Konungur í leit að visku
Konungur í leit að visku
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á SPÁNI
ÞRETTÁNDA öldin einkenndist af miklu umburðarleysi og gífurlegu ofbeldi. Grimmdarlegar krossferðir og hinn alræmdi rannsóknarréttur voru í algleymingi í Evrópu. En á þessu blóðuga tímabili var uppi spænskur konungur sem reyndi að stuðla að heilbrigðu hugarfari meðal samtíðarmanna sinna. Hann hét Alfonso 10. en var einnig þekktur sem Alfonso hinn vitri.
Þessum konungi er eignaður heiðurinn að vitundarvakningu sem stundum er kölluð endurreisnarstefna 13. aldar. Hann færði Spánverjum nýja þekkingu frá öðrum löndum. Hann hafði sérstakan áhuga á listum, sagnfræði, lögspeki og vísindum. Þetta hafði feikimikil áhrif á menninguna á Spáni sem og í allri Evrópu. En þó verður að teljast enn mikilvægara að fróðleiksfýsi hans varð til þess að koma orði Guðs, Heilagri ritningu, á framfæri.
Alfonso gegndi lykilhlutverki í því að stofna akademíu þar sem lærðir gyðingar, múslimar og „kristnir“ menn gátu unnið saman. Til að styðja starf þeirra stofnaði konungurinn eitt fyrsta ríkisrekna bókasafn heimsins.
Alfonso tók sjálfur virkan þátt í að skrifa og taka saman ýmiss konar efni í tengslum við lögspeki, vísindi og sagnfræði. Hann stuðlaði að aukinni grósku í bókmenntum og ljóðagerð, en hann var einmitt mjög fær á því sviði sjálfur eins og sést af hinu þekkta kantigas-ljóðasafni hans. * Þessi ljóð voru skrifuð á galisísku, tungumálinu sem var notað í ljóðagerð á þeim tíma.
Fræðslusetur þýðenda
Alfonso styrkti Fræðslusetur þýðenda í Toledo. „Verkefni konungsins fólst í því að velja bæði þýðendurna og verkin sem átti að þýða,“ segir í bókinni La Escuela de Traductores de Toledo. „Hann fór yfir þýðingarnar, hvatti til vitsmunalegra umræðna og fjármagnaði ritun nýrra fræðirita.“
Fræðimennirnir í Toledo byrjuðu á því að þýða fjölmörg arabísk rit. Múslímskir fræðimenn höfðu þegar þýtt yfir á arabísku mikilvægustu verk Grikkja, Indverja, Persa og Sýrlendinga. Þetta mikla þekkingarsafn hafði komið sér vel fyrir múslímska fræðimenn þegar þeir unnu að því að afla sér frekari þekkingar
á stærðfræði, stjörnufræði, sagnfræði og landafræði. Fræðimennirnir í Toledo leituðust því við að nýta sér þetta þekkingarsafn með því að þýða mikilvæg arabísk verk yfir á latínu og spænsku.Fregnir af árangri fræðimannanna í Toledo bárust til annarra landa og lærðir menn frá háskólum í Norður-Evrópu tóku að flykkjast til Toledo. Allt gegndi þetta mikilvægu hlutverki í því að stuðla að framförum á sviði vísinda og bókmennta í Evrópu. Þetta mikla þýðingasafn hafði því áhrif á þá þróun sem ýtti af stað endurreisnarstefnunni.
Vinna þýðendanna í Toledo gerði læknum kleift að lesa læknisfræðirit Galens, Hippókratesar og Avicenna en sá síðastnefndi skrifaði bókina Lögmál læknisfræðinnar og hún var notuð sem grunnkennslubók í læknavísindum í evrópskum háskólum fram að 17. öld. Stjörnufræðingar gátu lesið rit Ptólemeosar og kynnt sér arabíska hornafræði og stjörnukort al-Khwārizmī. *
Alfonso vildi að almenningur gæti skilið þýðingarnar. Þetta framtak skapaði spænskunni traustan sess sem alþjóðatungumáli á sviði vísinda og bókmennta.
Starfið, sem Alfonso lagði grunninn að, hjálpaði til við að breyta því almenna viðhorfi að latína væri tungumál hámenningarinnar.Biblia Alfonsina
Fræðimennirnir í Toledo öðluðust mikla reynslu þegar þeir þýddu þessi efnismiklu verk og það hlýtur að hafa komið þeim að góðum notum þegar Alfonso gaf fyrirmæli um að hluti Biblíunnar skyldi þýddur yfir á spænsku. Að sögn spænska sagnfræðingsins Juan de Mariana studdi konungurinn biblíuþýðinguna í von um að það myndi fága og auðga spænska tungu. Það leikur enginn vafi á því að slíkar biblíuþýðingar fyrr á öldum stuðluðu að vexti og þróun spænskunnar.
