Hoppa beint í efnið

Biblían breytir lífi fólks

Biblían breytir lífi fólks

HVERNIG fann ung kona sem hafði engan áhuga á Guði og var í virtu og góðu starfi tilgang í lífinu? Hvað lærði ungur kaþólskur maður um dauðann sem fékk hann til að breyta um stefnu í lífinu? Og hvað fékk ungan mann sem var óhamingjusamur til að læra um Guð og verða þjónn hans? Lesum frásögur þeirra.

„Í mörg ár velti ég fyrir mér hvers vegna við erum hérna.“ ROSALIND JOHN

  • FÆÐINGARÁR: 1963

  • FÖÐURLAND: BRETLAND

  • FORSAGA: VAR Í VIRTU OG GÓÐU STARFI

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í Croydon í suðurhluta Lundúna og er sjötta barnið af níu. Foreldrar mínir voru upphaflega frá Sankti Vinsent, eyju í Karíbahafinu. Mamma sótti messur í meþódistakirkjuna. Ég hafði engan áhuga á því að læra um Guð, en samt þyrsti mig í að læra. Ég eyddi mörgum skólafríum við vatn í nágrenninu og las ótal bækur sem ég fékk að láni úr bókasafninu.

Nokkrum árum eftir að ég lauk skóla langaði mig að hjálpa fólki sem átti erfitt uppdráttar. Ég fór að vinna við að hjálpa heimilislausum og þeim sem voru líkamlega fatlaðir eða áttu erfitt með að læra. Ég skráði mig í námskeið á háskólastigi í heilbrigðisvísindum. Að prófi loknu fékk ég mörg frábær atvinnutilboð sem gerðu mér kleift að njóta lífsins út í ystu æsar. Þar sem ég starfaði sjálfstætt sem rekstrarráðgjafi og við rannsóknir á félagsvísindum þurfti ég aðeins fartölvuna mína og netaðgang. Ég fór erlendis í nokkrar vikur í einu, gisti á uppáhaldshótelinu mínu, naut umhverfisins og nýtti mér heilsuræktina til að halda mér í formi. Mér fannst ég vera að lifa lífinu. En ég hætti aldrei að hugsa um þá sem eiga erfitt.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Í mörg ár velti ég fyrir mér hvers vegna við erum hér og hver er tilgangurinn í lífinu. En ég reyndi aldrei að leita svara í Biblíunni. Dag einn árið 1999 kom Margaret, yngri systir mín sem var þá orðin vottur Jehóva, í heimsókn til mín með vinkonu sinni sem var líka vottur Jehóva. Vinkonan sýndi mér persónulegan áhuga. Ég þáði biblíunámskeið með hjálp hennar en tók mjög hægum framförum því að vinnan og lífstíllinn tóku allan tíma minn.

Sumarið 2002 flutti ég til suðvesturhluta Englands. Þar hélt ég áfram námi í félagsrannsóknum til að fá doktorsgráðu. Ég byrjaði að sækja reglulega samkomur í ríkissalnum með syni mínum. Þrátt fyrir að ég hafði gagn af menntun minni gagnaðist biblíunámskeiðið mér betur því að ég fékk betri skilning á því hvers vegna það eru erfiðleikar í heiminum og hver lausnin er. Ég skildi betur það sem segir í Matteusi 6:24 um að maður geti ekki þjónað tveimur herrum. Annaðhvort þjónar maður Guði eða auðnum. Ég vissi að ég yrði að forgangsraða.

Árið áður fékk ég oft að vera með í biblíunámshóp þar sem vottar lásu saman bókina Er til skapari sem er annt um okkur? * Ég sannfærðist um að enginn annar en Jehóva skapari okkar sé með lausnina á vandamálum mannkynsins. Í háskólanum var mér hins vegar kennt að tilgangurinn með lífinu hefði ekkert með skapara að gera. Það gerði mig reiða. Ég hætti framhaldsnáminu eftir tvo mánuði og ákvað að einbeita mér meira að því að styrkja samband mitt við Guð.

