KAFLI 113
Páll í Róm
SJÁÐU hlekkina á Páli og líttu á rómverska hermanninn sem gætir hans. Páll er fangi í Róm. Hann bíður þess að rómverski keisarinn ákveði hvað gera skuli við hann. Honum er leyft að fá til sín gesti á meðan hann er í fangelsinu.
Þrem dögum eftir að Páll kemur til Rómar stefnir hann nokkrum leiðtogum Gyðinga á sinn fund. Margir Gyðingar í Róm koma. Páll prédikar fyrir þeim um Jesú og Guðsríki. Nokkrir trúa og gerast kristnir en aðrir ekki.
Páll prédikar einnig fyrir hinum ýmsu hermönnum sem falið er að gæta hans. Í þau tvö ár, sem Páli er haldið hér föngnum, prédikar hann fyrir öllum sem hann getur. Árangurinn verður sá að jafnvel heimilismenn keisarans heyra fagnaðarboðskapinn um Guðsríki og sumir þeirra gerast kristnir.
En hver er þessi gestur sem situr þarna og skrifar? Geturðu giskað á það? Já, það er Tímóteus. Tímóteus hefur einnig verið í fangelsi fyrir að prédika Guðsríki en nú er hann frjáls aftur. Og hann er kominn hingað til að hjálpa Páli. Hvað heldur þú að Tímóteus sé að skrifa? Við skulum nú sjá.
Manstu eftir borgunum Filippí og Efesus í 110. sögunni? Páll hjálpaði til að stofna kristna söfnuði þar. Núna, í fangelsinu, skrifar Páll bréf til kristinna manna í þessum borgum. Bréfin eru í Biblíunni og eru nefnd Efesusbréfið og Filippíbréfið. Páll er núna að segja Tímóteusi hvað hann eigi að skrifa til kristinna vina þeirra í Filippí.
Filippímenn hafa verið mjög góðir við Pál. Þeir hafa sent honum gjöf í fangelsið og Páll er nú að þakka þeim fyrir. Maðurinn, sem kom með gjöfina, heitir Epafrodítus. En svo veiktist hann alvarlega og var næstum dáinn. Nú er honum batnað og hann er tilbúinn að fara heim. Hann mun taka með sér þetta bréf frá Páli og Tímóteusi þegar hann fer heim til Filippí.
Meðan Páll er fangi í Róm skrifar hann tvö önnur bréf sem við höfum í Biblíunni. Annað þeirra er til kristinna manna í borginni Kólossu. Veistu hvað það heitir? Kólossubréfið. Hitt er einkabréf til náins vinar sem heitir Fílemon og býr einnig í Kólossu. Bréfið fjallar um Onesímus sem er þjónn Fílemons.
Onesímus strauk frá Fílemon og kom til Rómar. Á einhvern hátt frétti Onesímus að Páll væri í fangelsi í borginni. Hann kom í heimsókn og Páll prédikaði fyrir honum. Fljótlega varð Onesímus einnig kristinn. Nú sér hann eftir því að hafa strokið. Hvað heldurðu að Páll skrifi í bréfi sínu til Fílemons?
Páll biður Fílemon að fyrirgefa Onesímusi. ‚Ég sendi hann til þín aftur,‘ skrifar Páll. ‚En núna er hann ekki aðeins þjónn þinn. Hann er einnig góður kristinn bróðir.‘ Þegar Onesímus fer aftur til Kólossu er hann með þessi tvö bréf, annað til Kólossumanna og hitt til Fílemons. Við getum rétt ímyndað okkur hve glaður Fílemon verður þegar hann fréttir að þjónn hans sé orðinn kristinn.
Páll hefur mjög góðar fréttir að færa Filippímönnum og Fílemon í bréfum sínum til þeirra. ‚Ég sendi Tímóteus til ykkar,‘ skrifar hann Filippímönnum. ‚En ég mun einnig heimsækja ykkur bráðlega.‘ Og til Fílemons skrifar hann: ‚Hafðu tilbúið gestaherbergi handa mér.‘
Þegar Páll fær frelsi fer hann víða og heimsækir kristna bræður og systur. En síðar verður Páll aftur fangi í Róm. Í þetta sinn veit hann að hann verður líflátinn. Hann skrifar því Tímóteusi og biður hann að koma skjótt. ‚Ég hef verið Guði trúfastur,‘ skrifar Páll, ‚og Guð mun launa mér.‘ Fáeinum árum eftir líflát Páls er Jerúsalem aftur lögð í eyði, í þetta skipti af Rómverjum.
En það er meira í Biblíunni. Jehóva Guð lætur Jóhannes postula skrifa síðustu bækur hennar, þar á meðal Opinberunarbókina. Í þeirri bók Biblíunnar eru skráðar sýnir eða opinberanir um framtíðina. Við skulum nú sjá hvað gerast mun.