Bakþankar um stíflugerð
Bakþankar um stíflugerð
SÚ var tíðin að stíflugerð var talin hið besta ráð til að fullnægja vatns- og raforkuþörfum. Nú eru menn hins vegar farnir að hallast að annarri skoðun víða um lönd. Tímaritið World Watch bendir á að menn séu „ekki öruggir um það lengur að kostirnir séu þyngri á metunum en gallarnir. Nú er búið að reisa meira en 45.000 stórstíflur (15 metra eða hærri) í heiminum og rannsóknir benda æ meir í þá átt að kostnaðurinn kunni að vera hærri en margir gátu ímyndað sér.“ Hver er þessi kostnaður?
Umtalsverður kostnaður felst í því að 60 prósent af vatnsfarvegum heims skuli hafa spillst. Tímaritið World Watch segir: „Vistfræðilega séð eru árnar í herkví. Þeim er veitt í annan farveg, þær eru þurrkaðar upp, mengaðar og stíflaðar af slíkum krafti að ferskvatnskerfi hafa spillst um heim allan. Í meira en helmingi allra áa í heiminum hefur verið reist að minnsta kosti ein stór stífla . . . stíflur hafa átt drjúgan þátt í því að raska vistkerfum fljóta. Sem dæmi má nefna að í það minnsta fimmtungur af ferskvatnsfiski heims er í útrýmingarhættu eða útdauður.“ Úthafsfiskur, svo sem lax, verður einnig fyrir áhrifum þegar stíflur hindra að hann komist á klakstöðvar sínar í ám og fljótum.
Nú er jafnvel véfengt að raforka framleidd með vatnsafli sé mengunarlaus eins og lengi hefur verið talið. Ástæðan er sú að mikið myndast af gróðurhúsalofttegundum þegar lífræn efni safnast fyrir í uppistöðulónum og rotna. Og þá er félagslegi kostnaðurinn ótalinn. Sökum stíflugerðar hafa 40 til 80 milljónir manna verið fluttar búferlum — sem er langt yfir íbúatölu margra ríkja — oft af einhverju frjósamasta landi heims.
Hin breyttu viðhorf til stíflugerðar njóta vaxandi fylgis. Í Bandaríkjunum eru hvorki fleiri né færri en 75.000 stíflur af öllum stærðum dreifðar um ár og fljót, en Bandaríkjamenn eru nú með heimsforystu í því að taka stíflur úr notkun og eyðileggja þær. Alþjóðabankinn hefur jafnvel dregið úr lánum til stíflugerðar.
Stíflur þjóna vissulega nytsamlegum tilgangi. En stíflugerðaræði mannkynsins hefur, eins og svo margt annað, borið vitni um takmarkaða visku og framsýni og hefur staðfest orð spámannsins Jeremía að ‚það sé ekki á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.‘ — Jeremía 10:23.
[Mynd credit line á blaðsíðu 31]
MYND: MOURA