rætur á Ítalíu

Umdeilt er hvort Rómverjar hafi ræktað sítrónur. Ritaðar heimildir sýna að þeir þekktu skrápsítrónuna, en hún tilheyrir einnig sítrusættkvíslinni og líkist stórri sítrónu. Rómverski fræðimaðurinn, Pliníus eldri, nefnir sérstaklega skrápsítrónutréð og ávöxt þess í riti sínu Náttúrurannsóknir. En helstu sérfræðingar á þessu sviði telja að Rómverjar hafi einnig þekkt sítrónuna. Af hverju? Af því að mörg veggmálverk og mósaíkmyndir eru greinilega af sítrónum en ekki skrápsítrónum. Dæmi um það er stórt einbýlishús sem grafið var upp í Pompei og er kallað Húsið í ávaxtagarðinum af því að það er skreytt með veggmálverkum af ýmsum jurtum, þar á meðal sítrónutrjám. Að vísu hefur sítrónutréð sennilega verið álitið framandi á þeim tíma og einungis notað sem lækningajurt. Ómögulegt er að segja til um hve auðvelt var að rækta sítrónur og hversu útbreiddar þær voru.

Á Sikiley fer fram ein mesta ræktun sítrusávaxta í heiminum, þar á meðal ræktun sítróna. Sumrin þar eru bæði heit og löng og veturnir mildir. En sítrónur í háum gæðaflokki eru ræktaðar á fleiri stöðum en Sikiley og þá einkum við ströndina.

Sorrento er fallegur bær rétt fyrir sunnan Napólí og þar suður af liggur Amalfiströndin – 40 km löng og stórbrotin strandlengja. Lengst inn í vogum og víkum leynast töfrandi bæir eins og Amalfi, Positano og Vietri sul Mare. Sítrónum frá Sorrento og Amalfisvæðinu fylgir upprunavottorð til að staðfesta hvaðan þær koma. Það er ekki að ástæðulausu að heimamenn vernda sítrónutré sín því að þau eru gróðursett af hreinustu snilld á stöllum í fjallshlíðunum þar sem þau drekka í sig sólargeislana og bera ilmandi og safaríkar sítrónur.

Ekki þarf mikið pláss til að rækta sítrónutré. Sólríkar svalir nægja jafnvel því að rækta má dvergsítrónutré í pottum og þau eru til mikillar prýði. Sítrónutré þurfa sólríkan og skjólsaman stað, helst upp við vegg, þar sem þau geta drukkið í sig hitann. Ef hitastigið lækkar mikið á veturna verður að breiða yfir þær eða taka þær inn.

Meira en bara bragðið

Hve oft notarðu sítrónur? Sumir setja sneið í tebollann, aðrir setja smá rifinn sítrónubörk og nokkra dropa af safanum í baksturinn. Kannski kreistirðu safann úr þeim til að búa til límonaði. Matreiðslumenn út um allan heim nota sítrónur á óteljandi vegu í matargerð. En hefurðu einhvern tíma prófað að nota sítrónusafa til sótthreinsunar eða til að fjarlægja bletti?

Sumir þrífa og sótthreinsa skurðbrettin sín með því að nudda þau með hálfri sítrónu. Í staðinn fyrir að nota klór á bletti eða til að þvo vaskinn nota sumir blöndu af sítrónusafa og matarsóda. Og sagt er að hálf sítróna í ísskápnum eða uppþvottavélinni eyði óþef og viðhaldi ferskri lykt.

Sítrónur innihalda sítrussýru sem er náttúrulegt rotvarnarefni og er notuð til að gefa mat og drykk súrt bragð. Hægt er að vinna pektín úr aldinkjötinu og berkinum en pektín er notað í matvælaiðnaðinum sem bindiefni, þykkingar- og hleypiefni. Einnig er unnin olía úr berkinum sem er notuð í matvæla-, lyfja- og snyrtivöruiðnaðinum. Listinn yfir notagildi sítrónunnar er langur. Það má því segja að sítrónan sé mjög áhugaverður og bragðmikill ávöxtur sem er til margra hluta nytsamlegur.

[Rammi á bls. 29]

C-vítamín

C-vítamín er nauðsynlegt fyrir starfsemi líkamans. Sem betur fer er það að finna í mörgum fæðutegundum eins og blaðmiklu grænmeti, tómötum, paprikum, sólberjum og jarðarberjum. Sítrusávextir eru einn helsti C-vítamíngjafinn, þar með talin sítrónan að sjálfsögðu. Margir þættir hafa áhrif á C-vítamínmagn sítrónu eins og til dæmis uppvaxtarskilyrði, þroskastig og jafnvel staðsetning hennar á trénu.

Fyrir heilbrigðan fullorðinn einstakling er í sumum löndum ráðlagður dagsskammtur af C-vítamíni um 100 mg. Hann getur því fengið næstum hálfan ráðlagðan dagsskammt af C-vítamíni úr einni meðalstórri sítrónu.