Baráttan gegn nafni Guðs
Baráttan gegn nafni Guðs
HANANÍA ben Teradíon var Gyðingur og fræðimaður á annarri öld. Hann var þekktur fyrir að halda almenningssamkomur þar sem hann notaði Sefer-Tóruna við kennslu, en það er bókrolla með fyrstu fimm bókum Biblíunnar. Hananía var einnig þekktur fyrir að nota nafn Guðs og kenna öðrum það. Hvernig gat hann kennt Tóruna án þess að kenna nafn Guðs þar sem það stendur meira en 1800 sinnum í fyrstu fimm bókum Biblíunnar?
En fræðimönnum Gyðinga var hætta búin á dögum Hananía. Að sögn gyðinglegra sagnfræðinga hafði rómverski keisarinn lagt dauðarefsingu við því að kenna eða stunda gyðingatrú. Um síðir handtóku Rómverjar Hananía og við handtökuna hélt hann á eintaki af Sefer-Tórunni. Hann svaraði ákærendum sínum hreinskilnislega að hann væri aðeins að hlýða tilskipun Guðs þegar hann fræddi aðra um Biblíuna. Samt sem áður var hann dæmdur til dauða.
Þegar Hananía var tekinn af lífi var hann vafinn í sömu bókrolluna og hann hélt á við handtökuna. Síðan var hann brenndur á báli. Alfræðibókin Encyclopaedia Judaica segir: „Til að hann kveldist lengur var blautur ullarbrúskur settur yfir hjartað svo að hann væri lengur að deyja.“ Kona hans var líka tekin af lífi og dóttir hans seld í vændishús.
Þó að Rómverjar hafi verið ábyrgir fyrir þessari hrottalegu aftöku á Hananía segir Talmúðinn: * „Hann var brenndur vegna þess að hann mælti fram nafnið í fullri lengd.“ Já, Gyðingar litu á það sem alvarlega synd að nota nafn Guðs.
Þriðja boðorðið
Á fyrstu og annarri öld fór augljóslega að gæta hjátrúar meðal Gyðinga varðandi notkun nafnsins. Mishnan (samsafn skýringa rabbína sem urðu undirstaða Talmúðsins) segir „að sá sem mælir fram nafn Guðs eins og það er stafað“ eigi enga hlutdeild í hinni fyrirheitnu jarðnesku paradís Guðs.
Hvaðan voru slík bönn komin? Sumir álíta að Gyðingar hafi talið nafn Guðs of heilagt fyrir ófullkomna menn að taka sér í munn. Þegar fram liðu stundir hikuðu menn jafnvel við að skrifa nafnið. Samkvæmt heimildarriti einu greip þessi ótti um sig þar sem menn höfðu áhyggjur af því að skjalið, þar sem nafnið var skrifað, gæti endað í ruslinu og að nafn Guðs myndi þar af leiðandi vanhelgast.
Encyclopaedia Judaica segir að „menn hafi forðast að segja nafnið JHVH . . . vegna þess að þeir misskildu þriðja boðorðið“. Hið þriðja af boðorðunum tíu, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, var á þess leið: „Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.“ (2. Mósebók 20:7) Bann Guðs við rangri notkun á nafni sínu snerist því upp í hjátrú.
Enginn heldur því auðvitað fram nú á dögum að Guð léti brenna einhvern á báli fyrir að nota nafn hans. Hjátrú Gyðinga er samt enn við lýði. Margir tala um fjórstafanafnið sem „nafnið ósegjanlega“. Meðal sumra hópa eru allar vísanir til nafns Guðs bornar vísvitandi rangt fram til að brjóta ekki hefðina. Til dæmis er Jah, sem er stytting á nafni Guðs, borið fram Kah. Hallelúja er borið fram Hallelúka. Sumir forðast jafnvel að skrifa út hugtakið „Guð“ og setja bandstrik fyrir einn eða fleiri bókstafi. Þeir myndu til dæmis skrifa „G-ð“ í staðinn fyrir „Guð“.
Fleiri tilraunir til að fela nafnið
Gyðingdómurinn er engan veginn einn um það að forðast að nota nafn Guðs. Híerónýmus er annað dæmi um það. Hann var kaþólskur prestur og ritari Damasusar páfa 1. Árið 405 lauk hann við að þýða alla Biblíuna yfir á latínu og varð sú þýðing þekkt undir nafninu Vulgata Latina. Híerónýmus hafði nafn Guðs ekki í þýðingu sinni heldur fylgdi hann þeirri venju samtíðarinnar að nota orðin „Drottinn“ og „Guð“ í stað nafnsins. Vulgata-þýðingin varð fyrsta viðurkennda kaþólska biblíuþýðingin og undirstaða margra annarra þýðinga yfir á ýmis tungumál.
