Gras — ekki aðeins grænar grundir
Gras — ekki aðeins grænar grundir
Í AUGUM sumra er gras lítið annað en þetta græna í kringum húsið sem þarf að slá. Bændur og knattspyrnumenn líta hins vegar á það sem vinnustað sinn. Og börnum finnst það vera tilvalið leiksvæði. En merkir orðið gras eingöngu flatir, tún og íþróttavelli?
Ef þú átt heima í háhýsi í þéttbýli mætti ætla að þú hefðir ósköp lítið af nokkru grasi að segja. Samt sem áður komast svo til allir daglega í snertingu við einhvers konar gras og afurðir þess. Hvað er gras eiginlega? Og hvaða notagildi hefur það?
Hvað er gras?
Lítum nánar á þessa smágerðu jurt. Yfirleitt eru ýmsar lágvaxnar, grænar jurtir kallaðar gras. Auk þeirra jurta, sem eru vísindalega skilgreindar af grasætt (Gramineae eða Poaceae), telja sumir stör og reyr tilheyra grasættinni. En grasættin ein telst vera hið eina sanna gras. Grasplöntur hafa yfirleitt nokkur sameiginleg einkenni. Skoðaðu nú gaumgæfilega það sem þú heldur að sé stöngullinn á grasinu.
Er hann hringlaga og holur, er hann með hnúta eða hné? Eru laufblöðin löng, flöt og mjó með samsíða æðar, koma blöðin úr slíðrum sem umlykja stöngulinn? Vaxa þau í röð sitt hvoru megin við stöngulinn og mynda tvær lóðréttar raðir? Eru ræturnar flókið kerfi örsmárra trefja í stað þess að kvíslast út frá meginrót? Eru blómin — ef þau eru sjáanleg — lítt áberandi og smá og mynda þau öx, axpunt eða punt? Ef svo er, þá er jurtin líklega af grasætt.
Enda þótt grasættin sé frekar einsleit að sjá, þá er fjölbreytnin stórkostleg og tegundirnar á bilinu 8000 til 10.000. Hæð jurtanna er á bilinu 2 sentímetrar upp í 40 metra hjá einstaka bambustegundum. Gróður jarðar er að verulegu leyti gras, enda engin furða þar sem það er eina aðlögunarhæfasta jurtaættin á jörðinni og vex á heimskautasvæðum, í eyðimörkum, regnskógum hitabeltisins og í vindblásnum fjallshlíðum. Gras er ráðandi á heilu gróðurbeltunum svo sem á sléttum og gresjum víðs vegar í heiminum.
Ýmsar grastegundir eru mjög harðgerðar og það stuðlar einmitt að útbreiðslu þeirra. Grasið er frábrugðið mörgum öðrum jurtum, það vex ekki frá toppnum heldur er vaxtarsvæðið rétt ofan við hnéð. Og nýir sprotar geta vaxið lárétt á stönglinum ofan á eða ofan í jarðveginum. Þegar sláttuvél eða tennur nautgripa bíta
toppinn af heldur grasið áfram að spretta, en margar aðrar plöntur myndu hætta að vaxa. Þess vegna er gott fyrir grasið að slá það oft en að sama skapi óhagstætt fyrir aðrar jurtir og þannig getur grasflötin orðið þétt og falleg.Enn fremur eru flestar grastegundir þannig að þótt stilkurinn bogni undan vindinum eða þegar stigið er á hann, getur hann rétt úr sér aftur með því að vaxa hraðar á þeirri hlið sem snýr að moldinni. Þar af leiðandi nær grasið sér fljótt eftir að hafa orðið fyrir hnjaski og hefur því yfirburði yfir aðrar jurtir í baráttunni um sólarljósið. Við ættum að fagna því að grasið er svona harðgert því að við erum háð því, þegar öllu er á botninn hvolft.
