Mikael Servetus — einn á báti í leit að sannleikanum
Mikael Servetus — einn á báti í leit að sannleikanum
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á SPÁNI
Mikael Servetus var brenndur á báli í Genf í Sviss hinn 27. október árið 1553. Böðullinn var Guillaume Farel, fulltrúi Jóhanns Kalvíns. Hann sagði áhorfendum í viðvörunarskyni: „[Servetus] er fróður maður og hélt sig eflaust kenna sannleikann, en hann lenti í klóm djöfulsins. . . . Gætið þess að það hendi ykkur ekki líka!“ Hvað hafði þessi ólánsami maður til saka unnið til að verðskulda svona dapurleg örlög?
MIKAEL SERVETUS fæddist árið 1511 í þorpinu Villanueva de Sijena á Spáni. Hann var mikill námshestur allt frá unga aldri. Samkvæmt einni af ævisögum hans var hann búinn að læra „grísku, latínu og hebresku 14 ára gamall og var vel lesinn í heimspeki, stærðfræði og guðfræði“.
Servetus var enn á unglingsaldri þegar Juan de Quintana, skriftafaðir Karls 5. Spánarkeisara, réð hann sem einkaþjón sinn. Á ferðum með húsbónda sínum tók Servetus eflaust eftir því mikla trúarmisrétti sem ríkti á Spáni, en gyðingar og múslimar höfðu ýmist verið reknir úr landi eða þvingaðir til að játast kaþólskri trú. *
Sextán ára gamall hóf Servetus nám í lögfræði við háskólann í Toulouse í Frakklandi. Það var þar sem hann sá alla Biblíuna í fyrsta sinn. Strangt bann lá við biblíulestri en Servetus las með leynd. Eftir að hafa lesið alla Biblíuna í fyrsta sinn strengdi hann þess heit að lesa hana „þúsund sinnum í viðbót“. Trúlegt er að Biblían, sem Servetus las í Toulouse, hafi verið Biblia complutensis sem hafði að geyma texta Biblíunnar á frummálunum (hebresku og grísku) ásamt latneskri þýðingu. * Lestur hans og biblíurýni varð til þess að rýra traust hans til kaþólskrar trúar og ekki bætti úr skák hin mikla siðspilling sem hann hafði horft upp á meðal presta á Spáni.
Servetus var viðstaddur þegar Klementíus páfi 7. krýndi Karl 5. Spánarkonung sem keisara Heilaga rómverska keisaradæmisins. Ekki varð það til þess að draga úr efasemdum hans. Þegar páfi tók á móti konungi sat hann í hásæti, sem borið var milli staða, og konungur kyssti fætur hans. Servetus skrifaði síðar: „Ég hef séð með eigin augum hvernig páfi var borinn á herðum höfðingjanna með mikilli viðhöfn og dýrkaður á strætum af fólkinu umhverfis.“ Honum var ómögulegt að sjá hvernig viðhöfnin og óhófið gat samrýmst einfaldleika fagnaðarerindisins.
Leitin að sannleika trúarinnar
Servetus lét af störfum hjá Quintana svo lítið bar á og hóf leitina að sannleikanum einn á báti. Hann taldi það ekki fá staðist að boðskapur Krists væri ætlaður guðfræðingum eða heimspekingum heldur hlaut hann að vera ætlaður almenningi sem gat skilið hann og farið eftir honum. Hann einsetti sér því að rannsaka biblíutextann á frummálunum og hafna sérhverri kenningu sem stangaðist á við Heilaga ritningu. Athygli vekur að orðið „sannleikur“ og skyld orð standa oftar í ritum hans en nokkurt annað orð.
Af sögurannsóknum sínum og biblíurýni ályktaði Servetus að kristnin hefði spillst á fyrstu þrem öldum okkar tímatals. Hann uppgötvaði að Konstantínus og arftakar hans höfðu komið á framfæri falskenningum sem leiddu að lokum til þess að kenningin um heilaga þrenningu var viðurkennd sem opinber kennisetning kirkjunnar. Tvítugur að aldri gaf Servetus út bókina De Trinitatis Erroribus (um þrenningarvilluna) sem varð þess valdandi að rannsóknarrétturinn reis öndverður gegn honum.
Servetus sá hlutina í skýru ljósi. „Hvergi er minnst á þrenningu í Biblíunni,“ skrifaði hann. „Við kynnumst ekki Guði af glæstum heimspekihugtökum heldur af Kristi.“ * Hann komst einnig að þeirri niðurstöðu að heilagur andi væri ekki persóna heldur kraftur Guðs að verki.
En viðbrögð manna við skrifum Servetusar voru ekki eingöngu neikvæð. Sebastian Franck, sem var einn af siðbótarmönnum mótmælenda, skrifaði: „Spánverjinn Servetus heldur því fram í riti sínu að Guð sé aðeins ein persóna. Kirkjan í Róm álítur að Guð sé þrjár persónur í einni. Ég hallast frekar að skoðun Spánverjans.“ Hvorki rómversk-kaþólska kirkjan né mótmælendakirkjurnar gátu þó fyrirgefið Servetusi það að hann skyldi véfengja grundvallarkenningu þeirra.
