Hvítháfurinn á undir högg að sækja
Hvítháfurinn á undir högg að sækja
Mönnum stendur eflaust meiri stuggur af stærsta ránfiski heims, hvítháfinum, en nokkurri annarri lifandi veru. Samt er hann friðaður víðast hvar í höfunum við Ástralíu, Brasilíu, Namíbíu, Suður-Afríku og Bandaríkin, og sömuleiðis í Miðjarðarhafinu. Fleiri lönd og ríki hyggja einnig á friðun. En hvers vegna er verið að friða lífshættulega skepnu? Málið er nokkuð flókið eins og við munum komast að raun um og hugmyndir almennings eru ekki alltaf á rökum reistar.
HVÍTHÁFURINN * er efst í fæðukeðju hafsins ásamt háhyrningnum og búrhvalnum. Hann er konungur háfiskanna, eins konar ofurháfur! Hann étur allt sem að kjafti kemur — fiska, höfrunga og meira að segja aðra háfiska. En þegar hann eldist, stækkar og verður svifaseinni fær hann sérstakt dálæti á selum, mörgæsum og hræjum, einkum dauðra hvala.
Flestir háfiskar nota öll skynfærin til að finna fæðu, þar á meðal frábæra sjón. Þefskyninu er best lýst með myndlíkingunni syndandi nef! Og háfiskarnir heyra allt svo að það mætti kalla þá syndandi eyru.
Eyru háfiska styðjast við þrýstinæmar frumur sem liggja eftir báðum hliðum bolsins. Það fer ekkert framhjá þessum hlerunarbúnaði sem er sérstaklega stilltur þannig að hann nemi bylgjur í vatninu sem myndast við átök — til dæmis þegar fiskur berst um á spjóti veiðmanns. Þess vegna er skynsamlegt fyrir kafara, sem veiða með spjóti, að koma blæðandi afla upp úr sjónum sem fyrst.
Háfiskar hafa líka sjötta skilningarvitið, eins konar rafskynfæri. Nefið er alsett litlum opum tengdum skynfæri sem gerir
þeim kleift að greina veik rafboð sem myndast við hjartslátt, hreyfingu tálkna eða sundtök næstu bráðar. Reyndar er þetta sjötta skilningarvit svo næmt að háfiskar geta hugsanlega numið víxlverkun segulsviðs jarðar og hafs. Það má því ætla að þeir viti hvað er norður og hvað suður.Að þekkja hvítháfinn
Hann er kallaður hvítháfur enda þótt hann sé bara hvítur eða ljós að neðanverðu. Bakið er oftast dökkgrátt. Litirnir mætast í óreglulegri línu á hliðum fisksins. Engir tveir hvítháfar eru eins. Þetta auðveldar þeim að dyljast og hjálpar líka vísindamönnum að þekkja þá í sundur.
Hve stórir geta hvítháfar orðið? Bókin Great White Shark segir að stærstu hvítháfar, sem mældir hafa verið nákvæmlega, „séu á bilinu 5,8 til 6,4 metrar á lengd.“ Fiskar af þeirri stærðargráðu geta verið allt að tvö tonn á þyngd. Bolurinn er eins og tundurskeyti í laginu og þríhyrndir uggarnir vísa aftur svo að þessi ferlíki kljúfa sjóinn léttilega. Kraftmikill sporðurinn er næstum samhverfur sem er sjaldgæft meðal háfiska því að flestar hinar tegundirnar hafa áberandi mishverfan sporð.
Aðaleinkenni hvítháfsins og jafnframt það sem gerir hann svo ógnvekjandi er risastórt keilulaga höfuð, ísköld, svört augun og skolturinn alsettur þrístrendum, hárbeittum og skörðóttum tönnum. Þegar þessir tvíeggja „hnífar“ brotna eða detta úr spretta fram varatennur á ‚færibandi.‘
Knúinn heitu blóði
Hámeraættin, en til hennar teljast makrílháfurinn, hámerinn og hvítháfurinn, hefur allt öðruvísi blóðrás en flestir aðrir háfiskar. Blóðhitinn er þrem til fimm gráðum yfir sjávarhita. Heitt blóðið flýtir fyrir meltingunni og eykur styrk og þol. Makrílháfurinn lifir á hraðsyndum úthafsfisktegundum eins og túnfiski og nær allt að 100 km hraða á klukkustund á stuttum sprettum!
Eyruggarnir lyfta háfiskum upp á sundinu. Ef þeir synda of hægt ofrísa þeir eins og flugvélar og sökkva þótt lifrin sé með flothólfum fullum af lýsi. Lifrin er svo stór að hún getur vegið allt að fjórðungi heildarþyngdarinnar. Margar tegundir háfiska verða auk þess að synda látlaust til að geta andað því að þannig knýja þeir súrefnisauðugan sjó í gegnum munn og tálkn. Þess vegna eru þeir alltaf með þetta ískalda glott!
Mannæta?
Af 368 þekktum tegundum háfiska eru ekki nema um 20 hættulegar. Og af þeim eiga bara fjórar sök á um 100 árásum á menn sem árlega fréttist af í heiminum. Um 30 þessara árása eru banvænar. Sakborningarnir eru fjórar háfiskategundir: bleikháfurinn sem hefur hugsanlega orðið fleiri mönnum að bana en nokkur annar háfiskur, tígrisháfurinn, hvítugginn og hvítháfurinn.
