Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Forðumst meiðandi orð

Forðumst meiðandi orð

Sjónarmið Biblíunnar

Forðumst meiðandi orð

„Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 3:10.

EINN af þeim einstæðu eiginleikum, sem greina okkur frá dýrum, er hæfileikinn til að tala. Því miður misnota sumir þessa gáfu. Móðganir, blótsyrði, klúryrði, guðlast, ókurteisi og ósæmandi orðbragð getur sært — stundum meira en líkamleg meiðsli. „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur,“ segir í Biblíunni. — Orðskviðirnir 12:18.

Þeim fjölgar sem venja sig á að bölva og ragna. Skólar skýra frá því að börn noti í vaxandi mæli ruddalegt orðbragð. Sumir fullyrða hins vegar að gróft orðbragð geti komið sér vel eða veitt góða tilfinningalega útrás. Nemandi í stjórnmálafræði skrifaði: „Gróft orðbragð getur verið mjög áhrifaríkt þegar venjulegur orðaforði nægir hreint og beint ekki til að gefa til kynna kraftinn í tilfinningum okkar.“ Ættu sannkristnir menn að vera svona kærulausir gagnvart grófu orðbragði? Hvert er sjónarmið Guðs?

Höfum andstyggð á ósæmandi fyndni

Ósæmilegt orðbragð er ekkert nútímafyrirbæri. Kemur þér á óvart að heyra að ósæmandi orðbragð hafi verið vel þekkt meðal fólks á dögum postulanna, fyrir nálega 2000 árum? Það virðist til dæmis sem nokkrir í söfnuðinum í Kólossu hafi viðhaft ruddalegt orðbragð þegar þeir reiddust. Vera má að þeir hafi gert það til þess að ráðast á eða særa aðra af ásettu ráði, ef til vill í hefndarskyni. Margir eru einnig ruddalegir nú á dögum þegar þeim rennur í skap. Bréf Páls til Kólossumanna á því vel við núna. Hann skrifaði: „En nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.“ (Kólossubréfið 3:8) Kristnir menn eru greinilega minntir á að forðast reiðiköst og svívirðilegt orðbragð en það fer svo oft saman.

Vissulega bregða margir fyrir sig svívirðilegu orðbragði án þess að ætla sér að ráðast á aðra eða vera særandi. Sennilega er oftast gripið til þess í hugsunarleysi. Ruddaleg orðatiltæki hasla sér þannig völl í daglegu tali. Sumir eiga jafnvel erfitt með að tjá sig án þess að vera með blótsyrði á vörum. Oftsinnis er ruddalegt orðbragð haft í frammi til að vekja kátínu. En ætti þá að líta á það sem minni háttar móðgun og líða það? Lítum á eftirfarandi.

Algengt er að skrýtlur, spaug og skopsögur, sem fólk segir, séu með kynferðislegu og klámfengnu ívafi. Margir líta á sig sem siðsamt fólk en hafa gaman af ósæmandi fyndni af þessu tagi. (Rómverjabréfið 1:28-32) Það er því ekkert undarlegt að bæði eðlileg og óeðlileg kynhegðun sé aðalviðfangsefni margra gamanleikara. Algengt er að klámfengin fyndni sé uppistaðan í mörgum kvikmyndum og sjónvarps- og útvarpsþáttum.

Biblían hefur sitt að segja um ósæmandi fyndni. Páll postuli skrifaði kristna söfnuðinum í Efesus: „En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. (Efesusbréfið 5:3, 4) Það er ljóst að Guð hefur vanþóknun á ósæmandi tali, hvað svo sem liggur að baki. Gróft orðbragð af þessu tagi er hneykslanlegt.

Meiðandi orð sem Guð hefur vanþóknun á

Orðbrag þarf ekki að vera klámfengið til að vera gróft eða meiðandi. Móðganir, kaldhæðni, háð og nöpur gagnrýni geta verið mjög særandi. Að vísu syndgum við öll með tungu okkar, sérstaklega þar sem kaldhæðni og bakmælgi eru svo algeng umhverfis okkur. (Jakobsbréfið 3:2) Sannkristnir menn ættu samt aldrei að vera kærulausir gagnvart því að tala illa um aðra eða viðhafa gróft orðbragð. Í Biblíunni kemur greinilega fram að Jehóva Guð hefur vanþóknun á allri illmælgi.

