Horft á heiminn
Horft á heiminn
Hin óupplýsta kynslóð
„Ungir Bandaríkjamenn eru skelfilega fáfróðir,“ segir dagblaðið Daily News í New York. Til dæmis geta „11 af hundraði ekki staðsett Bandaríkin“ á heimskorti. „Og þegar þeim er fengið ómerkt kort af Bandaríkjunum hefur helmingurinn enga hugmynd um hvar New York er.“ Þegar þeir voru beðnir um að finna lönd, sem rætt hafði verið um í fréttum, gátu aðeins 13 af hundraði staðsett Írak og Íran og aðeins 17 af hundraði gátu fundið Afganistan. Meira að segja gat eingöngu 71 af hundraði Bandaríkjamanna á aldrinum 18 til 24 ára staðsett stærsta haf heims — Kyrrahafið. Í könnun National Geographic Society voru alls 56 spurningar lagðar fyrir 3250 ungmenni í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Japan, Kanada, Mexíkó, Svíþjóð og Þýskalandi. Til að fá A í einkunn þurfti að hafa að meðaltali 42 rétt svör en engin þjóð náði þeim árangri. Svíþjóð komst næst því með að meðaltali 40 rétt svör og fylgdu Þýskaland og Ítalía fast á eftir með 38 rétt svör. Bandaríkjamenn voru næstsíðastir í röðinni með að meðaltali 23 rétt svör, rétt fyrir ofan Mexíkó sem hafði 21 rétt svar. „Ef unga fólkið okkar getur ekki fundið staði á landakorti og er ekki meðvitað um atburði líðandi stundar, hvernig getur það þá skilið þau menningar-, auðlinda- og efnahagsmál sem við okkur blasa?“ spyr John Fahey forseti National Geographic Society.
Jarðhermir
Hinn 11. mars 2002 ræstu japanskir verkfræðingar öflugustu ofurtölvu sem gerð hefur verið. Að sögn tímaritsins Time höfðu þeir það markmið „að skapa tölvugerða eftirmynd af jörðinni“. Tölvan er kölluð Jarðhermir en hún er á stærð við fjóra tennisvelli og kostar um 25 milljarða íslenskra króna. Hún getur framkvæmt 35 billjónir útreikninga á sekúndu en það er fimm sinnum meira en bandarísk hertölva sem er næsthraðvirkasta tölvan og getur framkvæmt 7,2 billjónir útreikninga á sekúndu. Time segir: „Vísindamenn geta gert tölvulíkan af allri jörðinni með því að senda veðurfarsgögn frá gervihnöttum og sjávarbaujum í Jarðherminn og síðan geta þeir spáð um breytingar á umhverfinu. Vísindamenn eru nú þegar búnir að búa til spá um hitastig úthafanna fyrir næstu 50 árin.“
„Dauðaupplifun“ í nýju ljósi
Þýski vísindafréttavefurinn Bild der Wissenschaft-Online greinir frá því að svissneskir taugasérfræðingar hafi fyrir tilviljun vakið svonefnda „dauðaupplifun“ hjá konu þegar þeir notuðu rafóðu til að finna hvar í heilanum flogaköst hennar áttu upptök sín. Í hvert skipti sem þeir örvuðu hornfellinguna í hægri hluta heilabarkarins fannst konunni sem hún yfirgæfi líkamann og horfði niður á hann. Þetta heilasvæði virðist tengja sjónræna vitund mannsins um sjálfan sig og skynjun hans á því hvar hann er staðsettur. „Örvun rafóðunnar truflaði þessa víxlverkun hjá sjúklingnum með þeim afleiðingum að skynjunin virtist yfirgefa líkamann,“ segir á fréttavefnum. Slíkar upplifanir „hafa mjög oft ýtt undir þær hugmyndir að sálin sé óháð líkamanum“.
Börn róast við lestur foreldranna
„Ef foreldrar lesa reglulega fyrir börnin getur það dregið verulega úr andfélagslegri hegðun óstýrilátra barna sem slást, stela og ljúga,“ segir Lundúnablaðið The Times. Meira en 100 börn frá fimm til sex ára aldri úr miðborg Lundúna tóku þátt í tíu vikna tilraun sem gerð var af geðlækningastofnun í Lundúnum. Foreldrunum var sagt að „byrja á því að slökkva á farsímanum áður en þeir settust niður til að lesa fyrir börnin, segja börnunum stuttlega um hvað sagan fjallar og taka sér síðan góðan tíma til að fletta blaðsíðunum og skoða myndirnar“. Blaðið segir rannsóknina „hafa sýnt fram á að ef foreldrar taka sér góðan tíma til að vera með börnunum geti það bætt hegðun þeirra frá unga aldri“. „Það sem börn raunverulega þurfa er athygli, og hana geta þau fengið þegar foreldrarnir lesa fyrir þau,“ segir Stephen Scott sem er læknir og hafði yfirumsjón með tilrauninni.