Postulasagan 28:1–31

  • Í land á Möltu (1–6)

  • Faðir Públíusar læknast (7–10)

  • Áfram til Rómar (11–16)

  • Páll talar við Gyðinga í Róm (17–29)

  • Páll boðar trúna djarfmannlega í tvö ár (30, 31)

28  Eftir að við vorum komnir heilu og höldnu í land komumst við að raun um að eyjan hét Malta.+  Heimamenn, sem töluðu erlent mál, sýndu okkur einstaka góðvild.* Þeir kveiktu eld og hlúðu vel að okkur öllum því að það rigndi og kalt var í veðri.  En þegar Páll tíndi saman sprek í knippi og lagði á eldinn skreið út höggormur undan hitanum og beit sig fastan í hönd hans.  Þegar heimamenn komu auga á eiturslönguna hanga á hendi hans sögðu þeir hver við annan: „Þessi maður hlýtur að vera morðingi. Hann bjargaðist úr sjónum en Réttvísin* leyfði honum samt ekki að lifa.“  En hann hristi slönguna af sér í eldinn og varð ekki meint af.  Þeir bjuggust við að hann bólgnaði upp eða dytti skyndilega niður dauður. Eftir að hafa beðið dágóða stund og séð að honum varð ekki meint af skiptu þeir um skoðun og sögðu að hann væri guð.  Skammt frá voru jarðir í eigu æðsta manns eyjunnar en hann hét Públíus. Hann bauð okkur velkomna og við vorum hjá honum í góðu yfirlæti í þrjá daga.  Svo vildi til að faðir Públíusar var rúmliggjandi með hita og blóðkreppusótt. Páll fór inn til hans og baðst fyrir, lagði hendur yfir hann og læknaði hann.+  Eftir þetta fóru allir aðrir á eyjunni sem voru veikir að koma til hans og læknast.+ 10  Þeir gáfu okkur margar gjafir í þakklætisskyni og áður en við sigldum þaðan færðu þeir okkur allt sem við þurftum til fararinnar. 11  Þrem mánuðum síðar lögðum við úr höfn á skipi sem bar merki sona Seifs. Skipið var frá Alexandríu og hafði legið við eyjuna um veturinn. 12  Við komum í höfn í Sýrakúsu og vorum þar í þrjá daga. 13  Þaðan sigldum við áfram til Regíum. Daginn eftir fengum við sunnanvind og náðum til Púteólí á öðrum degi. 14  Þar fundum við bræður og þeir hvöttu okkur til að staldra við í viku. Síðan héldum við áleiðis til Rómar. 15  Bræður og systur þar fréttu af okkur og komu á móti okkur alla leið til Appíusartorgs og Þríbúða. Þegar Páll sá þau þakkaði hann Guði og fékk nýjan kraft.+ 16  Að lokum komum við til Rómar og Páli var þá leyft að búa út af fyrir sig ásamt hermanninum sem gætti hans. 17  Að þrem dögum liðnum kallaði hann forystumenn Gyðinga á sinn fund. Þegar þeir voru samankomnir sagði hann við þá: „Menn, bræður, þó að ég hafi ekkert brotið gegn þjóð okkar eða siðum forfeðranna+ var ég tekinn til fanga í Jerúsalem og framseldur Rómverjum.+ 18  Eftir að hafa yfirheyrt mig+ vildu þeir láta mig lausan þar sem engin forsenda var fyrir því að taka mig af lífi.+ 19  En þegar Gyðingar andmæltu því neyddist ég til að skjóta máli mínu til keisarans.+ Það var þó ekki af því að ég vildi ákæra þjóð mína. 20  Ég ber þessa hlekki vegna vonar Ísraels og það er þess vegna sem ég bað um að fá að hitta ykkur og tala við ykkur.“+ 21  Þeir svöruðu: „Við höfum hvorki fengið bréf um þig frá Júdeu né hefur nokkur bræðranna sem hafa komið þaðan tilkynnt né sagt nokkuð slæmt um þig. 22  En okkur finnst rétt að heyra frá þér hverjar skoðanir þínar eru því að við vitum vel að þessum sértrúarflokki+ er alls staðar mótmælt.“+ 23  Þeir ákváðu nú dag þegar þeir skyldu hitta hann og þá komu enn fleiri til hans þar sem hann bjó. Hann útskýrði málið fyrir þeim og vitnaði ítarlega um ríki Guðs frá morgni allt til kvölds. Hann notaði bæði lög Móse+ og spámennina+ til að reyna að sannfæra þá um að þeir ættu að trúa á Jesú.+ 24  Sumir trúðu því sem hann sagði en aðrir ekki. 25  Þar sem þeir voru ósammála sín á milli fóru þeir að tínast burt en Páll sagði þetta eitt: „Heilagur andi sagði forfeðrum ykkar réttilega fyrir milligöngu Jesaja spámanns: 26  ‚Farðu til þessa fólks og segðu: „Þið munuð vissulega heyra en alls ekki skilja og horfa en alls ekki sjá.+ 27  Hjörtu þessa fólks eru orðin ónæm. Það heyrir með eyrunum án þess að bregðast við því og það hefur lokað augunum. Þess vegna sér það ekki með augunum og heyrir ekki með eyrunum né skilur með hjartanu svo að það snúi við og ég lækni það.“‘+ 28  Þið skuluð því vita að þessi leið Guðs til björgunar hefur verið boðuð þjóðunum+ og þær munu hlusta.“+ 29 * —— 30  Hann dvaldist þar í heil tvö ár í húsi sem hann leigði+ og tók vel á móti öllum sem komu til hans. 31  Hann boðaði þeim ríki Guðs og fræddi þá djarfmannlega um Drottin Jesú Krist+ án nokkurrar hindrunar.

Neðanmáls

Eða „mannúð“.
Á grísku Díke. Hugsanlega er átt við gyðju hefndar og réttvísi eða réttvísina sem hugtak.