Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugrekki sprottið af kærleika

Hugrekki sprottið af kærleika

Hugrekki sprottið af kærleika

„Ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 1:7.

1, 2. (a) Hvað getur kærleikur fengið fólk til að gera? (b) Hvers vegna var hugrekki Jesú framúrskarandi?

 NÝGIFT hjón voru að kafa neðansjávar nálægt bæ við austurströnd Ástralíu. Þau voru á leiðinni upp á yfirborðið þegar hvíthákarl stefndi óðfluga í átt að konunni. Maðurinn vann þá hetjudáð að ýta konunni sinni til hliðar og láta hákarlinn ráðast á sig í staðinn. „Hann fórnaði lífinu fyrir mig,“ sagði ekkjan við útförina.

2 Já, kærleikur getur fengið fólk til að sýna einstakt hugrekki. Jesús Kristur sagði: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:13) Innan við sólarhring eftir að Jesús lét þessi orð falla fórnaði hann lífi sínu, ekki aðeins fyrir einn mann heldur allt mannkynið. (Matteus 20:28) Og hugrekki hans var ekki sprottið af skyndiákvörðun. Hann vissi fyrir fram að hann yrði spottaður og honum yrði misþyrmt, að hann yrði dæmdur án saka og tekinn af lífi á kvalastaur. Hann bjó lærisveinana meira að segja undir þessa atburðarás og sagði: „Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum. Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta.“ — Markús 10:33, 34.

3. Hvað gerði Jesú kleift að sýna afburðahugrekki?

3 Hvað gerði Jesú kleift að vera svona hugrakkur? Trú og guðsótti átti stóran þátt í því. (Hebreabréfið 5:7; 12:2) En hugrekki Jesú var samt fyrst og fremst sprottið af kærleika hans til Guðs og til manna. (1. Jóhannesarbréf 3:16) Ef við þroskum með okkur kærleika auk trúar og guðsótta getum við verið hugrökk eins og Kristur. (Efesusbréfið 5:2) En hvernig getum við tamið okkur slíkan kærleika? Við þurfum að vita hver uppspretta hans er.

„Kærleikurinn er frá Guði kominn“

4. Af hverju má segja að Jehóva sé uppspretta kærleikans?

4 Jehóva er bæði persónugervingur og uppspretta kærleikans. Jóhannes postuli skrifaði: „Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:7, 8) Við getum því aðeins þroskað með okkur kærleika sem er Guði að skapi ef við styrkjum sambandið við hann með því að afla okkur nákvæmrar þekkingar og sýnum heilshugar hlýðni með því að hegða okkur í samræmi við þessa þekkingu. — Filippíbréfið 1:9; Jakobsbréfið 4:8; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

5, 6. Hvað hjálpaði fylgjendum Krists á fyrstu öld að þroska með sér kærleika?

5 Í síðustu bæn sinni með hinum 11 trúföstu postulum benti Jesús á sambandið milli þess að þekkja Guð og vaxa í kærleika. Hann sagði: „Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“ (Jóhannes 17:26) Jesús hjálpaði lærisveinunum að þroska með sér sams konar kærleika og ríkti milli hans og föður hans og hann endurspeglaði dásamlega eiginleika föður síns bæði í orði og verki. Þannig opinberaði hann hvað nafn Guðs stendur fyrir. Þess vegna gat hann sagt: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ — Jóhannes 14:9, 10; 17:8.

6 Heilagur andi Guðs getur hjálpað okkur að sýna kærleika eins og þann sem Kristur sýndi. (Galatabréfið 5:22) Á hvítasunnu árið 33 hlutu frumkristnir menn heilagan anda eins og þeim hafði verið lofað. Andinn minnti þá ekki aðeins á allt það sem Jesús hafði kennt þeim heldur fengu þeir einnig dýpri skilning á Ritningunni. Þessi skilningur styrkti greinilega kærleika þeirra til Guðs. (Jóhannes 14:26; 15:26) Hver var árangurinn? Þeir prédikuðu fagnaðarerindið af hugrekki og kappsemi þótt það gæti kostað þá lífið. — Postulasagan 5:28, 29.

Hugrekki og kærleikur í verki

7. Í hverju lentu Páll og Barnabas í trúboðsferð sinni?

