Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu viðbúinn hindrunum

Vertu viðbúinn hindrunum

Vertu viðbúinn hindrunum

„Ég ákvað að hætta til að vernda heilsu nýfædds barns okkar. Ég setti því upp skilti á heimilinu þar sem stóð „Bannað að reykja“. Það leið ekki nema klukkustund áður en nikótínþörfin kom yfir mig eins og flóðbylgja og ég kveikti í sígarettu.“ – Yoshimitsu, Japan.

EINS og reynsla Yoshimitsu sýnir eru hindranir á vegi þess sem ætlar að hætta að reykja. Rannsóknir sýna að nærri því 90 prósent þeirra sem misstíga sig halda áfram að reykja. En ef þú ert að reyna að hætta ertu líklegri til að ná árangri ef þú ert viðbúinn hindrunum. Hvaða hindranir eru algengastar?

Nikótínþörf: Hún er venjulega í hámarki einhvern tíma á fyrstu þrem dögum eftir að maður hættir en hefur farið dvínandi eftir um tvær vikur. „Löngunin kemur í bylgjum en er ekki stöðug,“ segir fyrrverandi reykingamaður. En jafnvel eftir mörg ár getur maður skyndilega fengið löngun til að reykja. Ef það gerist skaltu ekki gefast strax upp og kveikja í sígarettu. Bíddu í svona fimm mínútur og löngunin ætti að líða hjá.

Önnur fráhvarfseinkenni: Fólk á erfiðara með að halda sér vakandi og einbeita sér og hefur tilhneigingu til að þyngjast. Það getur líka fundið fyrir verkjum, kláða, svitaköstum, hósta og breytingum á skapi sem birtast í óþolinmæði, tilhneigingu til að reiðast og jafnvel þunglyndi. Flest einkennin minnka samt innan fjögurra til sex vikna.

Á þessum erfiða tíma geturðu gert ýmislegt sem hjálpar þér. Til dæmis:

• Vertu þér úti um nægan svefn.

• Drekktu nóg af vatni eða safa. Borðaðu hollan mat.

• Fáðu hæfilega hreyfingu.

• Andaðu djúpt og ímyndaðu þér hvernig hreint loft fyllir lungun á þér.

Það sem kveikir löngunina: Athafnir og tilfinningar sem kveikja löngunina til að reykja. Þú varst kannski vanur að fá þér sígarettu þegar þú fékkst þér að drekka, þar á meðal áfengi. Ef svo er skaltu ekki taka þér of mikinn tíma til þess. Með tímanum muntu geta notið þess meira í rólegheitum.

Sálræn áhrif geta varað löngu eftir að líkaminn er laus við nikótín. „Nítján árum eftir að ég hætti langar mig enn þá að reykja í kaffipásum,“ viðurkennir Torben, sem áður er minnst á. Það er hins vegar algengast að sálræn tengsl milli reykinga og ákveðinna athafna veikist með tímanum.

Staðan er önnur í sambandi við áfengi. Þú getur þurft að halda þig alveg frá áfengi þegar þú ert að reyna að hætta að reykja og forðast staði þar sem það er í boði vegna þess að stór hluti þeirra sem byrja aftur að reykja gera það þegar þeir drekka áfengi. Hvers vegna?

• Jafnvel mjög lítið magn áfengis eykur ánægjuna sem nikótín gefur fólki.

• Það eru miklar líkur á því að fólk reyki þegar það hittist til að drekka saman áfengi.

• Áfengi veikir dómgreind og dregur úr hömlum. Biblían bendir réttilega á að víndrykkja taki vitið frá fólki. – Hósea 4:11.

Félagsskapur: Vertu vandlátur. Forðastu til dæmis óþarfa félagskap við fólk sem reykir eða gæti boðið þér sígarettu. Haltu þig frá þeim sem hafa neikvæð áhrif á viðleitni þína til að hætta, til dæmis með stríðni.

Tilfinningar: Ein rannsókn leiddi í ljós að næstum tveir þriðju þeirra sem féllu og fengu sér að reykja voru taugaspenntir eða reiðir rétt áður. Ef ákveðin tilfinning vekur upp löngun til að reykja skaltu beina athyglinni annað með því að til dæmis fá þér vatn að drekka, tyggja tyggjó eða fara í göngutúr. Reyndu að fylla hugann jákvæðum hugsunum, ef til vill með því að fara með bæn eða lesa fáeinar blaðsíður í Biblíunni. – Sálmur 19:14.

Hugsun sem þú skalt forðast

Ég fæ mér bara einn smók.

Staðreyndin: Einn smók getur nægt 50 prósentum ákveðinna nikótínnema í heilanum í þrjár klukkustundir. Afleiðingarnar eru oft þær að fólk fellur.

Að fá mér sígarettu hjálpar mér að takast á við streitu.

Staðreyndin: Rannsóknir sýna að nikótín eykur í raun streituhormón. Það sem virðist draga úr streitu gæti að stórum hluta verið tímabundin tilfinning vegna þess að nikótínið slær tímabundið á fráhvarfseinkenni.

Það er orðið of seint fyrir mig að hætta.

