Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Jehóva, þú fannst mig!“

„Jehóva, þú fannst mig!“

„Jehóva, þú fannst mig!“

Nelly Lenz segir frá

„Eruð þið vottar Jehóva?“ spurði ég mennina tvo sem komnir voru í heimsókn. „Já,“ svöruðu þeir. „Ég líka!“ hrópaði ég. Ég var aðeins 13 ára og sótti ekki samkomur í ríkissalnum. Foreldrar mínir voru ekki vottar Jehóva. Hvers vegna sagðist ég þá vera vottur?

ÉG HEFÐI aldrei fæðst ef ekki væri vottum Jehóva fyrir að þakka. Móðir mín varð ófrísk að mér þegar hún bjó í Montréal í Québec í Kanada. Hún var aðeins 17 ára. Fjölskylda hennar beitti hana miklum þrýstingi að fara í fóstureyðingu. Hún féllst á það.

Mamma bað um eins dags frí frá vinnu til að fara í fóstureyðinguna. Yfirmanneskjan, sem var vottur Jehóva, vissi greinilega hvers vegna móðir mín vildi fá frí. Hún sagði mömmu í fáum orðum hve dýrmæt gjöf lífið væri. (Sálmur 139:​13-16) Á leiðinni til heilsugæslustöðvarinnar hugleiddi mamma hvað vinnuveitandinn hafði sagt. Hún ákvað að láta ekki eyða fóstrinu. Þegar ég fæddist árið 1964 lét hún mig á munaðarleysingjaheimili.

Fyrstu kynnin af sannleikanum í Biblíunni

Mamma og maðurinn hennar tóku mig af munaðarleysingjaheimilinu skömmu eftir að þau giftust. Ég var þá tæplega tveggja ára. Meðan þau bjuggu í Sainte-Marguerite-du-Lac-Masson fóru þau að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva og sóttu samkomur þeirra. En bráðlega fluttum við til Boisbriand og þau hættu biblíunáminu.

Nokkrum árum síðar héldu þau náminu áfram. Ég lagði eyrun við og heyrði um vonina, sem sagt er frá í Biblíunni, um að jörðin yrði paradís. (Lúkas 23:43) Mér fór að þykja mjög vænt um Jehóva.

Dag einn sagði mamma að þau væru hætt að kynna sér Biblíuna með aðstoð vottanna og við færum ekki oftar í ríkissalinn. Í fyrstu var ég fegin. Ég var átta ára og mér fannst stundum samkomurnar dragast nokkuð á langinn. Þetta kvöld langaði mig samt til að tala við Jehóva í bæn en ég óttaðist að hann hlustaði ekki á mig.

Nágrannar okkar voru vottar Jehóva. Næsta sunnudag sá ég þegar þeir voru að fara á síðdegissamkomuna. Ég fór að gráta og spurði Guð: „Hvers vegna fá börnin þeirra að fara á samkomur en ekki ég?“ En orðin í Sálmi 33:18 reyndust sönn: „Augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.“

Aftur á samkomur

Þremur vikum síðar heimsótti ég nágrannana og sagði móðurinni, Lilianne, að mig langaði til að mæta á samkomur. Hún sagði að það væri ekki hægt þar sem mamma vildi engin samskipti hafa við votta Jehóva. En ég sat við minn keip. Hún fór með mig heim og spurði mömmu hvort ég mætti fara með þeim. Ég varð hissa þegar mamma samþykkti það. Hún sagði að á samkomunum lærði ég góðar lífsreglur. Ég fór því á samkomur á hverjum sunnudegi.

Í um það bil þrjú ár gat ég mætt á safnaðarsamkomur. En þegar ég varð 11 ára skildu foreldrar mínir og við mamma fluttum burt. Enn einu sinni missti ég allt samband við votta Jehóva.

Óvænt heimsókn

Dag einn sat ég úti á tröppunum heima þegar tveir vottar, Eddie Besson og Don Fisher, komu og spurðu hvort foreldrar mínir væru við. Þegar ég sagði að svo væri ekki sneru þeir frá. En ég hljóp á eftir þeim og samtalið í upphafi greinarinnar átti sér stað.

Mennirnir urðu náttúrlega undrandi að heyra mig segja að ég væri vottur Jehóva. Ég útskýrði fyrir þeim hvernig málum væri háttað og bað þá fyrir alla muni að koma aftur þá um kvöldið. Þegar ég sagði mömmu að vottarnir ætluðu að líta inn varð hún mjög æst og sagðist ekki hleypa þeim inn. Hún ætlaði reyndar að vera farin út áður en þeir kæmu. Ég grátbað hana um að vera kyrra. Í sama bili og hún ætlaði að fara hringdi dyrabjallan og það var Eddie Besson. Hugsið ykkur hvað ég varð glöð þegar mamma þáði biblíunámskeið.

Loksins gat ég sótt safnaðarsamkomur aftur! Mamma hætti samt aftur að nema tæplega ári síðar. Að þessu sinni bannaði hún mér að hafa nokkur samskipti við vottana og fleygði öllum ritum þeirra sem hún gat fundið. En mér tókst að fela biblíu, söngbók, tvö innbundin bindi af Varðturninum, tvær árbækur Votta Jehóva og bókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. * Í síðustu námsstundinni spurði ég Eddie Besson hvað ég gæti gert þar sem mér þætti mjög vænt um Jehóva. Hann hvatti mig til að nema upp á eigin spýtur og vera dugleg að biðja. Hann fullvissaði mig um að Jehóva myndi annast mig. Ég var rétt tæplega 14 ára.

