Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve lengi getum við lifað?

Hve lengi getum við lifað?

Hve lengi getum við lifað?

„Þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ — JOBSBÓK 33:25.

ÞEGAR hundur deyr eftir 10 til 20 ár hefur hann sennilega gert mestallt sem hundar gera á ævinni. Hann hefur kannski eignast hvolpa, elt ketti, grafið bein og verndað húsbónda sinn. En þegar maðurinn deyr eftir 70 til 80 ár hefur hann aðeins gert brot af því sem hann hefði getað gert. Ef hann hafði gaman af íþróttum gat hann líklega aðeins náð framúrskarandi árangri í einni eða tveim greinum. Ef hann hafði unun af tónlist gat hann trúlega ekki lært að leika listilega vel á fleiri en eitt eða tvö hljóðfæri. Ef hann hafði ánægju af því að tala við fólk á þeirra eigin máli gat hann sennilega aðeins lært að tala tvö eða þrjú tungumál reiprennandi. Hann hefði getað gert svo miklu meira — kynnst fleira fólki, uppgötvað nýja hluti og eignast nánara samband við Guð — ef hann hefði bara lifað aðeins lengur.

Ef til vill veltirðu fyrir þér hvers vegna Guð skapaði manninn með huga sem getur haft ánægju af svo mörgu en svekki hann síðan með skammri ævi sem leyfi honum að upplifa svo fátt. Hin stutta ævi mannsins virðist ekki passa við þau augljósu ummerki um tilgangsríka hönnun sem sjá má í sköpunarverkinu. Þú veltir kannski líka fyrir þér hvers vegna Guð hafi skapað manninn með einstaka eiginleika eins og réttlætiskennd og meðaumkun en um leið áskapað honum tilhneigingu til að breyta illa.

Ef þú sæir flottan bíl með ljótri beyglu, myndirðu þá álykta að beyglan væri hluti af hönnuninni? Að sjálfsögðu ekki. Þú hugsar sennilega með þér að bíllinn hafi ekki átt að vera svona, að hann hafi verið vel hannaður en síðan hafi einhver skemmt hann. Það er eins með þá stórkostlegu arfleifð sem lífið er, við hljótum að draga þá ályktun að lífið sé ekki eins og það átti að vera. Hin stutta ævi og tilhneiging manna til að breyta illa eru eins og ljótar beyglur. Einhver hlýtur að hafa skemmt dýrmæta arfleifð mannsins. Hver gerði það? Biblían gefur sterka vísbendingu um að hér sé einn ákveðinn sökudólgur að verki.

Ef mannkynið hafði upphaflega möguleika á að lifa að eilífu, hver gat þá skemmt þessar framtíðarhorfur fyrir öllum mönnum? Það getur aðeins hafa verið upprunalegur forfaðir okkar allra, sá sem við erum öll afkomendur af. Ef það hefði verið einhver annar hefði hann aðeins geta skaðað gen takmarkaðs fjölda manna — það er að segja sinna eigin afkomenda. Orð Guðs, Biblían, er því í samræmi við augljósar staðreyndir þegar hún segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam, fyrsta manninn] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna.“ (Rómverjabréfið 5:12) Biblían segir því að Adam sé sekur um að skemma arfleifð okkar. En hvernig átti líf manna upphaflega að vera?

Innsýn í hina upprunalegu hönnun

Þegar Biblían segir að dauðinn hafi ‚komið inn í heiminn‘ gefur hún til kynna að upphaflega hafi maðurinn ekki átt að deyja. Hjá mönnum eru elli og dauði afleiðing af uppreisn fyrsta mannsins gegn Guði. Dýrum var hins vegar ekki ætlað að lifa að eilífu. — 1. Mósebók 3:21; 4:4; 9:3, 4.

Fólk var ekki hannað eins og dýrin. Við erum æðri dýrum á sama hátt og englar eru æðri okkur mönnum. (Hebreabréfið 2:7) Maðurinn var skapaður „eftir Guðs mynd“ en ekki dýrin. (1. Mósebók 1:27) Og ólíkt dýrunum kallar Biblían Adam ‚son Guðs‘. (Lúkas 3:38) Við höfum því góða og gilda ástæðu til að trúa því að manninum hafi ekki verið ætlað að hrörna og deyja. Guð deyr ekki og hann skapaði syni sína ekki heldur til að deyja. — Habakkuk 1:12; Rómverjabréfið 8:20, 21.

Við fáum frekari innsýn í það hvernig Guð hannaði manninn í upphafi þegar við skoðum sögu fyrstu kynslóðanna. Fólk á þeim tíma lifði í margar aldir án þess að hrörna. Adam varð 930 ára. Nokkrum kynslóðum síðar varð Sem, sonur Nóa, aðeins 600 ára og Arpaksad, sonarsonur Nóa, 438 ára. * (1. Mósebók 5:5; 11:10-13) Abraham, sem var upp seinna, náði aðeins 175 ára aldri. (1. Mósebók 25:7) Syndin virðist hafa haft sífellt meiri áhrif á æviskeið manna og ævi þeirra styttist eftir því sem þeir fjarlægðust hina fullkomnu hönnun. En í upphafi var maðurinn skapaður til að lifa að eilífu. Það er því eðlilegt að velta því fyrir sér hvort það sé enn vilji Guðs að menn lifi eilíflega á jörðinni.