Fjölhæf jurt
Gras er bæði algengasta og mikilvægasta blómplöntufylkingin á jörðinni. Grasafræðingur lét þau
orð falla að grasið væri undirstöðufæðutegund okkar. Það er „eins og stíflugarður sem kemur í veg fyrir að mannkynið svelti.“ Reyndu að rifja upp hvað þú hefur borðað í dag. Byrjaðirðu daginn á skál af morgunkorni úr hirsi, hrísgrjónum, höfrum eða dúrrukorni? Þá hefurðu einmitt borðað grasfræ. Eða fékkstu þér kannski rúnnstykki eða annað brauð? Mjölið í brauðinu er gert úr hnetukjörnum grasa — hveiti, rúgmjöli, byggi eða öðrum korntegundum sem öll eru af grasætt. Kornflögur, maísbúðingur og maísflatkökur eru þar engin undantekning. Já, maís er líka grastegund. Fékkstu þér sykur í teið eða kaffið? Rúmlega helmingur alls sykurs er framleiddur úr sykurreyr sem er grastegund. Mjólk og ostur eru á vissan hátt unnið gras, því að það er fóður fyrir kýr, kindur og geitur.Og hvað um hádegisverðinn? Pasta og flatbökudeig er búið til úr hveiti. Hænsni og aðrir alifuglar eru oft fóðraðir á korni. Nautgripir eru fóðraðir á alls kyns grastegundum. Þar af leiðandi eru eggin, alifuglakjötið og nautakjötið, sem við borðum, meira eða minna grösunum að þakka sem hafa farið í gegnum meltingarkerfi dýranna. Það er líka hægt að drekka gras. Auk mjólkur eru margir algengir, áfengir drykkir búnir til úr grösum: bjór, viskí, romm, sake og vodka.
Hafðu ekki áhyggjur þótt uppáhaldsrétturinn þinn hafi ekki verið nefndur. Það er einfaldlega ekki hægt að telja upp allar fæðutegundir sem eru unnar úr grösum. Áætlað hefur verið að rösklega helmingur allra hitaeininga, sem neytt er í heiminum, eigi rætur að rekja til grastegunda, enda engin furða þar sem gras þekur allt að 70 prósent alls ræktaðs lands.
En gras er ekki eingöngu notað til fæðu. Sums staðar eru hús byggð úr leir sem er styrktur með hálmi. Víða í heiminum eru stráþök gerð úr grasi. Í Suðaustur-Asíu er bambus notaður í vinnupalla og leiðslur, húsgögn, veggi og margt fleira. Mottur og körfur eru ofnar úr grasi og það er líka hráefni í lími og pappír. Og ekki má gleyma fötunum. Flest dýr, sem gefa okkur ull og leðurafurðir, lifa á grasi. Grastegundin Arundo donax sér okkur fyrir reyr í tréblásturshljóðfæri, svo sem klarínett. Ekkert annað efni hefur fundist til þessara nota sem jafnast á við náttúrlegan reyr.
Gras hylur eða skrýðir meginhluta jarðar. Grænt engi eða vel hirt grasflöt er augnayndi og fyllir mann friði og ró. Grasættin er aðalsúrefnisgjafinn þar sem hún myndar svo gríðarlega mikið af grænum gróðri. Og fíngerðar ræturnar verja jarðveginn gegn uppblæstri. Sé margbreytileikinn hafður í huga kemur það ekki á óvart að notkun og ræktun grasjurta eigi sér langa sögu.
Saga grasjurta
Gras er fyrst nefnt í frásögu Biblíunnar af sköpuninni. Á þriðja sköpunardeginum sagði Guð: „Láti jörðin af sér spretta græn grös.“ (1. Mósebók 1:11) * Öll helstu menningarríki sögunnar hafa verið háð einhverjum grastegundum. Til dæmis var hveiti og bygg undirstöðufæða Egypta, Grikkja og Rómverja en hirsi og hrísgrjón hjá Kínverjum, og hveiti, bygg og hirsi hjá Indusmenningunni, en Mayar, Astekar og Inkar neyttu maís. Og víðáttumiklar gresjur sáu hestum mongólska riddaraliðsins fyrir heyi í fóður. Já, gras hefur alltaf verið mjög mikilvægt fyrir mannkynið.
Næst þegar þú sérð kornakur bylgjast í vindinum, gróskumikið grænt engi eða bara lítil grasstrá vaxa milli hellna í gangstéttinni, þá gætirðu staldrað við og leitt hugann að þessari stórkostlegu og ótrúlega fjölbreyttu jurtaætt. Þig gæti líka langað til að þakka hönnuðinum mikla, Jehóva Guði, eins og sálmaritarinn gerði þegar hann söng: „Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. . . . Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni. . . . Vegsama þú Drottin, sála mín.“ — Sálmur 104:1, 14, 31-35.
[Neðanmáls]
^ Hugsanlega hefur sagnritarinn ekki gert greinamun á plöntum sem líkjast grasi og þeim sem nú eru flokkaðar til grasættar.
[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 16, 17]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
Formgerð grasjurta
Helstu gerðir grasblóma
Ax
Axpuntur
Puntur
Trefjarætur
Slíður
Blað
Stöngull
Hné
[Myndir á blaðsíðu 18]
Fékkst þú þér gras að borða í dag?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Eða drakkstu það?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Þau nærast líka á grasi.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Híbýli geta líka verið úr grasi.