Ég hélt „samkomurnar“ sjálf

Upp frá því fór ég á hverjum sunnudegi inn í herbergið mitt og lét sem ég væri á samkomu. Ég söng „Horfið á sigurlaunin!“ í upphafi og í lok „samkomunnar“ af því að það var eina lagið í söngbókinni sem ég mundi. Allt fram á þennan dag get ég ekki sungið þennan söng án þess að tárast. Ég las einnig námsgrein úr innbundna Varðturninum sem ég átti. Síðan lauk ég „samkomunni“ með bæn. Mér fannst Jehóva vera mér nálægur þótt ég umgengist ekki lengur vottana.

Þegar ég varð 17 ára fluttum við mamma til Montréal. Þessi ár voru erfið þar sem heimilið var síður en svo nokkur sælureitur.

Fundin!

Dag nokkurn þáði mamma bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð hjá vottunum. Ég sá hana liggja á borðinu þegar ég kom heim og fór að blaða í henni. Þegar ég sá að í henni var notað nafn Guðs, Jehóva, fór ég að gráta og sagði í hljóðri bæn: „Jehóva, þú fannst mig!“

Ég varð að hafa samband við trúsystkini mín. En hvernig? Mamma sagði mér að nágranni okkar væri að öllum líkindum vottur. Á leiðinni í vinnuna kom ég við hjá honum og hringdi dyrabjöllunni. Syfjulegur maður kom til dyra. Hann varð mjög undrandi þegar ég sagði honum að ég væri vottur Jehóva og mig langaði til að láta skírast. Hann kom því í kring að trúsystir hans, Josée Miron að nafni, fræddi mig um Biblíuna. Enn einu sinni fór mamma að malda í móinn yfir því að ég væri að kynna mér Biblíuna. Hún sagði mér að ég þyrfti að bíða með að verða vottur þar til ég yrði 18 ára.

Dýrkeypt fjölskyldulíf?

Vinnuveitandi minn tók eftir að ástandið heima fór versnandi. Hann bauð mér oft að heimsækja þau hjónin um helgar. Þar sem ég hef yndi af hestum fórum við oft saman í útreiðar. Mér fannst þau vera mér sem foreldrar.

Dag einn tjáði vinnuveitandinn mér að þeim hjónum þætti mjög vænt um mig og þau langaði til að ég byggi hjá þeim. Í boðinu fólst það sem mig hafði alltaf langað til að eignast, raunveruleg fjölskylda. En það var háð einu skilyrði — ég varð að hætta að umgangast votta Jehóva. Ég fékk viku til að hugsa mig um en ég þurfti ekki einu sinni einn dag. Ég svaraði þeim strax. Jehóva hafði aldrei yfirgefið mig og ég gat ekki yfirgefið hann.

Í þjónustu við Guð

Vegna erfiðleikanna heimafyrir flutti ég til stjúpföður míns. Hann hvatti mig til að halda náminu áfram og 17. desember 1983, þegar ég var 19 ára, lét ég skírast. Ég var svo glöð að sjá Eddie Besson á skírnardeginum. Nú gat hann ekki lengur efast um að ég væri vottur Jehóva.

Framkoma stjúpföður míns breyttist eftir að ég lét skírast. Þegar ég reyndi að biðja bænir talaði hann háum rómi og henti jafnvel ýmsu í mig. Hann fór einnig fram á að ég færi í framhaldsnám sem yrði til þess að trufla áform mín um að verða brautryðjandi, það er að segja boðberi í fullu starfi. Að lokum sagði hann mér að fara að heiman. Hann lét mig hafa 100 dollara ávísun og sagði að þegar ég innleysti hana kæmist ég að raun um að Jehóva bæri enga umhyggju fyrir mér.

Ég gerðist brautryðjandi 1. september 1986 og ég á enn þessa ávísun óinnleysta. Stundum var erfitt að vera brautryðjandi upp í sveit og vera bíllaus. En bræður og systur í söfnuðinum studdu við bakið á mér.

Með tíð og tíma kynntist ég indælum trúbróður sem hét Ruben Lenz. Við gengum í hjónaband árið 1989. Sem stendur þjónar Ruben sem öldungur í söfnuðinum í borginni Milton í Ontario í Kanada en þar höfum við átt heima síðan árið 2002. Hjónaband okkar hefur verið ein sú mesta blessun sem Jehóva hefur veitt mér. Ég hélt áfram í fullu starfi þangað til við eignuðumst Eriku, fyrsta barnið okkar, árið 1993. Rúmum þrem árum síðar eignuðumst við soninn Mika. Eftir margra ára einsemd blessaði Jehóva mig ríkulega með því að gefa mér fjölskyldu sem elskar hann eins mikið og ég.

Þótt ég væri öðru hverju viðskila við söfnuð Jehóva meðan ég var að alast upp hætti ég aldrei að setja von mína á hann og halda í vonina um eilíft líf í paradís. (Jóhannes 3:36) Ég er innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa „fundið“ mig.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Gefin út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Á hestbaki hjá vinnuveitanda mínum.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Hjónin Nelly og Ruben Lenz ásamt börnunum Eriku og Mika.