Lausn undan öldrun

Jehóva Guð hafði lýst því yfir að hver sá sem óhlýðnaðist honum myndi gjalda fyrir syndina með lífi sínu. Afkomendur Adams virtust því vera í vonlausri stöðu. (1. Mósebók 2:17) En innblásið orð Guðs veitti mönnum samt von um að einhver myndi leysa þá undan þessum örlögum. Við lesum: „‚Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina, ég hefi fundið lausnargjaldið,‘ þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ (Jobsbók 33:24, 25; Jesaja 53:4, 12) Hérna veitir Biblían okkur fagurt fyrirheit um að einhver muni greiða lausnargjald til að leysa okkur undan áhrifum öldrunar.

Hver gæti greitt þetta lausnargjald? Gjaldið var hærra en svo að hægt væri að greiða það með peningum. Biblían segir um ófullkomna menn: „Enginn fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann . . . til að hann fengi að lifa um aldur.“ (Sálmur 49:8-10, Biblíurit, ný þýðing 2003) En Jesús Kristur gat gefið eitthvað sem var verðmætara en peningar. Þegar hann var á jörðinni var hann fullkominn maður því að hann var sonur Guðs og erfði þar af leiðandi ekki syndina frá Adam. Jesús sagðist hafa komið til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga“. Við annað tækifæri sagði hann: „Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.“ — Matteus 20:28; Jóhannes 10:10.

Vonin um eilíft líf var eitt helsta stefið í prédikun Jesú. Pétur, sem var trúfastur fylgjandi hans, sagði einu sinni við hann: „Þú hefur orð eilífs lífs.“ (Jóhannes 6:68) Hvað á Biblían við þegar hún talar um eilíft líf?

Eilíft líf

Postular Jesú horfðu fram til þess að lifa að eilífu á himnum og vera hluti af ríkisstjórn Jesú. (Lúkas 22:29; Jóhannes 14:3) En þrátt fyrir það talaði Jesús oft um fyrirætlun Guðs með jörðina. (Matteus 5:5; 6:10; Lúkas 23:43) Kraftaverk Jesú og orð hans um eilíft líf staðfesta loforð sem Guð gaf spámanninum Jesaja löngu áður. Jesaja skrifaði: „Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ (Jesaja 25:8) Æviskeið manna mun þá ekki framar einkennast af hrörnun og hrumleika í kjölfar fárra og skammvinnra æskuára.

Í nýjum heimi Guðs, þegar trúfastir menn hljóta fullkomleika, verða þeir lausir við ellina. Biblían segir: „Sjálf sköpunin [mun] verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:21) Hugsaðu þér! Fólk mun vaxa að visku og þroska og þótt aldirnar líði mun æskuþróttur manna aldrei dvína. Munt þú lifa til að sjá þann tíma?

Hve lengi munt þú lifa?

Samkvæmt orðum Jesú mun tala manna á jörðinni snarlækka í kjölfar dómsdags Guðs. (Matteus 24:21, 22) Jesús sagði: „Vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ — Matteus 7:13, 14.

Til að vera meðal þeirra sem munu lifa að eilífu verður þú að leitast við að þóknast Guði. Fyrsta skrefið er að kynnast honum. Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð.“ (Jóhannes 17:3) Að vísu kostar það vinnu að kynnast Guði vel, en það er erfiðisins virði. Það kostar líka vinnu að eiga fyrir mat á hverjum degi og Jesús líkti einmitt þekkingunni á Guði við fæðu. Hann sagði: „Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs.“ (Jóhannes 6:27) Er það ekki þess virði að leggja sig allan fram til að eignast eilíft líf? — Matteus 16:26.

Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Hve lengi þú lifir er því undir því komið hvernig þú bregst við kærleika Guðs.

[Neðanmáls]

^ Sumir halda því fram að árin, sem nefnd eru í þessari biblíufrásögu, séu í raun mánuðir. En í frásögunni segir að Arpaksad hafi eignast Sela þegar hann var 35 ára að aldri. Ef það væru 35 mánuðir hefði Arpaksad orðið faðir áður en hann varð 3 ára — sem er augljóslega ekki hægt. Þar að auki er gerður greinarmunur á tunglmánuðum og sólarárum í fyrstu köflum 1. Mósebókar. — 1. Mósebók 1:14-16; 7:11.

[Innskot á blaðsíðu 7]

Eftir 80 ára ævi hefur maðurinn aðeins gert brot af því sem hann hefði getað gert.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Menn eru hannaðir til að vera æðri dýrum.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Var þessi bíll upprunalega hannaður með beyglu?

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Í orði Guðs segir að menn muni snúa „aftur til æskudaga sinna“.