Leiðarljós tungunnar
Leiðarljós tungunnar
EF ÉG gæti bara tekið orð mín aftur. Hefurðu einhvern tíma sagt eitthvað þessu líkt við sjálfan þig? Já, við streitumst öll við að hafa taumhald á tungunni. Við getum nánast tamið öll dýr, segir í Biblíunni, en „tunguna getur enginn maður tamið“. (Jakobsbréfið 3:7, 8) Ættum við þá bara að sætta okkur við það? Nei, alls ekki. Við skulum líta á nokkrar biblíulegar meginreglur sem geta hjálpað okkur að ná betri stjórn á þessum litla en áhrifamikla líkamshluta.
● „Málæðinu fylgja yfirsjónir en sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni.“ (Orðskviðirnir 10:19) Því meira sem við tölum því meiri hætta er á að við segjum eitthvað óviturlegt eða særandi. Taumlaus tunga getur vissulega orðið eins og eldur og verið fljót að breiða út meiðandi slúður og róg. (Jakobsbréfið 3:5, 6) En þegar við höfum taumhald á tungunni eða hugsum áður en við tölum þá leiðum við hugann að áhrifunum sem orð okkar geta haft. Við verðum þá þekkt fyrir að vera orðvör og ávinnum okkur virðingu og traust annarra.
● Vertu „fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði“. (Jakobsbréfið 1:19) Fólk kann vel að meta að hlustað sé með athygli á það sem það segir. Með því sýnum við ekki aðeins áhuga heldur einnig virðingu. En hvað skal gera ef einhver segir eitthvað særandi eða ögrandi? Þá verðum við að reyna að vera „sein til reiði“ með því að gjalda ekki líku líkt. Hver veit nema sá sem um ræðir hafi verið í uppnámi út af einhverju og biðjist kannski afsökunar fyrir óvinsamlegu orðin? Finnst þér erfitt að vera „seinn til reiði“? Biddu þá Guð um að gefa þér sjálfstjórn. Hann virðir ekki að vettugi einlægar bænir. — Lúkas 11:13.
● „Mjúk tunga mylur bein.“ (Orðskviðirnir 25:15) Gagnstætt því sem almennt er talið er það styrkleikamerki að vera mildur. Mildilegt svar getur til dæmis unnið bug á andstöðu sem virðist beinhörð og ósveigjanleg, kannski vegna reiði eða fordóma. Það getur vissulega verið erfitt að vera mildur, sérstaklega þegar hitnar í kolunum. Við skulum því hugsa um kostina við að fylgja ráðleggingum Biblíunnar og hugsanlegar afleiðingar þess að gera það ekki.
Það má með sanni segja að meginreglur Biblíunnar séu „speki sem að ofan er“. (Jakobsbréfið 3:17) Þegar við höfum þá speki að leiðarljósi verða orð okkar virðuleg, hlýleg og uppbyggileg, eins og „gullepli í silfurskálum“, vel valin orð í tíma töluð. — Orðskviðirnir 25:11.