Eiga vísindin og Biblían samleið?
Sjónarmið Biblíunnar
Eiga vísindin og Biblían samleið?
„Í þeirri vísindagrein, sem ég stunda, kemur gildið og gleðin fram einstöku sinnum þegar eitthvað nýtt uppgötvast og ég segi við sjálfan mig: ,Aha, þannig fór Guð að því!‘“ — HENRY SCHAEFER, PRÓFESSOR Í EFNAFRÆÐI
MEÐ hjálp raunvísindanna eigum við mun auðveldara með að skilja heim náttúrunnar. Þar birtist reglufesta, nákvæmni og hátækni sem að margra manna dómi bendir til þess að til sé Guð sem býr yfir óendanlegum vitsmunum og mætti. Þeir líta svo á að vísindin dragi ekki eingöngu fram smáatriðin í náttúrunni heldur einnig hvernig Guð hugsar.
Í Biblíunni er fjölmargt sem styður þessa skoðun. Í Rómverjabréfinu 1:20 segir: „Ósýnilega veru [Guðs], eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ Og í Sálmi 19:2, 3 segir: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa. Hver dagur kennir öðrum og hver nótt boðar annarri speki.“ En þrátt fyrir öll undur náttúrunnar segja þau hvergi nærri alla söguna um eiginleika skaparans.
Þar sem vísindunum eru takmörk sett
Það er ótalmargt sem vísindin geta ekki skýrt eða skilgreint varðandi Guð. Lýsum því með dæmi. Vísindamaður getur ef til vill lýst hverri einustu sameind í súkkulaðiköku. En leiðir greiningin í ljós hvers vegna kakan var bökuð eða fyrir hvern? Til að fá svör við slíkum spurningum, sem flestir teldu mikilvægara en að fá kökuna efnagreinda, þarf að leita svara hjá þeim sem bakaði kökuna.
Erwin Schrödinger tekur í sama streng en hann er austurrískur eðlisfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi. Hann segir að vísindin „veiti heilmiklar upplýsingar en séu afar hljóð um allt . . . sem stendur hjartanu næst, allt sem skiptir virkilega máli“. Það á einnig við um „Guð og eilífðina,“ segir hann. Til dæmis er það aðeins á færi Guðs að svara eftirfarandi spurningum: Hvers vegna er alheimurinn til? Hvers vegna er jörðin iðandi af lífi, þar á meðal vitsmunaverum? Sé Guð í raun og veru almáttugur hvers vegna leyfir hann illsku og þjáningar? Er von handan við gröf og dauða?
Hefur Guð svarað þessum spurningum? Já, í Biblíunni fást svör við þeim. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Þú spyrð ef til vill hvernig hægt sé að vera viss um að Biblían sé frá Guði. Frá sjónarmiði vísindanna verður það sem ritað er í Biblíunni um heiminn í kringum okkur að samræmast vísindalegum staðreyndum því að Guð er ekki í mótsögn við sjálfan sig. Kemur Biblían heim og saman við vísindin? Skoðum fáein dæmi.
Á undan sinni samtíð
Þegar Biblían var skrifuð trúðu margir að ýmiss konar guðir byggðu heiminn og að þeir, ekki náttúrulögmálin, stjórnuðu sólinni, tunglinu, veðrinu, frjóseminni og svo framvegis. En því trúðu ekki hinir hebresku spámenn Guðs. Auðvitað vissu þeir að Jehóva Guð gat stjórnað náttúrunni beint og að hann gerði það í stöku tilfellum. (Jósúabók 10:12-14; 2. Konungabók 20:9-11) Engu að síður sagði John Lennox, prófessor í stærðfræði við Oxfordháskóla, að þessir spámenn „hafi ekki þurft að losa sig við slíka trú [að til væri fjöldi guða] . . . af þeirri einföldu ástæðu að þeir hefðu aldrei trúað á þá guði hvort eð er. Það sem bjargaði þeim frá þeirri hjátrú var að þeir trúðu á einn sannan Guð, skapara himins og jarðar.“
Hvernig veitti þessi trú þeim vernd gegn hjátrú? Hinn sanni Guð opinberaði þeim meðal annars að hann stjórnaði alheiminum með nákvæmum lögum eða reglum. Fyrir meira en 3.500 árum spurði Jehóva Guð þjón sinn Job: „Þekkir þú lög himinsins?“ (Jobsbók 38:33) Á sjöundu öld f.Kr. skrifaði spámaðurinn Jeremía að Guð hefði „sett himni og jörð reglur“. — Jeremía 33:25.
Þess vegna vissu allir, sem lifðu fyrr á öldum og trúðu því sem spámennirnir rituðu í Biblíuna, að alheiminum væri ekki stjórnað af duttlungafullum guðum heldur lögum sem menn gátu lært og skilið. Þar af leiðandi dýrkuðu þessir guðhræddu menn hvorki sköpunarverk Guðs, eins og sólina, tunglið eða stjörnurnar, né höfðu hjátrúarfulla afstöðu til þeirra. (5. Mósebók 4:15-19) Öllu heldur litu þeir svo á að þeir ættu að kynna sér handaverk Guðs til að sjá hvernig þau opinberuðu visku hans, mátt og aðra eiginleika. — Sálmur 8:4-10; Orðskviðirnir 3:19, 20.
Í samræmi við skoðanir margra vísindamanna nú á tímum trúðu Hebrear forðum daga að alheimurinn ætti sér upphaf. „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð,“ segir í 1. Mósebók 1:1. Guð opinberaði einnig þjóni sínum Job fyrir um 3.500 árum að jörðin ,svifi í geimnum‘. (Jobsbók 26:7) Og að lokum talaði Jesaja spámaður fyrir meira en 2.500 árum um ,jarðarkringluna‘ sem getur einnig merkt hnöttur. — Jesaja 40:22. *
Já, Biblían er í samræmi við vísindaleg sannindi um heim náttúrunnar. Staðreyndin er sú að þessi tvö rannsóknarsvið samrýmast ágætlega — og þau hjálpa okkur hvort á sinn hátt að kynnast Guði. Að lítilsvirða annað hvort er það sama og að opna ekki dyrnar að þekkingunni á Guði. — Sálmur 119:105; Jesaja 40:26.
[Neðanmáls]
^ Frekari umfjöllun um tilveru Guðs og nákvæmni Biblíunnar er að finna í bæklingnum Var lífið skapað? og bókinni Er til skapari sem er annt um okkur? gefin út af Vottum Jehóva.
HEFURÐU HUGLEITT?
● Hvað getum við lært um Guð af sköpunarverkinu? — Rómverjabréfið 1:20.
● Hvað geta vísindin ekki skýrt eða skilgreint varðandi Guð? — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
● Hvers vegna voru spámenn hins sanna Guðs ekki haldnir hjátrú í sambandi við sköpunarverkið? — Jeremía 33:25.
[Innskot á bls. 29]
Alheiminum er stjórnað af nákvæmum lögmálum — Guð hefur „sett himni og jörð reglur“. — JEREMÍA 33:25.