7 Páll postuli skrifaði: „Ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ (2. Tímóteusarbréf 1:7) Páll talaði af eigin reynslu. Við getum séð það af því sem hann og Barnabas gengu í gegnum í trúboðsferð sinni. Þeir prédikuðu í mörgum borgum, þar á meðal Antíokkíu, Íkóníum og Lýstru. Í hverri borg tóku sumir trú en aðrir snerust harðlega gegn þeim. (Postulasagan 13:2, 14, 45, 50; 14:1, 5) Í Lýstru var Páll meira að segja grýttur af æstum múgi þar til hann var talinn dáinn. „En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.“ — Postulasagan 14:6, 19, 20.

8. Hvernig endurspeglaði hugrekki Páls og Barnabasar kærleika þeirra til annarra?

8 Urðu Páll og Barnabas hræddir og gáfust upp eftir að reynt hafði verið að grýta Pál til bana? Nei, alls ekki. Eftir að hafa gert „marga að lærisveinum“ í Derbe „sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu“. Af hverju? Til að styrkja hina nýju og hvetja þá til að vera staðfastir í trúnni. „Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar,“ sögðu Páll og Barnabas. Hugrekki þeirra var greinilega sprottið af kærleikanum til „sauða“ Krists. (Postulasagan 14:21-23; Jóhannes 21:15-17) Eftir að hafa útnefnt öldunga í hinum nýstofnuðu söfnuðum fóru þessir tveir bræður með bæn og fólu öldungana „Drottni, sem þeir höfðu fest trú á“.

9. Hvaða áhrif hafði kærleikur Páls á öldungana í Efesus?

9 Páll var svo umhyggjusamur og hugrakkur maður að mörgum á fyrstu öldinni fór að þykja innilega vænt um hann. Rifjum upp það sem gerðist á fundi sem Páll hélt með öldungunum í Efesus en þar hafði hann starfað í þrjú ár og orðið fyrir mikilli andstöðu. (Postulasagan 20:17-31) Eftir að hafa hvatt þá til að annast hjörð Guðs, sem þeim hafði verið treyst fyrir, kraup hann á kné og baðst fyrir með þeim. Síðan tóku allir „að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann. Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann.“ Þessum bræðrum þótti sannarlega vænt um Pál. Þegar kom að kveðjustund þurftu Páll og ferðafélagar hans að ‚slíta sig frá‘ safnaðaröldungunum sem fannst greinilega mjög erfitt að sjá á eftir þeim. — Postulasagan 20:36–21:1.

10. Hvernig hafa þjónar Jehóva nú á dögum sýnt kærleika og hugrekki?

10 Nú á dögum þykir mörgum innilega vænt um farandhirða, safnaðaröldunga og marga aðra vegna þess hugrekkis sem þeir hafa sýnt til að annast sauði Jehóva. Sem dæmi má nefna að í löndum þar sem borgarastríð geisa eða boðunarstarfið er bannað hafa farandhirðar og eiginkonur þeirra stofnað lífi sínu og frelsi í hættu til að heimsækja söfnuði. Margir vottar hafa einnig liðið illt af hendi fjandsamlegra valdhafa og undirmanna þeirra vegna þess að þeir vildu ekki svíkja trúbræður sína eða gefa upp hvaðan þeir fengu andlega fæðu. Þeir hafa í þúsundatali verðið ofsóttir, pyntaðir og jafnvel drepnir fyrir að vilja ekki hætta að boða fagnaðarerindið eða hætta að sækja safnaðarsamkomur með trúsystkinum. (Postulasagan 5:28, 29; Hebreabréfið 10:24, 25) Við skulum líkja eftir trú og kærleika þessara hugrökku bræðra og systra. — 1. Þessaloníkubréf 1:6.

Leyfum kærleika okkar ekki að kólna

11. Hvernig heyr Satan andlegt stríð gegn þjónum Jehóva og hvað útheimtir það af þeim?

11 Þegar Satan var varpað niður til jarðar var hann staðráðinn í því að úthella reiði sinni yfir þjóna Guðs því að þeir „varðveita boð Guðs“ og bera vitni um Jesú. (Opinberunarbókin 12:9, 17) Eitt af því sem Satan notar gegn þeim eru ofsóknir. En þessi aðferð hefur oft þveröfug áhrif því að hún styrkir eininguna og kærleikann milli þjóna Guðs og gerir þá enn kappsamari. Önnur aðferð Satans er að höfða til syndugra tilhneiginga manna. Til að standa gegn þessu vélarbragði verðum við að sýna annars konar hugrekki því að þetta er innri barátta gegn röngum löngunum hins svikula og spillta hjarta. — Jeremía 17:9; Jakobsbréfið 1:14, 15.

