Jörð án jarðsprengna
Jörð án jarðsprengna
HVER getur losað heiminn við jarðsprengjubölið? Eins og fram hefur komið eru menn ekki færir um að uppræta hatur, fordóma og ágirnd. Biblíunemendur vita hins vegar að skaparinn getur leyst málið til frambúðar. En hvernig gerir hann það?
Að skapa friðsamlegt samfélag
Það eru ekki vopnin heldur mannfólkið sem veldur styrjöldum. Ef menn vilja skapa frið þarf að uppræta hatrið sem sundrar mannkyni í kynþætti, þjóðir og ættbálka. Guð hefur heitið því að gera það og beita til þess ríki sínu sem milljónir manna hafa beðið um í Faðirvorinu. — Matteus 6:9, 10.
Biblían kallar Jehóva „Guð friðarins.“ (Rómverjabréfið 15:33) Friðurinn, sem hann býður fram, er hvorki byggður á bönnum, alþjóðasamningum né óttanum við hefndaraðgerðir vígbúinna óvinaþjóða. Friðurinn frá Guði byggist á því að breyta hugsunarhætti fólks og afstöðu þess til náungans.
Jehóva Guð ætlar að kenna auðmjúkum mönnum að framganga í friði. (Sálmur 25:9) Orð hans, Biblían, talar um þann tíma þegar allir eru „lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 54:13) Að vissu marki er þetta að gerast núna því að vottar Jehóva eru þekktir um heim allan sem friðarafl meðal fólks af ólíkasta uppruna. Fólk er að kynnast hinum háleitu meginreglum Biblíunnar og leggur sig fram um að búa saman í einingu án tillits til deilumála sem myndu að öðrum kosti sundra þeim. Biblíufræðslan hefur þau áhrif að hatur snýst upp í kærleika. — Jóhannes 13:34, 35; 1. Korintubréf 13:4-8.
Mönnum hefur lengi verið ljóst að alþjóðasamvinna væri einnig forsenda algerrar afvopnunar. Til dæmis mælir Alþjóðaráð Rauða krossins með því að samfélag þjóðanna taki höndum saman um aðgerðir til að fyrirbyggja frekari jarðsprengjuvanda og vinna bug á þeim sem orðinn er.
Jehóva lofar miklu meiru. Spámaðurinn Daníel boðaði: „Guð himnanna [mun] hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga . . . Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem nú eru], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.
Ríki Guðs mun fá því áorkað sem maðurinn ræður ekki við. Til dæmis segir í Sálmi 46:10: „Hann [Jehóva Guð] stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“ Guðsríki skapar það andrúmsloft að maðurinn getur átt frið við skapara sinn og náungann. — Jesaja 2:4; Sefanía 3:9; Opinberunarbókin 21:3, 4; 22:2.
Augusto, sem nefndur var í byrjun greinarinnar á undan, er vel kunnugur þessum biblíuboðskap. Foreldrar hans eru vottar Jehóva og hvetja hann til að trúa á þessi fyrirheit Biblíunnar. (Markús 3:1-5) Nú sem stendur þarf hann auðvitað að þola sársaukafullar afleiðingar jarðsprengjunnar sem limlesti hann. En hann horfir fram til þess dags þegar fyrirheit Guðs um paradís á jörð rætist. „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast,“ segir Jesaja spámaður. „Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur.“ — Jesaja 35:5, 6.
Jarðsprengjur munu ekki ógna lífi manna og limum í paradís framtíðarinnar heldur munu menn búa öruggir og óhultir alls staðar á jörðinni. Spámaðurinn Míka lýsti því þannig: „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur Drottins allsherjar hefir talað það.“ — Míka 4:4.
Langar þig til að kynna þér nánar fyrirheit Guðs í Biblíunni? Hafðu þá samband við votta Jehóva á staðnum eða skrifaðu útgefendum þessa tímarits. Þú finnur heimilisfangið á bls. 5.
[Mynd á blaðsíðu 8, 9]
Jarðsprengjur munu ekki ógna lífi og limum þegar Guðsríki hefur tekið völd.