Gleðjumst í voninni
Gleðjumst í voninni
JOE var alvarlega veikur. Hann var með krabbamein á lokastigi. Kirsten, eiginkona hans, og nokkrir vinir voru við rúmstokkinn og töluðu saman. Kirsten leit á eiginmann sinn og sá að tár runnu niður kinnar hans. Í fyrstu hélt hún að hann fyndi til og kannski var það raunin. En hann tjáði henni að það væri ekki ástæðan fyrir því að hann felldi tár.
Kirsten segir svo frá: „Á þessum erfiða tíma var Joe umkringdur nánum vinum sem voru komnir til að vera hjá honum. Hann átti sér líka dýrmæta von sem var honum raunverulegri núna en nokkru sinni fyrr og hann vissi að enginn gat tekið þessa von frá honum. Hann sagði mér að tárin væru gleðitár. Joe lést síðar um nóttina.“
Hvaða von var það sem styrkti Joe þegar honum hrakaði? Það var loforð Jehóva Guðs um eilíft líf við fullkomna heilsu í paradís á jörð. (Sálmur 37:10, 11, 29) Í Opinberunarbókin 21:3, 4 segir: „Tjaldbúð Guðs er meðal mannanna. . . . Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra [þar á meðal öll vandamál nútímans] er farið.“
Von um hina látnu
Vonin, sem Joe hafði, rætist þegar hann verður reistur upp úr gröfinni. Hann leitaði hughreystingar í loforði Jesú um að „allir þeir, sem í gröfunum eru“ — hinir dánu sem eru varðveittir í minni Guðs — munu snúa aftur úr svefni dauðans. (Jóhannes 5:28, 29) Ert þú sorgmæddur vegna þess að þú hefur misst einhvern í fjölskyldunni eða vin í dauðann? Ef svo er getur upprisuvonin líka hughreyst þig. Auðvitað þurrkar þessi von ekki út þann sára missi sem við finnum fyrir þegar ástvinur deyr. Jesús grét meira að segja þegar Lasarus, vinur hans, lést. En vonin sefar sársaukann. — Jóhannes 11:14, 34, 35; 1. Þessaloníkubréf 4:13.
„Þegar Joe tapaði í baráttunni við krabbamein fannst mér eins og ég gæti aldrei orðið hamingjusöm aftur,“ segir Kirsten. „Núna, nokkrum árum seinna, veit ég að líf mitt í þessu heimskerfi verður aldrei hið sama. Joe skildi eftir tómarúm í lífi mínu sem er ekki hægt að fylla. En ég get sagt í fullri hreinskilni að ég hafi aftur öðlast innri frið og ánægju.“
Orð Kirstenar minna okkur á að við getum ekki ætlast til þess að vera yfir okkur glöð allar stundir í núverandi heimskerfi. Lífið býður upp á bæði gleði og sorgir. Og stundum er eðlilegt að vera sorgmæddur og algerlega óviðeigandi að vera kátur. (Prédikarinn 3:1, 4; 7:2-4) Sum okkar berjast líka við þunglyndi, ýmissa orsaka vegna. En þrátt fyrir það veita loforð Biblíunnar okkur mikla huggun. Óviðjafnanleg viska hennar getur forðað okkur frá ýmsum tálgryfjum sem valda óhamingju. Guð segir: „Sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.“ — Orðskviðirnir 1:33.
Já, Jehóva ber velferð okkar fyrir brjósti. Hann vill að við séum hamingjusöm — ekki á yfirborðinu heldur að innstu hjartarótum og ekki bara til skamms tíma heldur um alla eilífð. Því sagði sonur hans þessi sígildu orð: „Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ (Lúkas 11:28) Við sýnum mikla visku með því að taka þessi orð til okkar.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 9]
Uppskrift að hamingjunni
1. Lærðu að meta það sem andlegt er. — Lúkas 11:28.
2. Vertu nægjusamur og forðastu fégirnd. — 1. Tímóteusarbréf 6:6-10.
3. Leggðu ekki of mikla áherslu á skemmtun. — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 4.
4. Láttu þér annt um velferð annarra og vertu örlátur. — Postulasagan 20:35.
5. Vertu þakklátur fyrir það sem þú hefur. — Kólossubréfið 3:15.
6. Vertu fús til að fyrirgefa. — Matteus 6:14.
7. Veldu vini þína viturlega. — Orðskviðirnir 13:20.
8. Gættu heilsunnar og forðastu slæma ávana. — 2. Korintubréf 7:1.
9. Gleðstu yfir þeirri von sem Biblían veitir. — Rómverjabréfið 12:12.
[Caption on page 9]
Vonin, sem Biblían gefur um líf í nýjum heimi, veitir okkur mikla hughreystingu.