Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af glæpabraut á vonarbraut

Af glæpabraut á vonarbraut

Af glæpabraut á vonarbraut

Frásaga Costa Koullapis

ÉG STARÐI Á ÓHREINA VEGGI FANGELSISKLEFANS OG VAR STAÐRÁÐINN Í AÐ FINNA LEIÐ TIL AÐ KOMAST YFIR HÁA FJÁRFÚLGU SVO AÐ ÉG KÆMIST ÚT ÚR ÞEIM GLÆPAHRING, SEM ÉG VAR KOMINN Í, OG GÆTI HAFIÐ NÝTT LÍF.

ÉG SAT þarna — vansæll og niðurdreginn — og minntist þess að á síðastliðnu ári höfðu 11 vinir mínir dáið. Einn var hengdur fyrir morð, annar framdi sjálfsmorð á meðan hann beið réttarhalda vegna morðs, þrír tóku of stóra skammta af eiturlyfjum, tveir voru barðir til bana í götubardögum og fjórir létu lífið í bílslysum. Nokkrir aðrir vinir mínir voru í ýmsum fangelsum að afplána dóma fyrir alvarlega glæpi.

Í drunga fangelsisklefans bað ég í örvæntingu til Guðs, hver sem hann væri, að hann sýndi mér leið út úr þessum glæpaheimi. Ég fékk ekki svar við bæninni fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Í millitíðinni tókst mér að komast hjá alvarlegri ákæru fyrir líkamsárás í þeim ásetningi að valda alvarlegum líkamsáverka. Sáttaumleitan reyndist vel og ég var látinn sleppa með minni ákæru og styttri dóm. En ég ætla fyrst að úrskýra hvernig ég komst í þessi vandræði.

Ég fæddist í Pretoríu í Suður-Afríku árið 1944 og ólst þar upp. Bernskuárin voru dapurleg og fjölskyldulífið oft ömurlegt vegna þess að pabbi var ofbeldishneigður og tíðir drykkjutúrarnir gerðu það enn verra. Hann var líka mikill spilafíkill og skapsveiflur hans enduðu oft með alvarlegum misþyrmingum og svívirðingum gagnvart okkur öllum en sérstakleg móður minni. Til að forðast þessi sífelldu slagsmál leitaði ég skjóls á götum úti.

Glæpabrautin

Þetta leiddi til þess að ég varð mjög snemma veraldarvanur. Ég var til dæmis átta ára þegar ég dró lærdóm af tvennu. Hið fyrra var þegar ég var gripinn með leikföng sem ég hafði stolið á heimili nágrannans. Pabbi barði mig harkalega. Ég heyri enn þá fyrir mér reiðilega hótun hans: „Ef ég sé þig nokkurn tíma aftur með stolið dót mun ég ganga frá þér!“ Ég var ekkert endilega ákveðinn í að hætta að stela heldur að láta aldrei góma mig aftur. ‚Næst ætla ég að fela það og læt ekki komast upp um mig,‘ hugsaði ég með mér.

Hið síðara, sem ég dró lærdóm af ungur að árum, var af öðrum toga. Í biblíusögutíma í skólanum sagði kennarinn okkur frá einkanafni Guðs. „Nafn Guðs er Jehóva,“ sagði hún okkur til undrunar, „og hann mun heyra hverja bæn ykkar svo framarlega sem þið biðjið í nafni sonar hans, Jesú.“ Þetta hafði mikil áhrif á uppvaxandi huga minn þó að það kæmi ekki í veg fyrir að ég slæddist út á glæpabrautina. Það má segja að ég hafi verið orðinn sérfræðingur í búðarhnupli og innbrotum um það leyti sem ég fór í framhaldsskóla. Skólafélagarnir bættu mig ekki þar sem margir þeirra voru búnir að vera í betrunarhúsum fyrir alls konar glæpi.

Með árunum varð ég að síbrotamanni. Ég flæktist inn í óteljandi göturán, innbrot, bílaþjófnaði og ofbeldisárásir og það meira að segja innan við tvítugt. Þar sem ég var stöðugt á vappi í kringum billjarðsstaði og bari, að sinna erindum melludólga, vændiskvenna og glæpamanna lauk ég ekki fyrsta ári mínu í iðnnámi.

Ég umgekkst að staðaldri tilfinningalausa glæpamenn sem veigruðu sér ekki við að limlesta hvern þann sem kom upp um þá. Ég lærði að það borgaði sig að steinþegja og gorta hvorki af afrekunum né slá um sig með peningum. Það yrði aðeins til þess að auglýsa að glæpur hefði verið framinn og gat vakið athygli lögreglu og kostað óþægilegar yfirheyrslu. Það sem verra var, það gat leitt til þess að aðrir glæpamenn kæmu í óvæntar heimsóknir og krefðust hluta af ránsfengnum.