Konungurinn leit svo á að Biblían væri gagnleg mannkyninu til fróðleiks. Hann skrifaði í formála bókarinnar Crónica de España: „Ef við hugsum um það gagn sem við höfum af Heilagri ritningu sjáum við að það felst í þeim fróðleik sem hún veitir okkur um sköpun heimsins, komu ættfeðranna, . . . hina fyrirheitnu komu Drottins okkar, Jesú Krists, þjáningar hans, upprisu og uppstigningu.“
Hann hafði einnig yfirumsjón með undirbúningi hins mikla bókmenntaverks sem hann kallaði General Estoria. Í því var meðal annars að finna spænska þýðingu á hluta af Hebresku ritningunum. (Þýðingu á hluta af Grísku ritningunum var bætt við síðar.) Þetta mikla verk, sem var kallað Biblia Alfonsina, var stærsta ritverk sinnar tegundar á miðöldum. Það var afritað margoft og þýtt að hluta til á portúgölsku og katalónsku.
Afrakstur Alfonso
Miðaldarhandritin á dögum Alfonso viðhéldu biblíuþekkingu á tíma þar sem mikið andlegt myrkur ríkti. Þessar þýðingar vöktu áhuga fólks á að þýða Biblíuna yfir á heimamál sitt. Á næstu tveimur öldum fylgdu aðrar spænskar biblíur í kjölfarið.
Með tilkomu prentlistarinnar og með þrotlausri vinnu biblíuþýðenda á 16. öld, bæði á Spáni og í öðrum Evrópulöndum, var haldið áfram því starfi sem Alfonso og samtíðarmenn hans höfðu hafið. Evrópubúar gátu loksins eignast eintak af Biblíunni á móðurmáli sínu. Þó að Spánn hafi fengið sinn skerf af stríðum og óeirðum í stjórnartíð Alfonso 10. stuðlaði fróðleiksþorsti hans að því að viska Guðs varð aðgengileg víða um heim.
[Neðanmáls]
^ Kantigas eru ljóð frá miðöldum sem farandsöngvarar sungu.
^ Al-Khwārizmī var þekktur persneskur stærðfræðingur á 9. öld. Hann bjó til reiknisaðgerðir í algebru og kom á framfæri indverskum stærðfræðihugmyndum eins og grundvallarreiknisaðgerðum og arabísku tölustöfunum, þar á meðal hugtakinu um núll. Orðið algóritmi er dregið af nafni hans.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 22]
SPÆNSKAR BIBLÍUÞÝÐINGAR FORÐUM DAGA
Það var ekki í ritverkum Alfonso 10. sem spænskar þýðingar á hlutum af Biblíunni komu fyrst fram á sjónarsviðið. Einn þýðendanna, sem vann í Fræðslusetrinu í Toledo, Hermannus Alemannus að nafni, hafði nokkrum árum áður þýtt Sálmana beint úr hebresku yfir á spænsku. Auk þess var Biblia medieval romanceada Prealfonsina (Rómantíska miðaldabiblían fyrir daga Alfonso) þýdd snemma á 13. öld. (Sjá mynd til vinstri.) Hún er talin vera elsta spænska þýðingin á Biblíunni í heild sinni. Að öllum líkindum hefur hún haft áhrif á biblíuþýðinguna sem Alfonso 10. styrkti nokkrum árum síðar.
Fræðimaðurinn Thomas Montgomery segir um þessa miðaldabiblíu: „Það er aðdáunarvert hversu nákvæmlega og á hve fallegu máli þessi biblía er þýdd. Þýðingin fylgir vandlega merkingu og blæbrigðum latnesku biblíuþýðingarinnar Vulgata án þess að nota of mikið af latneskum hugtökum eða orðasamböndum. Hún er skrifuð á einföldu og auðskildu máli eins og nauðsynlegt var fyrir biblíuþýðingu ætlaða fólki sem var ekki vel að sér í latínu.
[Credit line]
Biblía: Patrimonio Nacional. Real Biblioteca de El Escorial
[Mynd á blaðsíðu 20, 21]
Stytta af Alfonso 10. fyrir framan spænska þjóðarbókasafnið í Madríd.
[Myndir á blaðsíðu 21]
Konungurinn með þýðendum frá Toledo (fyrir ofan) og með skrautriturum (fyrir neðan); Lúkasarguðspjall í „Biblia Alfonsina“ (neðst).
[Mynd credit line á blaðsíðu 21]
Allar myndir fyrir utan styttuna af Alfonso 10.: Oronoz.