Orðskviðirnir 3:5, 6 hjálpuðu mér að breyta lífinu en þar segir: „Treystu Jehóva af öllu hjarta og reiddu þig ekki á eigin vitsmuni. Hafðu hann alltaf með í ráðum, þá mun hann greiða götu þína.“ Það gaf mér miklu meiri gleði að læra um kærleiksríkan Guð okkar en nokkuð það sem velmegun og doktorsgráða gátu gefið mér. Þegar ég lærði meira um tilgang Jehóva með jörðina og hvers vegna Jesús fórnaði lífi sínu fyrir okkur fylltist ég enn meiri löngun til að vígja líf mitt Jehóva skapara okkar. Ég skírðist í apríl árið 2003. Eftir það byrjaði ég smátt og smátt að einfalda lífið.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Vináttusamband mitt við Jehóva er ómetanlegt. Það hefur gefið mér innri frið og gleði. Það gefur mér líka ólýsanlega gleði að verja tíma með þeim sem þjóna Guði af öllu hjarta.

Ég fæ þorsta mínum í þekkingu svalað af því sem ég er að læra af Biblíunni og á safnaðarsamkomum. Ég nýt þess að segja öðrum frá trú minni og hef gert það að ævistarfi. Núna kem ég að enn meira gagni því ég get hjálpað fólki að eiga betra líf núna og frábæra von um líf í nýja heiminum. Ég hef þjónað sem boðberi í fullu starfi frá júní 2008 og hef aldrei verið ánægðari og sáttari með lífið. Ég hef fundið tilganginn í lífinu og það er Jehóva að þakka.

„Það hafði djúpstæð áhrif á mig að missa vin minn.“ ROMAN IRNESBERGER

  • FÆÐINGARÁR: 1973

  • FÖÐURLAND: AUSTURRÍKI

  • FORSAGA: FJÁRHÆTTUSPILARI

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í smábænum Braunau í Austurríki. Það var mikil velmegun þar og lítið um glæpi. Fjölskylda mín var kaþólsk og ég ólst upp við þá trú.

Þegar ég var lítill gerðist nokkuð sem hafði mikil áhrif á mig. Árið 1984, þegar ég var um 11 ára gamall, spilaði ég dag einn fótbolta með einum af bestu vinum mínum. Seinna þann sama dag lést hann í bílslysi. Það hafði djúpstæð áhrif á mig að missa vin minn. Í mörg ár eftir slysið velti ég því fyrir mér hvað gerist þegar við deyjum.

Eftir skólagöngu byrjaði ég að vinna sem rafvirki. Ég spilaði reglulega fjárhættuspil og lagði undir stórar upphæðir en var samt ekki í neinum fjárhagskröggum. Ég eyddi miklum tíma í íþróttir og fór að hafa áhuga á þungarokki og pönki. Lífið snerist um að hoppa frá einum skemmtistað til annars, eða úr einu partíi í það næsta. Ég lifði siðlausu lífi sem snerist um að skemmta sér, en ég var ekki hamingjusamur.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Árið 1995 bankaði eldri vottur upp á hjá mér og bauð mér bók sem fjallaði meðal annars um spurninguna: Hvað gerist við dauðann? Það að vinur minn dó svo skyndilega og ungur snerti mig enn, þess vegna þáði ég bókina. Ég las ekki bara kaflann sem fjallaði um dauðann heldur alla bókina.

Það sem ég las svaraði öllum spurningum sem ég hafði um dauðann. En ég lærði miklu meira en það. Trú mín sem kaþólikki einblíndi fyrst og fremst á Jesú. En þegar ég rannsakaði Biblíuna nánar lærði ég að byggja upp náið vináttusamband við föður Jesú, Jehóva Guð. Mér fannst frábært að læra að Jehóva er ekki leyndardómsfullur og lokaður heldur er hann opinn fyrir hverjum þeim sem leita hans. (Matteus 7:7–11) Ég komst að því að Jehóva hefur tilfinningar. Ég lærði líka að hann stendur alltaf við það sem hann segir. Það kveikti áhuga minn á biblíuspádómum og ég fór því að grafast fyrir um hvernig þeir hefðu uppfyllst. Það styrkti traust mitt til Guðs.