Þrátt fyrir þessar varúðarráðstafanir lenti ég af og til undir eftirlit lögreglu vegna grunsemda um að vera viðriðinn ólöglega starfsemi. En ég gætti þess að hafa ekkert undir höndum sem gæti tengt mig við lögbrot eða bendlað mig við glæp. Einu sinni réðst lögreglan skyndilega inn á heimili okkar klukkan þrjú að nóttu til. Þeir grannskoðuðu allt húsið tvisvar sinnum og leituðu að rafmagnstækjum sem stolið hafði verið frá heildsala á staðnum. Þeir fundu ekkert. Farið var með mig á lögreglustöðina og fingraför tekin af mér en ég var ekki ákærður.

Út í eiturlyfin

Ég var farinn að neyta fíkniefna að staðaldri þegar ég var 12 ára. Heilsu minni fór að hraka vegna neyslunnar og í nokkur skipti tók ég næstum of stóra skammta. Það leið ekki á löngu þar til mér var komið í kynni við lækni sem hafði sterk sambönd við undirheimana. Þetta leiddi til þess að ég fór að selja fíkniefni og komst fljótt að því að það hafði miklu minni áhættu í för með sér að sjá nokkrum dreifinagaraðilum fyrir birgðum þar sem ég gat haldið mig utan sjónmáls en aðrir tóku áhættuna.

Því miður tóku sumir, sem ég útvegaði fíkniefni, of stóra skammta og létu lífið eða frömdu alvarlega glæpi undir áhrifum eiturlyfja. Einn „vinur“ myrti þekktan lækni. Fréttafyrirsagnir um þetta birtust um allt landið. Hann reyndi að bendla mig við glæpinn en ég hafði ekki einu sinni heyrt um atburðinn fyrr en lögreglan var mætt á tröppunum hjá mér. Reyndar kom lögreglan oft og spurði mig út úr um ýmsa glæpi sem framdir höfðu verið.

Einn daginn kom samt að því að ég hagaði mér mjög óviturlega. Í heila viku hafði ég neytt fíkniefna og drukkið og réðst svo á tvo menn í bræði vegna misskilnings og særði þá illa. Næsta morgun bentu þeir á mig sem árásarmanninn og ég var tekinn fastur, sakaður um líkamsárás í þeim ásetningi að valda alvarlegum líkamsmeiðingum. Þannig lenti ég í fangelsi.

Verða ríkur, síðan löghlýðinn

Þegar ég losnaði úr fangelsinu heyrði ég um lausa stöðu við birgðastjórnun hjá lyfjafyrirtæki. Ég sótti um og sannfærði vinnuveitandann um að ég væri rétti maðurinn í starfið. Með meðmæli upp á vasann frá vini, sem vann þegar hjá fyrirtækinu fékk ég starfið. Mér fannst þetta vera leiðin til að græða mikla peninga og halda síðan eitthvað annað til að hefja nýtt líf. Svo að ég lagði mig fram um að læra eins fljótt og mögulegt var allar hliðar viðskiptanna og var lengi fram eftir á hverju kvöldi til að læra nöfnin á lyfjunum. Ég var viss um að þetta væri leiðin til betra lífs.

Ætlunin var að bíða eftir tækifæri og ávinna mér traust vinnuveitandans. Síðan ætlaði ég við hentugt tækifæri að brjótast inn og stela heilmiklu af sérstökum lyfjum sem ég vissi að voru mjög verðmæt á svartamarkaðnum, selja þau og verða tiltölulega ríkur á einni nóttu. Ég taldi mig hafa hugsað upp pottþétta fjarvistarsönnun til að tryggja frelsi mitt og nýtt líf.

Tíminn kom til að láta til skarar skríða. Kvöld eitt fór ég varlega inn í vörugeymsluna og horfði á hillurnar fullar af lyfjum sem voru milljóna króna virði. Þarna sá ég tækifærið til að byrja nýtt líf laus við glæpi og ofbeldi. En í fyrsta sinn á ævinni tók samviskan að trufla mig. Hvað olli þessu snögga samviskubiti þar sem ég hafði næstum gleymt að ég hefði yfirleitt nokkra samvisku? Það skal ég segja ykkur.

Nokkrum vikum áður hafði ég spjallað við framkvæmdastjórann og rætt um hvaða þýðingu lífið hefði. Sem svar við einhverju, sem hann sagði, svaraði ég að maður gæti beðið þegar ekki væri annarra kosta völ. „Hvern?“ spurði hann. „Guð,“ svaraði ég. „En það eru svo margir guðir sem fólk snýr sér til í bæn,“ sagði hann, „svo hvern myndir þú biðja?“ Ég sagði: „Guð almáttugan.“ „Ó,“ sagði hann og hélt áfram, „og hvað heitir hann?“ „Hvað áttu við?“ spurði ég. „Nú, eins og þú og ég og allir aðrir hefur Guð almáttugur persónulegt nafn,“ var svarið. Þetta hljómaði rökrétt en ég var orðinn leiður svo að ég spurði ergilega: „Nú, hvert er þá nafn Guðs?“ „Nafn Guðs almáttugs er Jehóva! “ svaraði hann.

