HALTU VÖKU ÞINNI
Stjórnmálamenn vara við Harmagedón – hvað segir Biblían?
Um morguninn 10. október 2022 hæfðu rússnesk flugskeyti borgir á ýmsum stöðum í Úkraínu. Það var hefndaraðgerð eftir mikla sprengingu sem skemmdi brúna milli Krímskaga og Rússlands tveim dögum áður. Þessir atburðir gerðust stuttu eftir að sumir stjórnmálamenn sögðu að við gætum fljótlega staðið andspænis Harmagedón.
„Við höfum ekki verið svona nálægt Harmagedón síðan á tíma Kennedy [Johns F. Kennedys forseta Bandaríkjanna] og deilunnar um eldflaugar á Kúbu … Ég tel að það sé ekki hægt með góðu móti að [nota] skammdræg kjarnorkuvopn án þess að Harmagedón brjótist út í kjölfarið.“ – Joe Biden bandaríkjaforseti, 6. október 2022.
„Ég tek undir að Harmagedón geti verið á næsta leiti. Þessi hætta ógnar öllum heiminum.“ – Volodymyr Zelenskyj þegar hann var spurður um afleiðingarnar af því að nota kjarnorkuvopn. BBC News, 8. október 2022.
Gæti notkun kjarnorkuvopna hrundið Harmagedón af stað? Hvað segir Biblían?
Munu kjarnorkuvopn koma Harmagedón af stað?
Nei. Orðið „Harmagedón“ er að finna í Biblíunni á aðeins einum stað, í Opinberunarbókinni 16:16. Harmagedón er ekki stríð á milli þjóða heldur á milli Guðs og „konunga allrar heimsbyggðarinnar“. (Opinberunarbókin 16:14) Í Harmagedónstríðinu bindur Guð enda á mannlegar stjórnir. – Daníel 2:44.
Þú getur lesið meira um hvaða þýðingu Harmagedón hefur fyrir jörðina í greininni Hvað er stríðið við Harmagedón?
Verður jörðin lögð í eyði og íbúum hennar tortímt í kjarnorkustyrjöld?
Nei. Mennskir valdhafar gætu notað kjarnorkuvopn en Guð leyfir ekki að jörðin verði lögð í eyði. Biblían segir:
„Jörðin stendur að eilífu.“ – Prédikarinn 1:4.
„Hinir réttlátu munu erfa jörðina og búa á henni að eilífu.“ – Sálmur 37:29.
En spádómar Biblíunnar og atburðir sem eiga sér stað núna sýna að við nálgumst tímamót í mannskynssögunni. (Matteus 24:3–7; 2. Tímóteusarbréf 3:1–5) Þú getur lært meira um það sem Biblían segir um framtíðina með því að þiggja ókeypis biblíunámskeið.