Biblíurýni Servetusar varð einnig til þess að hann hafnaði öðrum kenningum kirkjunnar og hann áleit það stríða gegn Biblíunni að nota líkneski. Hálfu öðru ári eftir að hann gaf út De Trinitatis Erroribus sagði hann því um kaþólska og mótmælendur: „Ég er hvorki sammála né ósammála öllu hjá þeim því að mér virðist sem báðir séu með sannleika í sumu og villu í öðru. Báðir koma auga á villu hins en hvorugur sér sína eigin.“ Servetus var einn á báti í leitinni að sannleikanum. *
En þótt einlægur væri dró hann stundum rangar ályktanir. Svo dæmi sé tekið reiknaðist honum til að Harmagedón myndi bresta á og þúsundáraríki Krists hefjast meðan hann væri uppi.
Leitin að sannleika vísindanna
Servetus neyddist til að flýja undan ofsækjendum sínum. Hann tók sér nafnið Villanovanus og settist
að í París þar sem hann nam hugvísindi og læknisfræði. Vísindaáhuginn varð til þess að hann lagði stund á krufningar til að rannsaka starfsemi mannslíkamans. Hugsanlegt er að hann hafi fyrstur evrópskra manna lýst lungnablóðrásinni og niðurstöður hans komu fram í verkinu Christianismi Restitutio (endurreisn kristninnar). Þetta var 75 árum áður en William Harvey lýsti blóðrásarkerfinu í heild.Servetus endursamdi landafræði Ptólemaíosar frá annarri öld. Svo vel tókst til að sumir hafa kallað hann frumkvöðul samanburðarlandafræði og þjóðfræði. Síðar, þegar Servetus var leiddur fyrir rétt í Genf, var hann ákærður fyrir að lýsa Palestínu svo að hún væri strjálbýl og jarðvegurinn ófrjór. Hann bar það fram sér til varnar að lýsing sín ætti við Palestínu eins og hún væri nú en ekki eins og hún hefði verið á dögum Móse, enda hafi hún eflaust flotið í mjólk og hunangi á þeim tíma.
Servetus samdi sömuleiðis ritið Syruporum universa ratio ad Galeni censuram diligenter expolita (almenn ritgerð um ávaxtaþykkni) en þar kom fram ný og skynsamleg afstaða til lyfja. Bókin vitnar um víðtæka þekkingu Servetusar á læknisfræði og fyrir vikið er hann talinn brautryðjandi í lyfjafræði og notkun vítamína. Þegar litið er til snilldarkunnáttu hans á mörgum sviðum kemur ekki á óvart að sagnfræðingur skuli kalla hann „einn af mestu hugsuðum mannkynssögunnar, mann sem auðgaði þekkingarsjóð okkar til muna“.
Öflugur andstæðingur
Þeir sem leitað hafa sannleikans hafa alltaf átt sér marga andstæðinga. (Lúkas 21:15) Einn af mörgum andstæðingum Servetusar var Jóhann Kalvín en hann hafði komið á eins konar alræði mótmælenda í Genf. Að því er sagnfræðingurinn Will Durant segir „byggðist einræði Kalvíns ekki á lögum eða valdi heldur á einbeitni hans og skapgerð“. Kalvín „hafnaði einstaklingshyggju í trúmálum af engu minni ákafa en páfinn“.
Servetus og Kalvín hafa sennilega hist í París sem ungir menn. Þeir höfðu gagnkvæma andúð hvor á öðrum allt fá fyrsta fundi og svo fór að Kalvín varð svarinn fjandmaður Servetusar. Þótt Kalvín væri einn af leiðtogum siðbótarinnar kærði hann Servetus til kaþólska rannsóknarréttarins. Servetus komst naumlega undan og flúði Frakkland. Þar var þá brennd eftirmynd af honum til að sýna honum fyrirlitningu. En í Genf, rétt handan landamæranna, voru borin kennsl á hann og þar í borg voru orð Kalvíns lög.
Kalvín lét varpa Servetusi í fangelsi og beitti hann miklu harðrétti. Þegar hann var leiddur fyrir rétt deildi hann við Kalvín og bauðst til að breyta um afstöðu að því tilskildu að Kalvín sannfærði hann með biblíulegum rökum. Það gat Kalvín ekki og réttarhöldunum lyktaði svo að Servetus var dæmdur til dauða og skyldi brenndur á báli. Sumir sagnfræðingar segja að hann sé eini andófsmaðurinn í trúmálum sem hafi verið brenndur táknrænt af kaþólskum og í alvöru af mótmælendum.
Boðberi trúfrelsis
Kalvín tókst að koma persónulegum andstæðingi sínum fyrir kattarnef en glataði um leið siðferðilegu áhrifavaldi sínu. Hin rangláta aftaka Servetusar olli mikilli reiði meðal hugsandi manna út um alla Evrópu og reyndist vatn á myllu frjálshyggjumanna sem börðust fyrir borgaralegum réttindum og kröfðust þess að enginn maður skyldi tekinn af lífi fyrir trúarskoðanir sínar. Þeir urðu einbeittari en nokkru sinni fyrr í baráttunni fyrir trúfrelsi.
