Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Tignarlegasta fljúgandi vera á jörð“

„Tignarlegasta fljúgandi vera á jörð“

„Tignarlegasta fljúgandi vera á jörð“

ALBATROSINN hefur verið kallaður „tignarlegasta fljúgandi vera á jörð“ og það með réttu. Hann er stærstur allra sjófugla, hefur þriggja metra vænghaf og getur náð allt að 115 kílómetra hraða á klukkustund á flugi. Albatrosinn virðist klunnalegur á landi en það er stórkostlegt að fylgjast með honum á flugi.

Til eru um 20 tegundir trosa en 15 þeirra er hægt að finna á hafsvæðunum við Nýja-Sjáland. Eina meginlandsvarpstöðin á suðurhveli jarðar er á Suðurey Nýja-Sjálands, nánar tiltekið á Taiaroahöfða á Otagoskaga.

Þar verpir konungsalbatrosinn en hann verður kynþroska á sjötta til tíunda aldursári. Hann verpir einu eggi annað hvert ár það sem eftir er ævinnar en er þess á milli úti á sjó. Sumir albatrosar hafa náð 50 ára aldri eða meira. Albatrosinn heldur yfirleitt tryggð við maka sinn alla ævi.

Karl- og kvenfuglinn hjálpast að við hreiðurgerð en hún hefst í september. Í nóvember verpir kvenfuglinn eggi sem getur verið allt að 500 grömm að þyngd. Hjónin skiptast á að liggja á egginu í 80 daga eða svo þangað til það klekst í byrjun febrúar. Foreldrarnir hjálpast þá að við að vernda ungann og mata hann með því að æla upp hálfmeltum fiski og smokkfiski. Unginn getur orðið allt að 12 kíló að þyngd við hálfs árs aldur en það er töluvert þyngra en fullorðinn fugl.

Þegar næstum ár er liðið yfirgefa foreldrarnir Taiaroahöfða og dvelja árlangt á hafi úti áður en þeir snúa aftur og endurtaka varpið. Í millitíðinni grennist unginn og hann verður alfiðraður. Hann prófar sig áfram þangað til hann lærir að teygja úr vængjunum og svífa af stað. Hver skyldi áfangastaðurinn vera? Hafið, þar sem unginn dvelur næstu árin. Hann snýr svo aftur til Taiaroahöfða sem ungfugl. Á meðan eldri fuglar eru uppteknir við hreiðurgerð og varp nýtir ungfuglinn tækifærið til að snurfusa sig, bregða á leik og sýna hvað hann hefur náð góðum tökum á fluglistinni.

[Rammi á bls. 25]

HEIMSÓKN Á VARPSTÖÐVAR KONUNGSALBATROSANS

Sögur af albatrosanum hafa heillað mig allt frá unga aldri. Ég var því ákaflega spenntur að fá að sjá varpstöðvar konungsalbatrosans. Það var hvasst þennan dag og þegar við félagi minn komum nær byrjuðum við að skima eftir flugsýningunni sem við vonuðumst til að sjá. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þegar fuglarnir birtust gátum við ekki annað en dáðst að þessum þjóðsagnakenndu meisturum himinsins.

Við slógumst í hóp annarra gesta og fengum klukkustundarlanga leiðsögn um svæðið. Við sáum líkön, sýningarspjöld og kvikmyndir og komumst að því að konungsalbatrosinn getur bjargað sér algerlega á sjó. Hann getur meira að segja sofið á sjónum. Hvort sem þessi stórkostlegi fugl er í lofti eða á sjó er hann undraverður í alla staði. Hann er enn ein ástæða til að lofa þann sem hefur „skapað alla hluti“, Jehóva Guð. — Opinberunarbókin 4:11.

[Mynd á bls. 24]

Foreldrarnir hjálpast að við að vernda og mata ungann sem getur orðið allt að 12 kíló að þyngd við hálfs árs aldur.

[Mynd á bls. 24, 25]

Taiaroahöfði, varpstöð konungsalbatrosans.

[Mynd á bls. 24]

Konungsalbatrosinn getur bjargað sér alveg á sjó og meira að segja sofið á sjónum.

[Rétthafi myndar á bls. 23]

Efst: © David Wall/Alamy. Neðst: © Kim Westerskov/Alamy

[Rétthafi myndar á bls. 25]

Bakgrunnur: © davidwallphoto.com. Bls. 24, efst: Tui De Roy/Roving Tortoise Photos. Bls. 24, neðst: Með góðfúslegu leyfi Diarmuid Toman. Bls. 25, albatrosi á flugi: © Naturfoto-Online/Wolfgang Bittmann.