Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Úlfaldar í Andesfjöllum?

Úlfaldar í Andesfjöllum?

Úlfaldar í Andesfjöllum?

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í PERÚ

ERU úlfaldar í Suður-Ameríku? Okkur gæti fundist það ótrúlegt þar sem þetta eyðimerkurdýr er yfirleitt sett í samband við Afríku eða Asíu. En úlfaldategundirnar í Afríku og Asíu eru samt náskyldar lamadýrum í Suður-Ameríku. * Ólíkt fjarlægum ættingjum sínum eru suður-amerísku lamadýrin hins vegar ekki með hnúð á bakinu. Auk þess eru þau aðeins á stærð við meðalmann og ná ekki einu sinni upp að herðakambi á drómedara eða kameldýri.

Besti staðurinn til að sjá lamadýr er í Andesfjöllunum og þá helst í Bólivíu og Perú. Dýrin er einnig að finna á öðrum svæðum í Suður-Ameríku eins og Patagóníu og Eldlandi í Argentínu og Síle.

Tignarlegt göngulag lamadýranna vekur sérstaka hrifningu. Það er einnig tilkomumikið að sjá hve hratt þau komast og hve auðveldlega þau geta klifið grýttar fjallshlíðar. Þau eru með sérstakar klaufir sem mýkja skrefin og eru fullkomnari en nútímalegustu gönguskór.

Í Andesfjöllunum er lítið gras og jarðvegurinn grunnur. En klaufir lamadýranna spilla jarðveginum ekki jafnmikið og hófar hesta og múldýra. Auk þess eru tennur og efri gómur lamadýranna þannig úr garði gerð að þótt dýrin bíti gras skemma þau ekki rætur þess.

Flest dýr þrífast illa svona hátt uppi í fjöllum. En þar sem blóð lamadýrsins er ríkt af rauðum blóðkornum þrífst það vel, jafnvel hátt upp í Andesfjöllunum.

Á svæðum þar sem lítið er um eldivið má nota tað lamadýra í staðinn. Þar sem villt lamadýr afmarka svæði sín með taðhaugum er auðvelt að ná í þennan „eldivið“. Það þarf ekki einu sinni að höggva hann niður eins og tré. Auk þess þornar taðið fljótt í þurru lofti Andesfjallanna.

Hér áður fyrr voru lamadýr notuð við helgiathafnir. Chiribaya frumbyggjarnir í suðurhluta Perú grófu til dæmis alpökkur og lamadýr, sem hafði verið fórnað, undir húsgólf sín. Sagnfræðingar segja að í hverjum tunglmánuði hafi hundrað sérstaklega ræktuðum hvítum lamadýrum verið fórnað á Huayaca Pata, aðaltorginu í Cusco, en á Inti Raymi hátíðinni var færri dýrum fórnað sólarguðinum. Nú á dögum eru lamadýr sjaldan notuð við helgiathafnir en kjötið af þeim bragðast eins og lambakjöt og er talið mjög gott.

Löngu áður en ísskápar komu til sögunnar geymdu Inkar kjöt af lamadýrum með því að frostþurrka það. Til þess nýttu þeir sér kuldann og lága loftþrýstinginn hátt í Andesfjöllunum. Þeir kölluðu þetta þurrkaða kjöt ch’arki.

Við ættum auðvitað að meta þessi fallegu dýr mikils ekki aðeins vegna þess að þau nýtast mönnum vel heldur einnig vegna þess að þau eru Jehóva til lofs og hluti af dásamlegri sköpun hans. — Sálmur 148:​10, 13.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Í Suður-Ameríku eru fjórar tegundir lamadýra: Alpökkur, gúanökkur, lamadýr og villilömur. Þessar tegundir geta æxlast saman og getið af sér kynblendinga.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 16]

Gúanakkan — Fögur en þrautseig

Það mætti halda að stjana þyrfti við svona fallegt og fíngert dýr. En gúanökkuna má yfirleitt finna á mjög hrjóstrugum svæðum, allt frá háum sléttum Andesfjallanna að Pantagóníu og Eldlandi í suðurhluta Argentínu og Síle. Á þessu hrjóstruga svæði lifir gúanakkan á stilkum og rótum og drekkur vatn, jafnvel þótt það sé varla drykkjarhæft. Gúanakkan syndir vel og getur hlaupið á 65 kílómetra hraða á klukkustund. Þykk augnhár verja augu hennar fyrir vindum, sól og ryki. Því miður hafa veiðiþjófar sóst ákaft eftir kjöti, feld og ull gúanökkunnar sem er fínni en ull alpökkunnar.

