Hún áorkaði mun meiru en hún bjóst við
Hún áorkaði mun meiru en hún bjóst við
„ÉG VISSI að sögukennaranum mínum líkaði ekki við votta Jehóva en hafði samt enga hugmynd um hvers vegna,“ segir Rebekka, sautján ára stúlka frá Þýskalandi. Þess vegna hikaði hún þegar kennarinn spurði hvort einhver væri til í að flytja fyrirlestur fyrir bekkinn. Hún tók samt í sig kjark og spurði hvort hún mætti fjalla um ofsóknir nasista á hendur vottum Jehóva í seinni heimsstyrjöldinni. Kennaranum leist vel á þá hugmynd.
Nemendunum fannst kynning Rebekku athyglisverð og þeir þáðu alls 44 blöð og bæklinga um viðfangsefnið. Eftir kynninguna lét Rebekka kennarann fá heimildarefnið, meðal annars bækur og myndbönd sem eru ekki gerð af Vottum Jehóva. Eitt myndbandið greindi frá ofsóknum á hendur vottum Jehóva í Austur-Þýskalandi í kalda stríðinu. Það vakti sérstaka athygli kennarans þar sem hann kannaðist ekki við það efni.
Rebekka komst að því af hverju kennaranum líkaði ekki við vottana. Hann sagðist hafa verið í skóla með ungum manni sem var vottur. Ungi votturinn sagði lítið um trú sína eða hvernig það væri að vera vottur. Þess vegna ályktaði kennarinn að vottarnir væru skrýtnir og ákvað að hann vildi ekki eiga neitt saman við þá að sælda. En kynning Rebekku breytti viðhorfi hans. „Mér semur miklu betur við kennarann núna,“ segir hún. „Ég hef líka lært að við unga fólkið ættum að tala oftar opinskátt við aðra um trú okkar.“
En þar með er ekki öll sagan sögð. Kennarinn sagði samkennurum sínum frá þessum góða fyrirlestri sem Rebekka flutti. Nokkrum dögum síðar bað siðfræðikennarinn Rebekku um að flytja fyrirlesturinn aftur, ekki bara fyrir einn bekk heldur við mjög sérstakt tilefni — árlega minningarathöfn skólans um frelsun fanga úr fangabúðunum í Auschwitz í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Um 360 nemendur og um tíu kennarar voru viðstaddir. Eftir kynninguna þáðu áheyrendur 50 bæklinga og skólinn bað um 150 eintök til dreifingar síðar meir.
Rebekka áorkaði mun meiru en hún hafði búist við. Hún vitnaði rækilega um trú sína, ekki aðeins fyrir bekknum heldur öllum skólanum. Og kennari hennar vann bug á fordómum sínum gagnvart vottunum.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Heinrich Fundis var hálshöggvinn af nasistum. Hundruð votta Jehóva voru einnig líflátin.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Mörgum vottum Jehóva var boðið frelsi ef þeir afneituðu trú sinni með því að skrifa undir þetta skjal.
[Credit line]
Með góðfúslegu leyfi United States Holocaust Memorial Museum.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Börn eins og Berthold Mewes voru tekin frá foreldrum sínum.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Þetta myndband greinir frá hugrekki votta Jehóva á tímum nasista í Þýskalandi.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Fjólublár þríhyrningur var saumaður á fangabúninga til að einkenna votta Jehóva.