Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að smjúga gegnum nálaraugað

Að smjúga gegnum nálaraugað

Að smjúga gegnum nálaraugað

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í ÁSTRALÍU

YFIRMENN breska flotans voru himinlifandi þegar breskir landkönnuðir fundu Bass-sund árið 1798. Sundið skilur eyna Tasmaníu frá meginlandi Ástralíu og stytti sjóleiðina milli Englands og Sydney um heilar 600 sjómílur.

En Bass-sund hefur reynst einhver hættulegasta sjóleið í heimi. Þar leggst allt á eitt — vestlægir stormar, sterkir hafstraumar og meðaldýpi sem er einungis 50 til 70 metrar. Ölduhæð er því mikil og leiðin ákaflega varasöm. Og skörðótt rifin við Kingey, sem liggur á miðju sundinu að vestanverðu, eru ekki síður hættuleg sjófarendum.

Núorðið er engum vandkvæðum bundið að sigla um Bass-sund. En meðan seglskipin voru og hétu og siglingatæki voru frumstæðari en nú var leiðin hin háskalegasta. Það tók svo á taugarnar að sigla inn á sundið úr vestri að talað var um að „smjúga gegnum nálaraugað“.

Að sigla stórbaugsleið

Á fyrri hluta 19. aldar tók það allt að fimm mánuði að sigla um 10.000 sjómílna leið frá Englandi til austurstrandar Ástralíu. Og ferðalagið var allt annað en þægilegt. Farþegar, aðallega innflytjendur og refsifangar, skiptu að jafnaði hundruðum og þeim var troðið eins og síld í tunnu neðan þilja við ömurlegar aðstæður. Farþegar voru sjóveikir og vannærðir, og undirlagðir sjúkdómum og meindýrum. Margir dóu. * En vonin um betra líf veitti mörgum styrk og úthald.

Árið 1852 varð breyting til hins betra en þá tókst James (Bully) Forbes skipstjóra að finna styttri siglingaleið. Í stað þess að fylgja 39. breiddarbaug yfir sunnanvert Indlandshaf, sem virtist stysta leiðin til Ástralíu, sigldi hann stórbaugsleið frá Englandi til suðaustanverðrar Ástralíu en sú leið lá sunnar og nær Suðurskautslandinu. * Þrátt fyrir borgarísjaka og fjallháar öldur tókst Forbes að sigla skipi sínu, Marco Polo með 701 innflytjanda innanborðs, heilu í höfn í Melbourne í Victoriu eftir aðeins 68 daga ferð. Hann hafði stytt hefðbundinn siglingartíma um næstum helming. Þetta kom sér vel því að gullæði var skollið á í Victoriu. Fréttin af þessari skjótu för varð þúsundum manna, sem dreymdi um að grafa eftir gulli, hvati til að stíga á skipsfjöl og sigla til Ástralíu.

Eftir að skip sigldu frá Englandi var Otwayhöfði í Victoriu næsta landsýn, en þangað var um 8.400 sjómílna leið. Sjófarendur notuðu sextant og töflur til að ákvarða breiddargráðu skipsins. Lengdargráðan var ákvörðuð eftir skipsklukkunni sem var stillt á miðtíma Greenwich. Staðartími var mældur eftir stöðu sólar. Hver klukkustund, sem munaði á staðartíma og Greenwich-tíma, jafngilti 15 lengdargráðum. Þegar búið var að ákvarða lengdar- og breiddargráðu gat góður sjófarandi staðsett skip sitt með þokkalegri nákvæmni.

En ýmislegt gat farið úrskeiðis. Það gat verið skýjað dögum saman. Og skipsklukkurnar voru ekki alltaf nákvæmar fyrr á öldum. Ef klukkan flýtti sér eða seinkaði um sekúndu á dag gat skipið borið allt að 25 sjómílur af leið á þrem mánuðum. Í regni, þoku eða myrkri gat skip, sem hafði borið af leið, strandað á klettóttri strönd Kingeyjar eða Victoriu í stað þess að hitta á innsiglinguna í Bass-sund. Eflaust hafa margir sjófarendur tekið undir með skipstjóranum sem sá Otwayhöfða úr öruggri fjarlægð og hrópaði: „Guði sér lof! Okkur hefur ekki orðið á.“ Það vitnar um færni sjófarenda á 19. öld að flestum tókst að „smjúga gegnum nálaraugað“ áfallalaust. En ekki voru allir svo heppnir.

Skipakirkjugarður

Það var fyrir dögun hinn 1. júní árið 1878 að seglskipið Loch Ard stefndi í átt að strönd Victoriu. Þokumóða hafði legið yfir frá því daginn áður og skipstjórinn hafði því ekki getað mælt sólarhæðina á hádegi. Skipið var því miklu nær strönd Ástralíu en hann hélt. Skyndilega létti þokunni og við blöstu þverhníptir klettar, 90 metra háir, í aðeins einnar sjómílu fjarlægð. Áhöfnin reyndi í örvæntingu að breyta stefnu skipsins en vindar og straumar urðu þeim yfirsterkari. Tæpri klukkustund síðar steytti Loch Ard harkalega á skeri og sökk stundarfjórðungi síðar.