Svo dæmi sé tekið var kaþólska Douay-þýðingin, sem kom út árið 1610, í raun ensk
þýðing hinnar latnesku Vulgata-þýðingar. Það er því ekki að undra að nafni Guðs hafi verið algerlega sleppt í þessari biblíu. En Douay-þýðingin var ekki eins og hver önnur biblía heldur var hún eina viðurkennda biblían fyrir enskumælandi kaþólikka fram á fimmta áratug síðustu aldar. Já, nafn Guðs var hulið milljónum dyggra kaþólikka í hundruð ára.King James biblían er annað dæmi um þetta. Árið 1604 fól Jakob 1. Englandskonungur teymi fræðimanna að þýða Biblíuna yfir á ensku. Um sjö árum síðar gáfu þeir út King James biblíuna, einnig þekkt sem Authorized Version.
Þýðendur þessarar biblíu forðuðust líka að nota nafn Guðs og létu það standa aðeins í fáeinum versum. Í flestum tilfellum var skipt á nafni Guðs fyrir orðin „DROTTINN“ eða „GUГ sem áttu að tákna fjórstafanafnið. Þessi biblía varð ráðandi í hinum enskumælandi heimi. Alfræðibókin World Book Encyclopedia segir: „Engin mikilvæg ensk biblíuþýðing kom út í meira en 200 ár eftir útkomu King James þýðingarinnar. Allan þann tíma var King James þýðingin útbreiddasta þýðingin í hinum enskumælandi heimi.“
Þetta eru aðeins þrjár af mörgum biblíuþýðingum síðustu alda þar sem nafninu er sleppt að mestu eða öllu leyti. Það er ekkert skrýtið að flestir sem segjast kristnir nú á dögum séu hikandi við að nota nafn Guðs eða þekkja það alls ekki. Auðvitað hafa sumir biblíuþýðendur í áranna rás haft nafn Guðs í þýðingum sínum. En flestar þessara þýðinga eru frekar nýlegar og hafa haft lítil áhrif á hina ríkjandi afstöðu til nafns Guðs.
Í bága við vilja Guðs
Hin útbreidda venja að nota ekki nafn Guðs byggist einvörðungu á hefðum manna en ekki kenningum Biblíunnar. „Ekkert í Tórunni bannar mönnum að segja nafn Guðs. Af ritningunni að dæma var nafn Guðs notað dags daglega,“ segir Tracey R. Rich, höfundur vefsíðunnar Judaism 101. Já, tilbiðjendur Guðs á biblíutímanum notuðu nafn hans.
Með því að þekkja nafn Guðs og nota það færumst við nær því að tilbiðja hann á réttan hátt, það er að segja eins og gert var á biblíutímanum. Þannig getum við stigið fyrsta skrefið í átt að persónulegu sambandi við hann og það er miklum mun betra en einfaldlega að vita hvað hann heitir. Í raun býður Jehóva Guð okkur að eiga slíkt samband við sig. Hann lét skrá eftirfarandi hlýlegt boð: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ (Jakobsbréfið 4:8) En þú spyrð kannski: Hvernig getur lítilmótlegur maður verið svo náinn alvöldum Guði? Næsta grein útskýrir hvernig þú getur ræktað náið samband við Jehóva.
[Neðanmáls]
^ gr. 5 Talmúðinn er samsafn af fornum erfikenningum Gyðinga og er álitinn eitt heilagasta og áhrifamesta ritverk gyðingdómsins.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Hallelúja
Hvað kemur upp í hugann þegar þú heyrir orðið „hallelúja“? Ef til vill minnir það þig á átjándu aldar meistaraverk Händels, „Messías“, með hinum áhrifamikla hallelúja-kórsöng. Eða kannski dettur þér í hug hinn þekkti sálmur „Í Betlehem“. Þú hefur örugglega heyrt orðið „hallelúja“ einhvers staðar. Ef til vill notarðu það endrum og sinnum. En veistu hvað það merkir?
