Að takast á við skyndilegan heilsubrest
Hefur heilsan versnað óvænt? Þá veistu hversu lýjandi veikindi geta verið – andlega, tilfinningalega og fjárhagslega. Hvað getur hjálpað þér að takast á við veikindin? Hvernig geturðu hjálpað ættingja eða vini sem glímir við veikindi? Þótt Biblían sé ekki læknisfræðirit má finna í henni hagnýtar meginreglur sem geta hjálpað þér að takast á við erfiðar aðstæður.
Ráð sem hjálpa þér að takast á við heilsuvandamál
Leitaðu læknishjálpar
Hvað segir Biblían? „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.“ – Matteus 9:12.
Heimfærsla: Leitaðu þér læknishjálpar þegar þörf er á.
Prófaðu þetta: Nýttu þér bestu læknisþjónustu sem er í boði. Stundum er skynsamlegt að fá álit annars fagaðila. (Orðskviðirnir 14:15) Gakktu úr skugga um að þú skiljir heilbrigðisstarfsfólkið og veittu því nákvæmar upplýsingar um einkennin sem þú hefur. (Orðskviðirnir 15:22) Aflaðu þér upplýsinga um veikindi þín, þar á meðal um þá valmöguleika á meðferð sem er í boði. Þegar þú áttar þig á hverju þú getur átt von á ertu betur í stakk búinn til að takast á við aðstæðurnar tilfinningalega og taka góðar ákvarðanir varðandi meðferð.
Hafðu heilsusamlegar venjur
Hvað segir Biblían? „Líkamleg æfing er góð fyrir líkamann.“ – 1. Tímóteusarbréf 4:8, Contemporary English Version.
Heimfærsla: Það er gott fyrir þig að hafa heilsusamlegar venjur, eins og að gera æfingar reglulega.
Prófaðu þetta: Hreyfðu þig reglulega, borðaðu hollan mat og fáðu nægan svefn. Þótt þú sért að venjast nýjum aðstæðum vegna heilsuvandamáls eru sérfræðingar sammála um að það sé þess virði að nota tíma og orku í heilsusamlegar venjur. Hvað sem þú gerir þarf það að sjálfsögðu að vera í samræmi við heilsufar þitt og má ekki vinna á móti læknismeðferðinni.
Leitaðu stuðnings annarra
Hvað segir Biblían? „Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskviðirnir 17:17.
Heimfærsla: Vinir þínir geta hjálpað þér að komast gegnum erfið tímabil.
Prófaðu þetta: Talaðu við traustan vin sem þú átt auðvelt með að tala við. Það getur hjálpað þér að takast á við tilfinningalegt og andlegt álag sem fylgir veikindunum. Vinir og fjölskyldan vilja líklega hjálpa þér á öðrum sviðum en vita kannski ekki hvað þau geta gert. Segðu þeim þess vegna hvað þú vilt að þau geri fyrir þig. Hafðu raunhæfar væntingar og vertu alltaf þakklátur fyrir þá hjálp sem þau veita. En mundu að þú þarft kannski að setja mörk eins og um það hversu oft vinir heimsækja þig og hversu lengi svo að það verði ekki of mikið.
Haltu áfram að vera jákvæður
Hvað segir Biblían? „Glatt hjarta er gott meðal en depurð dregur úr manni allan þrótt.“ – Orðskviðirnir 17:22.
Heimfærsla: Jákvæðni og bjartsýni getur hjálpað þér að vera í jafnvægi tilfinningalega og að takast á við álagið sem fylgir veikindunum.
Prófaðu þetta: Þegar þú lagar þig að nýjum aðstæðum skaltu einbeita þér að því sem þú getur en ekki því sem þú hefur enga stjórn á. Forðastu að bera þig saman við aðra eða við það hvernig þú varst áður en þú veiktist. (Galatabréfið 6:4) Settu þér sanngjörn og raunhæf markmið. Það getur hjálpað þér að vera bjartsýnn á framtíðina. (Orðskviðirnir 24:10) Gerðu öðrum gott miðað við það sem aðstæður þínar leyfa. Ánægjan sem það veitir að gefa af sér hjálpar þér í baráttunni við neikvæðar hugsanir. – Postulasagan 20:35.
Hjálpar Guð þér að glíma við heilsuvandamál?
Í Biblíunni kemur fram að Jehóva Guð a getur hjálpað manni að takast á við heilsuvandamál. Þótt við búumst ekki við því að þeir sem tilbiðja Guð fái lækningu fyrir kraftaverk getum við notið hjálpar hans þegar hann gefur okkur eftirfarandi:
Frið. Jehóva getur gefið ,frið sem er æðri öllum skilningi‘. (Filippíbréfið 4:6, 7) Þessir friður, eða innri ró, getur hjálpað manni að bægja frá sér yfirþyrmandi kvíða. Guð gefur þeim slíkan frið sem biðja til hans og tjá honum áhyggjur sínar. – 1. Pétursbréf 5:7.
Visku. Jehóva getur gefið okkur visku svo við getum tekið skynsamlegar ákvarðanir. (Jakobsbréfið 1:5) Maður aflar sér slíkrar visku þegar maður lærir og heimfærir sígildar meginreglur sem er að finna í Biblíunni.
Uppörvandi von um framtíðina. Jehóva lofar framtíð þar sem „enginn í landinu mun segja: ‚Ég er veikur.‘“ (Jesaja 33:24) Þessi von hjálpar mörgum að vera jákvæðir þrátt fyrir mjög alvarleg veikindi. – Jeremía 29:11, 12.
a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt Biblíunni. – Sálmur 83:18.