[Credit line]

© Joe McDonald

[Rammi/mynd á blaðsíðu 16]

Alpakkan — Dúðuð í hlýjum búningi

Alpakkan býr í landi þar sem hitinn getur á einum degi sveiflast um 50 gráður á Celsíus og því er hún klædd þykkum, úfnum ullarbúningi frá toppi til táar. Mjúk ull alpökkunnar er sterkari er kindaull. Alpakkan er með granna snoppu og getur því náð til grasstráanna í Andesfjöllunum sem vaxa í mjóum sprungum milli klettanna. Þrátt fyrir það kýs þetta dúðaða dýr frekar að búa á mýrlendi þar sem grasið er mjúkt. Eins og önnur lamadýr getur alpakkan haldið út mjög lengi án vatns.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 17]

Villilaman — í lúxusklæðnaði

Þótt villilaman búi hátt í Andesfjöllunum, þar sem hitastigið er oft við frostmark, er hún léttklædd, með stuttan feld úr efni sem talið er það fínasta í dýraríkinu. Á framanverðri bringunni er hún með ullarbrúsk sem er eins og trefill. Fullvaxin villilama gefur yfirleitt af sér aðeins tæpt kíló af ull á tveggja ára fresti og því er þessi gæðaull bæði sjaldgæf og dýr. Einn metri af gæðaull villilömunnar getur kostað yfir 200.000 íslenskar krónur.

Undir stjórn Inkaríkisins voru sett lög til verndar villilömunni. Komið var á fót rúningshátíð sem kallaðist chaccu og einungis kóngafólk fékk þann heiður að ganga í klæðnaði úr ull af villilömu. Hátíðinni hefur aftur verið komið á fót núna á síðustu árum og sett hafa verið lög til að vernda þessa tegund fyrir veiðiþjófum.

Mikilvægur þáttur í þessari hátíð er að safna villilömum í gildru sem er eins og trekt í laginu og 300 metra breið við innganginn. Síðan eru þær rúnar og þeim sleppt að því loknu.

[Credit line]

© Wilfredo Loayza/PromPerú

[Rammi/myndir á blaðsíðu 17]

Lamadýrið — Vinnuhestur Andesfjallanna

Lamadýrið er hvorki jafnsterkt og asninn né jafnspretthart og hesturinn. Samt nýtist það betur sem burðardýr. Það getur borið allt að 60 kíló á bakinu. Ef því finnst byrðin of þung sest það einfaldlega niður og neitar að hreyfa sig þangað til búið er að létta byrðina mátulega. Ef reynt er að þvinga dýrið áfram getur það ælt mat úr fremsta magahólfinu af þremur og spýtt honum út af ótrúlega mikilli nákvæmni og krafti.

En lamadýrið er yfirleitt auðsveipt, og góður húsbóndi getur leitt langa lest lamadýra um hrjóstrugar sléttur hátt í fjöllunum þar sem önnur burðardýr myndu ekki þola súrefnisskortinn. Sökum þess hve hentugt er að nota lamadýrið sem burðardýr á fjallasvæðum er það ekki aðeins notað í Andesfjöllunum heldur einnig í ítölsku Ölpunum. Hægt er að vinna reipi, aktygi og ábreiðu lamadýra úr þeirra eigin ull.

[Credit line]

© Anibal Solimano/PromPerú

[Mynd á blaðsíðu 18]

Nýrúin alpakka.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Ungt lamadýr merkt með skúf.

[Mynd credit line á blaðsíðu 15]

Kort: Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.; lamadýr: © Alejandro Balaguer/PromPerú.