Ég komst fljótlega að því að Vottar Jehóva væru þeir einu, að mér vitandi, sem hefðu einlægan áhuga á að hjálpa fólki að skilja það sem Biblían kennir. Ég fletti upp í minni eigin kaþólsku biblíu þeim biblíuversum sem var vísað til í ritum Vottanna. Því meira sem ég lærði þeim mun sannfærðari varð ég um að ég hefði fundið sannleikann.

Ég lærði af námi mínu í Biblíunni að Jehóva ætlaðist til þess að ég lifði eftir meginreglum hans. Samkvæmt því sem kemur fram í Efesusbréfinu 4:22–24 varð mér ljóst að ég þyrfti að „afklæðast hinum gamla manni sem samræmist fyrra líferni … og íklæðast hinum nýja manni sem er skapaður samkvæmt vilja Guðs“. Ég hætti því að lifa siðlausu lífi. Ég komst líka að því að ég þyrfti að hætta að spila fjárhættuspil því þessi ávani ýtir undir efnishyggju og græðgi. (1. Korintubréf 6:9, 10) Ég vissi að ef ég ætlaði að halda áfram að gera breytingar þyrfti ég að hætta að hanga með gömlu vinunum og finna nýja vini sem lifðu eftir sömu meginreglum og ég.

Það var ekki auðvelt að gera þessar breytingar. En ég byrjaði á því að sækja samkomur í ríkissal Votta Jehóva og eignaðist vini í söfnuðinum. Ég hélt líka áfram að lesa og rannsaka Biblíuna sjálfur. Það gerði það að verkum að ég breytti um tónlistarsmekk, fann önnur markmið í lífinu og varð snyrtilegri til fara. Árið 1995 lét ég skírast og varð vottur Jehóva.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Peningar skipta mig ekki eins miklu máli og áður. Áður fyrr var frekar stuttur í mér þráðurinn en núna er ég í meira jafnvægi. Ég kvíði heldur ekki framtíðinni lengur.

Mér finnst frábært að vera hluti af alþjóðlegum hópi fólks sem þjónar Jehóva. Þar á meðal er fólk sem er að berjast við ýmislegt en heldur samt áfram að þjóna honum trúfastlega. Ég er svo ánægður að ég skuli ekki lengur nota allan tíma og orku í að svala eigin löngunum heldur þjóna ég Jehóva og reyni að gera öðrum gott.

„Loksins hef ég fundið tilgang í lífinu.“ IAN KING

  • FÆÐINGARÁR: 1963

  • FÖÐURLAND: ENGLAND

  • FORSAGA: VAR EKKI HAMINGJUSAMUR

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist á Englandi en þegar ég var sjö ára gamall fluttist fjölskylda mín til Ástralíu. Við settumst að á Gullströndinni sem er vinsæll ferðamannastaður í Queensland. Við vorum ekki rík en við höfðum allt sem við þurftum.

Ég átti góða barnæsku en þrátt fyrir það var ég ekki hamingjusamur. Pabbi minn drakk mikið. Við vorum aldrei sérstaklega nánir, aðallega út af drykkjunni og hvernig hann kom fram við mömmu. Það var ekki fyrr en seinna þegar ég frétti um hvað hann hafði upplifað sem hermaður í Malaja að ég skildi hvers vegna hann hegðaði sér á þennan hátt.

Þegar ég var í framhaldsskóla byrjaði ég að drekka mikið. Sextán ára gamall hætti ég í skóla og gekk í sjóherinn. Ég fór að fikta við eiturlyf og byrjaði að reykja. Ég varð líka sífellt háðari áfengi. Ég var ekki bara á fylleríi um hverja helgi heldur var ég farinn að drekka mikið á hverjum degi.

Um tvítugt fór ég að efast um að Guð væri til. Ég hugsaði sem svo: „Ef Guð er til, hvers vegna leyfir hann þá að fólk þjáist og deyi?“ Ég orti jafnvel ljóð sem kenndi Guði um illskuna í heiminum.