Þótt undarlegt megi teljast komast að minnsta kosti 55 af hundraði þeirra sem verða fyrir árás hvítháfa lífs af og eru til frásagnar af því sem gerðist, og sums staðar í heiminum komast allt að 80 af hundraði lífs af. Hvers vegna lifa þetta margir af árás svona ógnvekjandi rándýrs?
Bíta og spýta
Hvítháfurinn er þekktur fyrir að spýta særðri bráðinni út úr sér eftir að hafa læst tönnunum fyrst í hana. Síðan bíður hann eftir að bráðin drepist áður en hann étur hana. Sé bráðin maður getur þessi hegðun gefið
tækifæri til björgunar. Stundum hefur hugrökkum mönnum tekist að bjarga félaga sínum sem sýnir hve skynsamlegt það er að synda aldrei einn.Slíkar björgunartilraunir væru samt lífshættulegar ef ekki kæmi til annað atferli sem er einkennandi fyrir hvítháfinn. Blóðlykt gerir hann ekki matgráðugan eins og aðrar tegundir háfiska. En hvers vegna notar hvítháfurinn þá aðferð að bíta og spýta?
Vísindamaður nokkur heldur því fram að það sé vegna augnanna. Hvítháfurinn er ekki með augnlok eða himnu til að verja augun eins og aðrar tegundir háfiska heldur rúllar hann þeim í augntóftinni þegar árekstur blasir við. Við áreksturinn er augað alveg óvarið fyrir klóm á sel eða öðru slíku. Þess vegna er algengt að hvítháfar geri snögga, banvæna árás og sleppi síðan bráðinni.
Við skulum líka hafa í huga að hvítháfurinn hegðar sér ekkert ólíkt smábörnum. Hann prófar allt með því að stinga því fyrst upp í sig! „En afleiðingarnar eru því miður oft hörmulegar þegar sá hvíti bítur bara til að prófa,“ segir John West, sjávarlíffræðingur í Sydney í Ástralíu.
Enda þótt hvítháfurinn sé hættuleg skepna er hann ekki óargadýr sem sækist eftir mannakjöti. Kafari, sem veiðir skeldýr og hefur verið í sjónum í 6000 klukkustundir, hefur bara séð tvo hvítháfa og hvorugur þeirra réðst á hann. Reyndar hefur hvítháfurinn oft flúið undan mönnum.
Hafkönnuðurinn Jacques-Yves Cousteau og félagi hans komust af tilviljun í návígi við risastóran hvítháf þegar þeir voru að kafa við Grænhöfðaeyjar. Cousteau skrifaði: „Viðbrögð þessarar risaskepnu voru með ólíkindum. Hún sprautaði frá sér saurskýi af eintómri hræðslu og hvarf á braut með feiknahraða.“ Niðurstaða hans var þessi: „Þegar ég velti fyrir mér reynslu okkar af hvítháfinum slær það mig alltaf hvað bilið er breitt á milli hugmynda almennings um þessa skepnu og þess atferlis sem við höfum orðið vitni að.“
Hvítháfurinn sem bráð
Almenningur hefur orðið fyrir sterkum áhrifum af skáldsögunni Jaws eða Ókindin frá árinu 1970 sem síðan var gerð vinsæl kvikmynd eftir. Hvítháfurinn varð táknmynd hins illa á einni nóttu og „herskarar veiðimanna kepptust um hver yrði fyrstur að setja uppstoppaðan hvítháfshaus eða skolt fyrir ofan arininn hjá sér,“ segir bókin Great White Shark. Með tímanum var hægt að fá allt að 50.000 krónur fyrir innrammaða tönn og yfir 1.000.000 fyrir heilan tanngarð.
Langflestir hvítháfar drepast þó í netum fiskimanna. Þar að auki eru milljónir háfiska veiddar árlega til að anna ört vaxandi eftirspurn eftir háfiskaafurðum, einkum uggum. Á undanförnum árum hefur minnkandi afli valdið mönnum áhyggjum víða um heim, einkum vegna hvítháfsins.
Aukinn skilningur
Háfiskar eru þekktir fyrir að vera á höttunum eftir sjúkum, deyjandi, örvasa eða dauðum sjávardýrum. Þegar háfiskastofnarnir dafna vel eru höfin hrein.
Nefnd um verndun dýrategunda á vegum Alþjóðanáttúruverndarsambandsins hefur skipað nefnd háfiskasérfræðinga til að rannsaka hversu alvarlegt þetta vandamál er orðið. En það er ekki auðvelt að rannsaka hvítháfinn því að hann er ekki sérlega frjósamur og drepst í sædýrasöfnum. Þess vegna verður að rannsaka hann í náttúrlegu umhverfi sínu.
Aukin þekking manna á háfiskum hefur breytt viðhorfinu gagnvart þessum heillandi skepnum, en það breytir ekki hvítháfinum. Enda þótt hann sé enginn erkióvinur er hann engu að síður hættuleg skepna og því ber að umgangast hann með varúð og mikilli virðingu.
[Neðanmáls]
^ Hvítháfurinn er stundum kallaður hvíthákarl eða hvíti hákarlinn.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Þessir háfiskar eru með stóran og ógnvekjandi skolt.
[Mynd credit lines á blaðsíðu 24]
Myndir: Rodney Fox Reflections
South African White Shark Research Institute