Staðreyndin: Neikvæðni drepur viljann. Í Biblíunni segir: „Ef þú missir kjarkinn á erfiðleikatímum verður máttur þinn lítill.“ (Orðskviðirnir 24:10) Forðastu það hugarfar að gefast upp. Allir sem vilja hætta og fylgja hagnýtum ráðum eins og þeim sem koma fram í þessu blaði geta það.

Fráhvarfseinkennin eru of erfið fyrir mig.

Staðreyndin: Fráhvarfseinkenni eru vissulega sterk en þau dvína á fáeinum vikum. Vertu því einbeittur. Ef löngun til að reykja skýtur upp kollinum eftir mánuði eða nokkur ár líður hún hjá, líklega á nokkrum mínútum – ef þú kveikir þér ekki í sígarettu.

Ég á við geðræn veikindi að stríða.

Staðreyndin: Ef þú ert í meðferð vegna geðrænna veikinda eins og þunglyndis eða geðklofa skaltu spyrja lækninn þinn um ráð til að hætta að reykja. Hann gæti verið meira en fús til að hjálpa þér, kannski með því að breyta meðferðinni til að jafna út áhrifin sem ákvörðun þín gæti haft á veikindi þín eða lyf sem þú tekur.

Mér finnst ég misheppnaður ef ég fell.

Staðreyndin: Ef þú hrasar á leið þinni og færð þér smók, eins og margir gera þegar þeir reyna að hætta, er staðan ekki vonlaus. Stattu upp og haltu áfram að reyna. Þótt þú hrasir þýðir það ekki að þú sért misheppnaður. Þér misheppnast ef þú stendur ekki upp. Haltu því áfram að reyna. Það tekst á endanum.

Hugleiddu reynslu Romualdo sem reykti í 26 ár og hætti fyrir meira en 30 árum. „Ég hætti að telja hversu oft ég féll,“ skrifar hann. „Í hvert skipti leið mér hræðilega, eins og ég væri vonlaus. En þegar ég tók einbeitta ákvörðun um að eiga gott samband við Jehóva Guð og bað hann aftur og aftur um hjálp gat ég að lokum hætt algerlega.“

Í síðustu greininni í þessari greinaröð skoðum við fáein ráð sem geta hjálpað þér að verða hamingjusamur fyrrverandi reykingamaður.

[Rammi/​Mynd]

BANVÆNT Í HVAÐA FORMI SEM ER

Tóbak er notað á marga vegu. Sumar vörur unnar úr tóbaki eru jafnvel seldar í verslunum sem selja heilsufæði og í jurtaapótekum. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin segir samt sem áður að „tóbak sé banvænt í hvaða formi sem er“. Allir sjúkdómar sem tengjast tóbaksnotkun, eins og krabbamein og hjartasjúkdómar, geta leitt til dauða. Mæður sem reykja geta einnig skaðað ófædd börn sín. Í hvaða formi er tóbak oftast?

Bidis: Litlar handrúllaðar sígarettur sem eru algengar í Asíu. Þær innihalda margfalt meiri tjöru, nikótín og kolmónoxíð en venjulegar sígarettur.

Vindlar: Þeir eru gerðir úr tóbaki sem er undið þétt inn í tóbakslauf eða pappír úr tóbaki. Tóbak í sígarettum er súrt en í vindlum er það lítillega basískt og því er hægt að sjúga nikótín úr vindlum þótt ekki sé kveikt í þeim.

Kreteks: Sígarettur sem innihalda um það bil 60 prósent tóbak og 40 prósent negul. Þær innihalda meiri tjöru, nikótín og kolmónoxíð en venjulegar sígarettur.

Pípur: Að reykja pípu er ekki hættuminna en að reykja sígarettur, það getur líka valdið krabbameini og öðrum sjúkdómum.

Tóbak sem er ekki reykt: Tóbak sem er tekið í vör, tuggið eða tekið í nefið. Nikótínið fer inn í blóðrásina í gegnum munninn. Slík notkun á tóbaki er alveg jafn hættuleg og önnur notkun þess.

Vatnspípur: Þegar slíkar pípur eru notaðar fer tóbaksreykur í gegnum vatn áður en menn anda honum að sér. En það er ekki víst að minna magn eiturefna, þar á meðal þeirra sem valda krabbameini, berist til lungnanna.

[Rammi/​Mynd]

AÐ HJÁLPA ÖÐRUM AÐ HÆTTA

Vertu jákvæður. Hrós virkar betur en að tuða og halda fyrirlestur yfir fólki. „Ég hef trú á því að þú getir þetta ef þú reynir aftur,“ virkar betur en „Þér mistókst aftur“.

Vertu fús að fyrirgefa. Gerðu þitt besta til að horfa fram hjá reiði og pirringi sem beinist að þér frá þeim sem er að reyna að hætta. Segðu eitthvað vingjarnlegt eins og: „Ég veit að þetta er erfitt en ég er svo stoltur af þér fyrir að gera það.“ Segðu aldrei: „Mér líkaði betur við þig á meðan þú reyktir.“

Vertu sannur vinur. Biblían segir: „Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ (Orðskv. 17:17) Reyndu alltaf að vera þolinmóður og kærleiksríkur við þann sem er að reyna að hætta, hvaða tíma dags sem er og hvernig sem hann er stemmdur.