Í 2. Konungabók fræðumst við til dæmis um það þegar hópur drengja áreitti Elísa spámann. Frásagan segir að þeir hafi ‚hætt hann‘ og ‚kallað til hans: „Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!“‘ Jehóva, leit svívirðingar þessara ungu drengja mjög alvarlegum augum enda gat hann lesið hjörtu þeirra og séð illgirnina sem bjó þar. Frásagan segir að Guð hafi látið drepa 42 drengi vegna illmælgi þeirra. — 2. Konungabók 2:23, 24.

Ísraelsmenn „smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði Drottins við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra“. (2. Kroníkubók 36:16) Þótt það hafi fyrst og fremst verið skurðgoðadýrkun þjóðar Guðs og óhlýðni sem egndi hann til reiði er athyglisvert að í Biblíunni er sérstaklega minnst á svívirðingarnar sem spámenn Guðs urðu fyrir. Þetta varpar ljósi á hversu afdráttarlausa vanþóknun Guð hefur á slíkri hegðun.

Biblían hvetur því kristna menn: „Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega.“ (1. Tímóteusarbréf 5:1) Við getum farið eftir þessari grundvallarreglu í umgengni okkar við aðra. Í Biblíunni erum við hvött til að ‚lastmæla engum, vera ódeilugjörn, sanngjörn og sýna hvers konar hógværð við alla menn‘. — Títusarbréfið 3:2.

Höfum taumhald á tungunni

Stundum gæti verið erfitt að standast þá löngun að svívirða einhvern. Þegar einhverjum er gert rangt til fyndist honum ef til vill réttlætanlegt að endurgjalda það með óvægilegum og meiðandi orðum — annaðhvort beint framan í viðkomanda eða þegar hann heyrir ekki til. Kristnir menn láta ekki undan slíkri löngun. Í Orðskviðunum 10:19 segir að ‚málæðinu fylgi yfirsjónir en sá breyti hyggilega sem hafi taum á tungu sinni‘.

Englar Guðs gefa gott fordæmi. Þeir vita um öll illskuverk mannanna. En þó að englarnir séu mönnum meiri að mætti og valdi fara þeir „ekki með guðlast, þegar þeir ákæra þá hjá Drottni“. (2. Pétursbréf 2:11) Englarnir hafa taumhald á tungu sinni þar sem þeir vita að Guði er fullljóst hverjar misgerðir allra eru og að hann er fullfær um að leiðrétta þær. Höfuðengillinn Míkael dirfðist ekki einu sinni að lastmæla djöflinum. — Júdasarbréfið 9.

Kristnir menn leggja sig alla fram um að líkja eftir englunum. Þeir fara eftir ráðum Biblíunnar: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.‘“ — Rómverjabréfið 12:17-19.

Það er athyglisvert að hljómur og styrkur raddarinnar getur jafnvel orðið til þess að það sem við segjum virki meiðandi. Það er ekki fátítt að hjón særi hvort annað í háværum deilum. Oft á tíðum öskra foreldrar á börnin. En það er óþarfi að vera með hávaða þegar við látum í ljós tilfinningar okkar. Í Biblíunni erum við hvött til að ‚láta hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt okkur og alla mannvonsku yfirleitt‘. (Efesusbréfið 4:31) Enn fremur segir þar að ‚þjónn Drottins eigi ekki að eiga í ófriði, heldur eigi hann að vera ljúfur við alla‘. — 2. Tímóteusarbréf 2:24.

Græðandi orð

Þar sem ruddalegt og klámfengið málfar er orðið svo algengt nú á tímum ættu kristnir menn að hafa úrræði til að standa á móti skaðlegum áhrifum þess. Biblían lætur okkur í té gott ráð, það er að segja að elska náungann. (Matteus 7:12; Lúkas 10:27) Einlæg umhyggja og náungakærleikur kveikir löngun með okkur til að vera alltaf með græðandi orð á vörum. Í Biblíunni stendur: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ — Efesusbréfið 4:29.

Þegar við hugfestum orð Guðs eigum við einnig hægara með að forðast skaðleg orð og gróft málfar. Við eigum auðveldara með að „leggja af hvers konar saurugleik“ þegar við lesum og hugleiðum Heilaga ritningu. (Jakobsbréfið 1:21) Já, orð Guðs getur grætt huga okkar.