Þegar sólin varð blóðrauð
Þegar sólin varð blóðrauð
SUMARIÐ 1783 lagðist undarleg þurraþoka yfir stóran hluta af norðurhveli jarðar. Sólin var blóðrauð mánuðum saman. Gróður visnaði og fólk hrundi niður. Talið er að í Frakklandi og Englandi hafi þoka þessi kostað tugþúsundir manna lífið, og er þá ótalinn mannfellir í öðrum löndum. Margir veiktust, svo margir að bændur virðast hafa átt í stökustu erfiðleikum með að finna verkamenn til að bjarga þeirri uppskeru sem bjargað varð.
Þokuslikja þessi hefur verið kölluð „eitt óvenjulegasta jarðeðlisfræði- og veðurfyrirbæri síðustu árþúsundar“. En á sínum tíma vissu Íslendingar einir hver orsökin var. Móðan stafaði af eldgosi af ákveðinni tegund sem sérfræðingar segja að eigi sér ekki stað nema með nokkurra alda millibili. Eins og við er að búast urðu Íslendingar verst úti allra þjóða. Talið er að um 20 prósent landsmanna hafi látið lífið af völdum hamfaranna.
Eldgosið í Lakagígum
Það var 8. júní árið 1783 sem fólk á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu sá fyrstu merki um að eldgos væri hafið í Lakagígum. Þar sem atburðir voru skrásettir víða um lönd hafa vísindamenn getað kortlagt hvernig móðuslikjan breiddi úr sér dag frá degi. Jón Steingrímsson var sjónarvottur að eldgosinu og segir svo frá að „svart sandmistur . . . svo þykkt að dimmt varð í húsum“ hafi breitt sig yfir alla Síðuna úr norðri. Fíngert duft lagðist á jörðina. „Um nóttina fundust miklir jarðkippir og hræringar,“ skrifar Jón. Átta dögum síðar segir hann svo frá að komið hafi „ógnarlegur eldgangur fram úr Skaftárgljúfri“ og eytt öllu sem fyrir varð. Jón skrásetti atburðina um átta mánaða skeið.
Eldgosið í Lakagígum var svokallað flæðigos. Það kom úr 25 kílómetra langri sprungu og hraunið, sem rann í gosinu, var um 15 rúmkílómetrar. Þetta er eitthvert mesta hraun sem runnið hefur í eldgosi á sögulegum tíma. Glóandi kvikustrókar stóðu hundruð metra í loft upp. Hraunið rann um 80 kílómetra frá gosstaðnum. Það flæddi yfir um það bil 580 ferkílómetra lands og fyllti meðal annars Skaftárgljúfur.
Aska og eiturefni lögðust á gras og bithaga með þeim afleiðingum að næsta árið féll meira en helmingur nautgripa hér á landi og um 80 prósent hrossa og sauðfjár. Hungrið svarf að landsmönnum í móðuharðindunum sem fylgdu í kjölfar Skaftáreldanna. Til viðbótar hrauninu og öskunni er áætlað að 122 milljónir tonna af brennisteinsdíoxíði hafi gosið úr Lakagígum. Efnasambandið hvarfaðist síðan við vatnsgufu í andrúmsloftinu og myndaði um 200 milljónir tonna af örsmáum sýrudropum. *
Afleiðingar gossins erlendis
Eiturloftið barst langar vegalengdir með veðri og vindum þá um sumarið. Talað var um „einkennilega móðu eða reykjarþoku“ í Bretlandi og Frakklandi, ólíka öllu öðru sem sést hafði í manna minnum. Illþefjandi brennisteinsmóðan
olli öndunarfærakvillum, blóðkreppusótt, höfuðverkjum, særindum í augum og hálsi og fleiri óþægindum. Þykk eiturmóðan og brennisteinssýran reyndust banvæn jafnt ungum sem öldnum.Í þýskum heimildum er þess getið að á einni nóttu hafi eiturloftið valdið því að lauf féll af trjám á bökkum fljótsins Ems. Á Englandi visnaði grænmeti, jurtir og lauf rétt eins og það væri skrælnað af þurrki. Svipað gerðist í Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Rúmeníu, Slóvakíu og Ungverjalandi. Sömu sögu er að segja frá Færeyjum, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Eiturþokunnar varð vart allt til Portúgals, Túnis, Sýrlands, Rússlands, vesturhluta Kína og Nýfundnalands.
Loftmengunin af völdum Skaftárelda dró að öllum líkindum úr geislun sólar með þeim afleiðingum að hitastig lækkaði. Árið 1784 var hitastig á meginlandi Evrópu um tveim gráðum lægra en meðalhiti á síðari helmingi 18. aldar. Á Íslandi kólnaði um næstum fimm gráður. Í Norður-Ameríku var veturinn 1783-1784 svo kaldur að ísjakar „flutu niður Mississippi . . . og út á Mexíkóflóa“.
Í norðvesturhluta Alaska varð hungursneyð sem útrýmdi næstum inúítasamfélagi kauweraka. Sumir fræðimenn telja að það megi rekja til Skaftárelda. Trjáhringjamælingar benda til þess að sumarið 1783 hafi verið það kaldasta í Alaska í meira en 400 ár. Samkvæmt munnlegri geymd meðal kauwerak-þjóðflokksins gerðist það eitt árið að sumarhlýindunum lauk í júní og við tók fimbulkuldi og hungursneyð.
Skaftáreldar í ljósi nútímans
Náttúruhamfarirnar árið 1783 eru að mestu gleymdar erlendis, sumpart vegna þess að langt er um liðið síðan þær áttu sér stað og sumpart vegna þess að fæstir, sem urðu vitni að þeim, vissu hver orsökin var. Á Íslandi er Skaftárelda og móðuharðindanna, sem fylgdu í kjölfarið, minnst enn þann dag í dag sem mestu náttúruhamfara í sögu þjóðarinnar.
Sumir töldu á sínum tíma að eldgosið væri refsing frá Guði. Það á sér þó ekki stoð í Biblíunni. (Jakobsbréfið 1:13) Guð refsar ekki illum sem góðum af hreinu handahófi því að „allir hans vegir [eru] réttlátir“. (5. Mósebók 32:4) Réttlæti hans á eftir að birtast með einstökum hætti í framtíðinni þegar hann blandar sér í málefni mannanna. Að sögn Biblíunnar er það ætlun Guðs að uppræta allar orsakir þjáninga og dauða, þar á meðal náttúruhamfarir. — Jesaja 25:8; Opinberunarbókin 21:3, 4.
[Neðanmáls]
^ Brennisteinsdíoxíð er einnig skaðlegt mengunarefni nú á dögum og veldur súru regni. Það myndast við brennslu jarðefnaeldsneytis, svo sem kola, gass og olíu.
[Mynd á bls. 14, 15]
Loftmynd af Lakagígum.
[Mynd á bls. 14, 15]
Glóandi kvikustrókur.
[Mynd á bls. 15]
Gervihnattamynd af landinu.
[Rétthafi myndar á bls. 14]
Kvikustrókur: © Tom Pfeiffer; Lakagígar: U.S. Geological Survey; gervihnattamynd: Jacques Descloitres, MODIS Rapid Response Team, NASA/GSFC.