Hallelúja — Íslensk umritun hebresku orðanna halelu Jah sem merkja „lofið Jah“.
Jah — Ljóðræn stytting á nafni Guðs, Jehóva. Það kemur um 50 sinnum fyrir í Biblíunni og oft sem hluti af orðinu „Hallelúja“.
[Rammi á blaðsíðu 7]
Er nafn Guðs í nafninu þínu?
Mörg biblíunöfn eru vinsæl enn þann dag í dag. Í sumum tilfellum er nafn Guðs fólgið í upphaflegri merkingu þeirra á hebresku. Hér eru nokkur dæmi um þess konar nöfn og merkingu þeirra. Ef til vill er nafnið þitt eitt þeirra.
Elías — ‚Guð minn er Jehóva.‘
Jóel — ‚Jehóva er Guð.‘
Jóhanna — ‚Jehóva er náðugur.‘
Jón — Stytting á nafninu Jóhannes sem merkir ‚Jehóva er náðugur‘.
Jónatan — ‚Jehóva hefur gefið.‘
Jósef — ‚Jah bæti við.‘ *
[Neðanmáls]
^ gr. 35 Jah er stytting á nafninu Jehóva.
[Rammi á blaðsíðu 8]
Heiti sem Biblían notar um Guð
Hebreskur texti Heilagrar ritningar notar ýmis heiti um Guð eins og til dæmis hinn alvaldi, skapari, faðir og Drottinn. Eiginnafn hans er hins vegar notað mun oftar en öll þessi heiti til samans. Guð vill augljóslega að við notum nafn hans. Skoðaðu listann hér að neðan yfir heiti sem notuð eru í Hebresku ritningunum. *
Jehóva — 6973 sinnum
Guð — um 2600 sinnum
Drottinn — oftar en 300 sinnum
Hinn alvaldi — 48 sinnum
Skapari — 32 sinnum
Hinn hæsti — um 30 sinnum
Faðir — 7 sinnum
Hinn aldraði — 3 sinnum
[Neðanmáls]
^ gr. 40 Byggt á Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar, gefin út af Vottum Jehóva.
[Rammi á blaðsíðu 9]
Guð sem framkvæmir
Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um hvað nafn Guðs, Jehóva, merkir. En eftir að hafa rannsakað málið ítarlega telja margir að nafnið sé mynd hebresku sagnarinnar ha·wahʹ (verða) sem merkir: „Hann lætur verða.“
Í Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar * er 2. Mósebók 3:14 þess vegna þýdd á eftirfarandi hátt en þar spyr Móse Guð að nafni: „Þá sagði Guð við Móse: ,Ég verð sá sem ég verð.‘ Og hann sagði: ,Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: „Ég verð sendi mig til ykkar.“ ‘ “
Þessi þýðing er viðeigandi þar sem Guð er fær um að verða hvaðeina sem hann þarf að vera. Ekkert getur hindrað hann í að gegna því hlutverki sem hann þarf að gegna til að framkvæma vilja sinn. Fyrirætlanir hans og loforð verða alltaf að veruleika. Öðru fremur er Guð skaparinn, sá sem hefur ótakmarkaða getu til að gera það sem hann ætlar sér. Hann skapaði alheiminn. Hann skapaði líka ótal andaverur. Já, hann er Guð sem framkvæmir.
[Neðanmáls]
^ gr. 54 Gefin út af Vottum Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Rismynd af aftöku Hananía ben Teradíons.
[Myndir á blaðsíðu 8, 9]
Staðir þar sem nafn Guðs er áberandi
1. Kirkja í Lomborg, Danmörku, 17. öld.
2. Steindur gluggi, dómkirkjan í Bern, Sviss.
3. Dauðahafshandrit, með forn- hebresku letri, Ísrael, um 30-50 e.o.t.
[Credit line]
Shrine of the Book, Israel Museum, Jerúsalem
4. Sænsk mynt, 1600.
[Credit line]
Kungl. Myntkabinettet, Sveriges Ekonomiska Museum
5. Þýskt bænakver, 1770.
[Credit line]
Úr bókinni Die Lust der Heiligen an Jehova. Oder: Gebaet-Buch, 1770.
6. Áletrun á stein, Bæjaraland, Þýskalandi.
7. Móabítasteinninn, París, Frakklandi, 830 f.o.t.
[Credit line]
Musée du Louvre, París
8. Loftmynd í kirkjuhvelfingu, Olten, Sviss.