Þegar ég var 23 ára gamall hætti ég í sjóhernum. Eftir það vann ég við hitt og þetta og ferðaðist meira að segja erlendis í eitt ár. En ekkert gaf mér von. Ég hafði engan áhuga á að reyna að ná einhverjum stórum markmiðum í lífinu. Ég hafði ekki áhuga á neinu. Mér fannst algerlega tilgangslaust að eignast hús, fá mér fasta vinnu og klífa metorðastigann. Það eina sem gat „huggað“ mig var áfengið og tónlistin.

Ég man eftir því augnabliki þegar ég fann sterkast fyrir lönguninni að finna tilgang með lífinu. Ég var staddur í Póllandi í hinum illræmdu Auschwitz-fangabúðum. Ég hafði lesið mér til um allt það hræðilega sem hafði gerst þar. En síðan þegar ég stóð sjálfur í búðunum og sá hversu gríðarlega stórar þær voru féllust mér alveg hendur. Ég skildi hreinlega ekki hvernig menn geta sýnt þvílíka illsku gagnvart náunganum. Ég man að ég gekk um búðirnar með tárin í augunum og spurði: „Hvers vegna?“

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Árið 1993 þegar ég sneri aftur heim frá útlöndum byrjaði ég að lesa Biblíuna til að leita að svörum. Stuttu eftir það bönkuðu tveir vottar Jehóva upp á hjá mér og buðu mér á mót sem var haldið á íþróttaleikvangi í nágrenninu. Ég ákvað að fara.

Nokkrum mánuðum áður hafði ég farið á fótboltaleik á þessum leikvangi en munurinn á þeim atburði og þessu móti var gríðarlegur. Vottarnir voru allir kurteisir og vel til fara og börnin voru til fyrirmyndar. Og ég varð steinhissa á því sem ég upplifði í hádegishléinu. Mörg hundruð vottar borðuðu hádegismatinn sinn á vellinum. En þegar þeir sneru aftur í sætin sín var ekki snefill af rusli eftir. Þar að auki var eins og allt þetta fólk hefði frið og væri sátt við lífið, en það var nokkuð sem ég þráði. Ég man ekkert eftir ræðunum þennan dag en framkomu vottanna gleymi ég aldrei.

Þetta sama kvöld hugsaði ég til frænda míns sem hafði lesið Biblíuna og þekkti vel hin ýmsu trúarbrögð. Mörgum árum áður hafði hann sagt mér að Jesús hefði sagt að maður gæti þekkt hina sönnu trú af ávöxtum hennar. (Matteus 7:15–20) Mér fannst ég þurfa að kanna málið betur og skoða hvers vegna vottarnir væru svona ólíkir öðrum. Í fyrsta sinn í lífinu fann ég fyrir von og bjartsýni.

Vottarnir sem höfðu boðið mér á mótið heimsóttu mig aftur viku síðar. Þeir buðu mér biblíunámskeið sem ég þáði. Ég byrjaði líka að mæta á safnaðarsamkomur með þeim.

Viðhorf mitt til Guðs breyttist algerlega þegar ég byrjaði að rannsaka Biblíuna. Ég lærði að hann á ekki sök á þjáningum og illsku og að það særi hann djúpt þegar fólk gerir það sem er slæmt. (1. Mósebók 6:6; Sálmur 78:40, 41) Ég varð ákveðinn í að gera mitt besta til að særa Jehóva aldrei. Mig langaði til að gleðja hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Ég hætti að reykja og drekka og að lifa siðlausu lífi. Í mars 1994 skírðist ég síðan og varð vottur Jehóva.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Núna er ég hamingjusamur og sáttur við lífið. Ég nota ekki lengur áfengi til að leysa vandamálin. En ég hef þess í stað lært að varpa byrði minni á Jehóva. – Sálmur 55:22.

Síðustu tíu árin hef ég verið giftur fallegri systur sem heitir Karen og ég á yndislega stjúpdóttur sem heitir Nella. Við njótum þess öll þrjú að verja tíma okkar í boðuninni til að hjálpa öðrum að læra um Guð. Loksins hef ég fundið tilgang í lífinu.

^ Gefin út af Vottum Jehóva.