Hve mörg skilningarvit höfum við?
Hve mörg skilningarvit höfum við?
„Við vinnum svo vel og fyrirhafnarlaust með umhverfi okkar að það er erfitt að gera sér grein fyrir þeim gríðarlegu útreikningum sem fylgja einföldustu skynreynslu.“ — SENSORY EXOTICA — A WORLD BEYOND HUMAN EXPERIENCE.
ÍMYNDAÐU þér að þú sért að hjóla eftir fáförnum vegi úti í sveit. Nemar í fótleggjunum sjá til þess að þú stígir hjólið af nákvæmlega réttu afli til að halda jöfnum hraða. Jafnvægisskynið sér um að halda þér uppréttum, með nefinu finnurðu angan umhverfisins, augun drekka í sig útsýnið og eyrun hlusta eftir kvaki fuglanna. Þig þyrstir og þú teygir þig í vatnsflöskuna. Snertiskyn fingranna hjálpar þér að grípa hana. Bragðlaukarnir, ásamt hita- og kuldanemum, segja þér til um bragð vökvans og hitastig. Nemar í húðinni og nemar tengdir líkamshárunum upplýsa þig um vindhraðann og segja þér, í samvinnu við augun, hve hratt þú hjólar. Hörundið gefur þér einnig upplýsingar um hita- og rakastig loftsins og tímaskynið segir þér hér um bil hve lengi þú hefur hjólað. Að lokum láta ýmis innri skynfæri til sín taka og knýja þig til að hvílast og matast. Öll saman mynda skilningarvitin eina samstillta heild.
Eru skilningarvitin aðeins fimm?
Hversu mörg skilningarvit notarðu þegar þú hjólar? Eru það aðeins þau fimm sem kallast hefðbundin — sjónin, heyrnin, lyktarskynið, bragðskynið og snertiskynið? Samkvæmt alfræðibókinni Encyclopædia Britannica nefndi heimspekingurinn Aristóteles þessi fimm skilningarvit, og „áhrif hans hafa reynst svo langvinn að margir tala enn um skilningarvitin fimm eins og þau séu ekki fleiri.“
En Britannica nefnir að rannsóknir á næmi hörundsins „bendi til þess að skilningarvit mannsins séu fleiri en fimm.“ Hvernig getur það verið? Ákveðnar skynjanir voru áður kallaðar einu nafni snertiskyn en eru nú taldar sérstæð skilningarvit. Sársaukanemar gera til dæmis greinarmun á þrýstingi,
varma og efnaáhrifum. Aðrir nemar senda boð um kláða. Margt bendir til þess að við höfum að minnsta kosti tvenns konar þrýstinema. Önnur gerðin nemi léttan yfirborðsþrýsting en hin gerðin nemi þrýsting sem nær dýpra. Líkaminn er einnig búinn fjölda innri skynfæra. Hvaða hlutverki gegna þau?Innri skynfærin
Innri skynfærin nema breytingar sem eiga sér stað inni í líkamanum. Þau gefa til dæmis merki um hungur, þorsta, þreytu, innvortis sársauka og þörfina að anda eða kasta af sér vatni. Innvortis nemar og lífklukka líkamans sameinast um að gera okkur lúin þegar kvöldar og valda þotuþreytu ef við fljúgum yfir nokkur tímabelti. Þar sem við „skynjum“ meðvitað gang tímans segja sumir að það eigi að telja tímaskynið eitt af skilningarvitunum.
Við höfum einnig jafnvægisskyn sem er staðsett í innra eyranu og mælir þyngdarafl, hröðun og snúning. Og að síðustu höfum við hreyfiskyn þannig að við skynjum vöðvaspennu ásamt hreyfingu og stellingu útlima, jafnvel með lokuð augu.
Maðurinn er auðvitað ekki einn um að hafa margþætt skilningarvit. Dýr eru líka með fjölda skilningarvita, jafnvel ýmsa undraverða skynjun sem við höfum ekki. Við lítum á sumt af því í greininni á eftir. Við ætlum einnig að skoða mannslíkamann svolítið betur og þá einstöku eiginleika sem gefa manninum sérstöðu meðal lífvera jarðar.
[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 4]
Hið undraverða snertiskyn mannsins
Mannshöndin er búin sérstaklega nákvæmu snertiskyni. Að sögn tímaritsins Smithsonian hafa vísindamenn komist að raun um að höndin getur skynjað depil sem er aðeins þrjú míkron á hæð. (Mannshár er 50 til 100 míkron í þvermál.) Ef notuð er „áferð í stað depils hefur hins vegar komið í ljós að mannshöndin getur skynjað ójöfnu sem er aðeins 75 nanómetrar á hæð,“ en nanómetri er einn þúsundasti úr míkrómetra! Þessa ótrúlegu næmni má þakka um það bil 2000 snertinemum á hverjum fingurgómi.
Snertiskynið gegnir líka mikilvægu hlutverki í heilbrigði okkar og vellíðan. „Gælur annarrar manneskju leysa úr læðingi hormón sem geta sefað sársauka og skerpt hugsunina,“ segir tímaritið U.S.News & World Report. Sumir telja að það tálmi vexti barna ef þau fara á mis við ástúðlega snertingu og gælur.
[Mynd credit line á blaðsíðu 3]
Auga: The Complete Encyclopedia of Illustration/J. G. Heck; eyra og innra eyra: © 1997 Visual Language; hönd: The Anatomy of Humane Bodies, with figures drawn after the life by some of the best masters in Europe . . . Oxford, 1698, William Cowper.