Skyndilega var sem hula væri dregin frá og atburðir liðinna ára komu upp í hugann; minningin um kennslustund þegar ég var aðeins átta ára gamall kom upp á yfirborðið. Mér til undrunar höfðu samræðurnar við framkvæmdastjórann mikil áhrif á mig. Við ræddum saman á alvarlegum nótum klukkustundum saman. Næsta dag færði hann mér bókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. * Ég las alla bókina um nóttina og sannfærðist þegar í stað um að ég hafði fundið sannleikann og raunverulega þýðingu lífsins. Við gerðum lítið annað næstu tvær vikurnar en að ræða um mismunandi efni þessarar undraverðu bláu bókar.

Þar sem ég sat í dimmri og hljóðri vörugeymslunni sagði samviskan mér að áform mín um að stela lyfjunum væru röng. Ég fór hljóðlega burt og hélt heim á leið, ákveðinn í að frá þeirri stundu skyldi ég aldrei stela framar.

Gerbreyting

Næstu daga sagði ég fjölskyldunni að ég hefði ákveðið að þræða nýjan lífsveg og benti þeim á ýmis biblíusannindi sem ég hafði kynnst. Pabbi ætlaði að kasta mér á dyr. En John, bróðir minn, kom mér til varnar og sagði við pabba: „Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem Costa ætlar að gera eitthvað sem er ekki glæpsamlegt og þú vilt reka hann út? Ég ætla að kynna mér þetta frekar.“ Það kom mér skemmtilega á óvart að John bað mig um að fræða sig um Biblíuna. Frá þeirri stundu fengu allir, sem komu til mín til að fá eiturlyf, Sannleiksbókina í staðinn! Innan tíðar var ég farinn að stjórna 11 biblíunámskeiðum með hjálp bókarinnar.

Þá komst ég að því að framkvæmdastjóri fyrirtækisins var ekki vottur. Eiginkona hans hafði verið vottur í 18 ár en hann hafði „aldrei haft tíma fyrir sannleikann.“ Hann kom því um kring að ég fékk reyndan vott til að fræða mig skipulega um Biblíuna. Með náminu opnuðust brátt augu mín fyrir því að ég þyrfti að breyta ýmsu fleiru í lífi mínu og það leið ekki á löngu þar til sannleikurinn losaði mig við veraldlegu lífshættina. — Jóhannes 8:32.

Hlutirnir höfðu gengið svo hratt fyrir sig á þessum fáu vikum að mér féllust skyndilega hendur. Ég stóð frammi fyrir meiri háttar breytingum og það fór að renna upp fyrir mér að mikil barátta milli holdsins og andans biði mín héldi ég áfram að fylgja þeim leiðbeiningum sem mér var bent á í biblíunáminu. Hins vegar var mér ljóst að líklega lægi fyrir mér dauði eða að minnsta kosti langur fangelsisdómur ef ég héldi áfram á þeim vegi sem ég hafði verið á fram að þessu. Eftir mikil heilabrot og innilegar bænir ákvað ég að ganga veg sannleikans. Ég lét opinberlega í ljós vígslu mína til Jehóva Guðs með niðurdýfingarskírn sex mánuðum síðar, 4. apríl 1971.

Umbun fyrir löghlýðni

Tilfinningarnar buga mig stundum þegar ég lít um öxl og hugsa um þá blessun sem ég hef notið frá því ég ákvað að hverfa af glæpabrautinni. Fimm af þeim 11 sem hófu biblíunám hjá mér á þessum róstusömu fyrstu vikum, eru enn þá á vegi sannleikans. Mamma fór einnig að nema Biblíuna og varð skírður vottur og þjónaði Guði trúfastlega þar til hún lést árið 1991. Tveir yngri bræður mínir vígðu líf sitt Jehóva og þjóna nú sem öldungar. Ég gat einnig hjálpað móðursystur minni að tileinka sér sannleikann og hún hefur verið boðberi í fullu starfi síðastliðin 15 ár.

Framkvæmdastjóri lyfjafyrirtækisins, sem ég vann fyrir, varð svo hrifinn af þeim breytingum sem orðið höfðu á lífi mínu að hann fór að taka sannleika Biblíunnar alvarlegri tökum. Ári eftir að ég skírðist lét hann líka skírast sem tákn um vígslu sína til Guðs. Hann þjónaði síðar sem öldungur í mörg ár í einum af söfnuðunum votta Jehóva í Pretoríu.

Nú er ég kvæntur trúfastri, kristinni systur. Við Leonie fluttum til Ástralíu árið 1978. Þar fæddust synir okkar tveir, þeir Elija og Paul. Uppörvun fjölskyldunnar hefur veitt mér mikinn styrk. Ég hef haft þau sérréttindi að þjóna sem öldungur í Canberra, höfuðborg Ástralíu. Á hverjum degi færi ég Guði þakkir fyrir að bjarga mér frá tilgangslausri glæpatilveru sem stefndi í eymd og dauða. Þar að auki veitti hann lífi mínu tilgang með því að gefa mér og ástvinum mínum von.

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Tólf ára gamall.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Með eiginkonu minni og tveim sonum.