Ítalska ljóðskáldið Camillo Renato mótmælti aftökunni með þessum orðum: „Hvorki Guð né andi hans hafa hvatt til slíkra verka. Kristur fór ekki þannig með nokkurn sem afneitaði honum.“ Og franski húmanistinn Sébastien Chateillon skrifaði: „Að drepa mann verndar ekki kenningu heldur drepur mann.“ Sjálfur hafði Servetus sagt: „Ég álít það alvarlegt mál að drepa menn fyrir það að rangtúlka ritninguna á einhverju sviði því að við vitum að hinir útvöldu geta meira að segja látið villast.“
Um áhrifin af aftöku Servetusar segir í bókinni Michael Servetus — Intellectual Giant, Humanist, and Martyr: „Með dauða Servetusar urðu þáttaskil og sú hugmyndafræði og sá hugsunarháttur, sem ríkt hafði síðan á fjórðu öld, lét undan síga.“ Þar segir áfram: „Frá sögulegum sjónarhóli varð dauði Servetusar til þess að samviskufrelsi varð að borgaralegum réttindum í nútímaþjóðfélagi.“
Árið 1908 var reist minnismerki um Servetus í franska bænum Annemasse, rétt um fimm kílómetra frá staðnum þar sem hann dó. Á minnismerkinu er eftirfarandi áletrun: „Mikael Servetus, . . . landafræðingur, læknir og lífeðlisfræðingur, bætti hlutskipti mannkyns með vísindauppgötvunum sínum, með umhyggju sinni fyrir sjúkum og fátækum og með því að láta ekki hneppa hugsun sína og samvisku í fjötra. . . . Sannfæring hans var óhagganleg. Hann fórnaði lífi sínu í þágu sannleikans.“
[Neðanmáls]
^ Spænsk yfirvöld dæmdu í útlegð 120.000 gyðinga sem neituðu að taka kaþólska trú og þúsundir Mára voru brenndar á báli.
^ Sjá greinina „The Complutensian Polyglot — A Historic Translation Tool,“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. apríl 2004.
^ Í riti sínu, Declarationis Iesu Christi Filii Dei (yfirlýsing um Jesú Krist), kallar Servetus þrenningarkenninguna ruglingslega og óskiljanlega og segir að ekki sé „stafkrókur“ fyrir henni í Ritningunni.
^ Servetus undirritaði síðasta bréf sitt, þá í fangelsi, með orðunum: „Mikael Servetus, aleinn, en treystir á örugga vernd Krists.“
[Rammi/myndir á blaðsíðu 13]
Servetus notaði nafnið Jehóva
Í leitinni að sannleikanum komst Servetus að þeirri niðurstöðu að hann ætti að nota nafnið Jehóva. Nokkrum mánuðum eftir að William Tyndale notaði nafnið í þýðingu sinni á Mósebókunum fimm gaf Servetus út ritið De Trinitatis Erroribus, og þar notaði hann nafnið Jehóva óspart. Hann gaf eftirfarandi skýringu: „Hitt nafnið, helgast allra nafna, יהוה, má túlka . . . ‚Hann lætur verða‘, ‚hann sem lætur verða til‘, ‚orsök tilverunnar‘.“ „Nafnið Jehóva getur aðeins átt við föðurinn,“ sagði hann.
Árið 1542 annaðist Servetus útgáfu hinnar kunnu latnesku biblíuþýðingar sem kennd er við Santes Pagninus (sjá mynd að neðan). Í ítarlegum spássíugreinum leggur hann enn á ný áherslu á nafn Guðs. Hann nefnir nafnið Jehóva í spássíuvísunum í mikilvæga ritningarstaði eins og Sálm 83:18 (vers 19 í íslensku biblíunni) þar sem orðið „Drottinn“ stendur í meginmálinu.
Í síðasta verki sínu, Christianismi Restitutio, segir Servetus um nafn Guðs, Jehóva: „Ljóst er . . . að margir notuðu þetta nafn til forna.“
[Mynd]
Minnismerkið í Annemasse í Frakklandi.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Mynd frá 15. öld af nauðungarskírn múslima á Spáni.
[Credit line]
Capilla Real, Granada
[Mynd á blaðsíðu 11]
Fyrsta blaðsíða „De Trinitatis Erroribus“.
[Credit line]
Úr bókinni De Trinitatis Erroribus eftir Michael Servetus, 1531.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Servetus rannsakaði lungnablóðrásina.
[Credit line]
Anatomie descriptive et physiologique, París, 1866-7. Ritstj. L. Guérin
[Mynd á blaðsíðu 12]
„Syruporum universa“ var brautryðjandaverk í lyfjafræði.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Jóhann Kalvín varð hatrammur fjandmaður Servetusar.
[Credit line]
Biblioteca Nacional, Madrid
[Mynd credit line á blaðsíðu 10]
Biblioteca Nacional, Madrid