Af 54, sem voru um borð, komust aðeins tveir lífs af. Þetta voru Tom Pearce, sem var að læra til sjómennsku, og Eva Carmichael sem var farþegi. Þau voru bæði undir tvítugu. Tom náði að halda sér í björgunarbát, sem hafði hvolft, og velktist klukkustundum saman í köldum vetrarsjónum. Að lokum bar bátinn gegnum þröngt sund inn í litla vík. Ströndin var þakin skipsflökum og braki. Tom synti í land. Eva var ósynd en hélt sér í brak í fjórar klukkustundir áður en henni skolaði inn í sömu vík. Hún kom auga á Tom á ströndinni og hrópaði á hjálp. Tom stakk sér út í brimið og tókst loks að koma Evu á land, hálf-meðvitundarlausri, eftir klukkustundar barning. Hún sagði svo frá: „Hann fór með mig inn í fremur ógnvekjandi helli nokkur hundruð fet frá fjörunni, fann kassa af koníaki, opnaði flösku og hellti svolitlu í mig svo að ég komst aftur til fullrar meðvitundar. Hann sleit upp svolítið af grasi og kjarri sem ég gat legið á. Ég missti fljótlega meðvitund og ég hlýt að hafa verið í öngviti klukkustundum saman.“ Tom klifraði upp á klettinn og tókst að kalla á hjálp. Innan við sólarhring eftir að Loch Ard sökk voru Tom og Eva komin á búgarð í grenndinni. Eva missti báða foreldra sína og fimm systkini, þrjá bræður og tvær systur, þegar skipið fórst.

Þúsundir skipa, stór og smá, sigla nú áfallalaust um Bass-sund ár hvert. Vitað er um meira en hundrað skipsflök á þessari leið. Ferðamenn leggja leið sína á suma staðina þar sem skip hafa strandað, til dæmis Loch Ard-víkina í Port Campbell-þjóðgarðinum í Victoriu. Strandstaðirnir minna á hugrekki þeirra sem sigldu yfir hálfan hnöttinn á 19. öld í leit að betra lífi og lögðu sig síðan í lífshættu til að komast síðasta spölinn — gegnum „nálaraugað“.

[Neðanmáls]

^ Árið 1852 dó fimmta hvert barn eins árs eða yngra á leiðinni frá Englandi til Ástralíu.

^ Band strekkt milli tveggja punkta á kúlu liggur stystu vegalengd milli þeirra. Þetta er nefnt stórbaugur eða stórhringur.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 17]

HVAÐ VARÐ UM TOM OG EVU?

Tom Pearce og Eva Carmichael, þau einu sem komust lífs af þegar Loch Ard fórst, urðu fræg um alla Ástralíu á einu augabragði. „Dagblöð birtu æsifréttir af skipbrotinu, lofuðu Tom sem hetju og Evu sem fegurðardís og virtust staðráðin í að þau ættu að verða hjón.“ Þetta kemur fram í bókinni Cape Otway — Coast of Secrets. Tom bað reyndar Evu en hún neitaði bónorðinu og sneri aftur til Írlands þrem mánuðum síðar. Þar giftist hún og eignaðist börn. Hún lést árið 1934, 73 ára að aldri. Tom fór aftur á sjó og beið aftur skipbrot skömmu síðar. Og aftur komst hann lífs af. Hann lést fimmtugur að aldri árið 1909 og hafði þá árum saman verið skipstjóri á gufuskipum.

[Credit line]

Báðar myndir: Flagstaff Hill Maritime Village, Warrnambool

[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 15]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Forbes sigldi skipinu „Marco Polo“ stórbaugsleið frá Englandi til Ástralíu sem var mun styttri en eldri siglingaleið.

[Skýringarmynd]

GAMLA SIGLINGALEIÐIN

39. breiddarbaugur

STÓRBAUGSLEIÐIN

Suðurheimskautsbaugur

[Kort]

ATLANTSHAF

INDLANDSHAF

SUÐURSKAUTSLANDIÐ

[Credit line]

Úr dagblaðinu The Illustrated London News, 19. febrúar 1853.

[Skýringarmynd/kort á blaðsíðu 16, 17]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Talað var um að „smjúga gegnum nálaraugað“ þegar siglt var inn á Bass-sund úr vestri.

[Kort]

ÁSTRALÍA

VICTORIA

MELBOURNE

Port Campbell- þjóðgarðurinn

Otwayhöfði

Bass-sund

Kingey

TASMANÍA

[Mynd á blaðsíðu 16]

„Loch Ard“ sökk stundarfjórðungi eftir að það rakst á sker.

[Credit line]

La Trobe Picture Collection, State Library of Victoria

[Mynd á blaðsíðu 17]

Port Campbell-þjóðgarðurinn þar sem (1) „Loch Ard“ rakst á sker og (2) helli Toms Pearce er að finna.

[Credit line]

Mynd: Scancolor Australia