7. KAFLI
Ertu stundum einmana og hræddur?
Sjáðu litla strákinn á myndinni. Hann virðist vera einmana og hræddur. Hefur þú einhvern tíma verið einmana og hræddur? – Það eru það allir einhvern tíma. Í Biblíunni er hægt að lesa um vini Jehóva sem voru stundum einmana og hræddir. Einn þeirra var Elía. Við skulum lesa um hann.
Elía bjó í Ísrael fyrir langalöngu, mörgum öldum áður en Jesús fæddist. Akab, konungur Ísraels, tilbað ekki hinn sanna Guð, Jehóva. Akab og Jesebel, konan hans, tilbáðu Baal sem var falsguð. Flestir í Ísrael byrjuðu þá líka að tilbiðja Baal. Jesebel drottning var mjög vond kona og vildi drepa alla sem tilbáðu Jehóva. Hún vildi því líka drepa Elía! Veistu hvað Elía gerði þá? –
Elía lagði á flótta. Hann fór langt inn í eyðimörkina og faldi sig í helli. Af hverju gerði hann það? – Hann var svo
hræddur. En Elía þurfti samt ekki að vera hræddur. Af hverju ekki? Af því að hann vissi að Jehóva gæti hjálpað sér. Elía hafði áður fengið að sjá mátt Jehóva. Jehóva hafði einu sinni svarað bæn hans með því að láta eld koma af himni. Auðvitað gæti Jehóva líka hjálpað Elía í þetta skipti.Á meðan Elía var í hellinum talaði Jehóva við hann og spurði: ,Hvað ertu að gera hér?‘ Elía svaraði: ,Ég er sá eini sem tilbið þig. Ég er aleinn og ég er hræddur um að verða drepinn.‘ Elía hélt að það væri búið að drepa alla hina sem tilbáðu Jehóva. En Jehóva sagði við hann: ,Það er ekki rétt. Það eru enn þá 7.000 manns sem tilbiðja mig. Vertu hugrakkur. Ég hef enn verk handa þér að vinna.‘ Heldurðu að Elía hafi ekki verið glaður að heyra það? –
Hvað geturðu lært af frásögunni af Elía? – Í rauninni þarftu aldrei að vera einmana og hræddur. Þú átt vini sem elska Jehóva og þeir elska þig líka. Þar að auki er Jehóva sterkur og máttugur og hann mun alltaf hjálpa þér. Finnst þér ekki gott að vita að þú ert í rauninni aldrei einn því að Jehóva er alltaf með þér? –