12. Hvernig notar Satan „anda heimsins“ til að grafa undan kærleika okkar til Guðs?

12 Í vopnabúri Satans er að finna annað öflugt vopn — „anda heimsins“ eða ráðandi viðhorf og tilhneigingar sem eru í algerri andstöðu við heilagan anda Guðs. (1. Korintubréf 2:12) Andi heimsins ýtir undir græðgi og efnishyggju, það er að segja „fýsn augnanna“. (1. Jóhannesarbréf 2:16; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Efnislegir hlutir og peningar eru ekki skaðlegir í sjálfu sér. En ef ást okkar á þeim er sterkari en kærleikurinn til Guðs hefur Satan unnið sigur. Andi heimsins hefur sterk áhrif því að hann höfðar til hins synduga holds, er mjög lævís og ágengur og smýgur alls staðar inn eins og loftið. Láttu anda heimsins ekki spilla hjarta þínu. — Efesusbréfið 2:2, 3; Orðskviðirnir 4:23.

13. Hvernig gæti reynt á siðferðisþrek okkar?

13 Við þurfum að hafa siðferðisþrek til að berjast á móti illum anda heimsins. Það krefst til dæmis hugrekkis að standa upp og ganga út úr kvikmyndahúsi eða slökkva á tölvunni eða sjónvarpinu þegar siðlaus mynd kemur upp á skjáinn. Við þurfum líka að sýna hugrekki til að standa gegn skaðlegum hópþrýstingi og slíta sambandinu við slæman félagsskap. Og það kallar á hugrekki að halda fast við lög Guðs og meginreglur þrátt fyrir háð annarra, hvort heldur skólafélaga, vinnufélaga, nágranna eða ættingja. — 1. Korintubréf 15:33; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

14. Hvað ættum við að gera ef andi heimsins hefur haft áhrif á okkur?

14 Við sjáum að það er mjög mikilvægt að styrkja kærleikann til Guðs og til trúsystkina okkar. Gefðu þér tíma til að skoða markmið þín og lífsstíl til að athuga hvort andi heimsins hafi haft einhver áhrif á þig. Ef hann hefur gert það — þótt ekki sé nema í smáum mæli — skaltu biðja Jehóva um hugrekki til að losa þig undan þessum áhrifum og halda þeim fjarri þér. Þú getur verið viss um að Jehóva heyrir einlægar bænir sem þessar. (Sálmur 51:19) Auk þess er andi hans langtum öflugri en andi heimsins. — 1. Jóhannesarbréf 4:4.

Að takast á við vandamál af hugrekki

15, 16. Hvernig getur kærleikur hjálpað okkur að takast á við vandamál? Nefndu dæmi.

15 Þjónar Jehóva geta líka þurft að kljást við sjúkdóma, fötlun, þunglyndi og mörg önnur vandamál sem rekja má til ófullkomleika og elli. (Rómverjabréfið 8:22) Kærleikur getur hjálpað okkur að takast á við þessa erfiðleika. Tökum Namangolwu sem dæmi. Hún var alin upp á kristnu heimili í Sambíu. Þegar hún var tveggja ára varð hún fötluð. Hún segir: „Ég var mjög meðvituð um fötlun mína og ímyndaði mér að fólki fyndist útlit mitt fráhrindandi. En trúsystkini mín hjálpuðu mér að leiðrétta hugsunarhátt minn. Það varð til þess að ég komst yfir þessa feimni og lét seinna skírast.“

16 Þótt Namangolwa eigi hjólastól þarf hún oft að skríða á fjórum fótum þegar hún ferðast um á rykugum moldarvegum. En þrátt fyrir það er hún aðstoðarbrautryðjandi í að minnsta kosti tvo mánuði á ári. Kona nokkur grét þegar Namangolwa vitnaði fyrir henni því að trú systur okkar og hugrekki hafði svo sterk áhrif á hana. Jehóva hefur sannarlega blessað Namangolwu ríkulega því að fimm biblíunemendur hennar hafa látið skírast og einn þeirra þjónar nú sem safnaðaröldungur. „Mig verkjar oft mikið í fæturna,“ segir hún, „en ég læt það ekki aftra mér.“ Þessi systir er aðeins einn af mörgum vottum um allan heim sem eru líkamlega veikburða en sterkir í anda vegna kærleikans til Guðs og náungans. Við getum verið viss um að þessir einstaklingar eru gersemar í augum Jehóva. — Haggaí 2:7.

17, 18. Hvað hjálpar mörgum í baráttunni við sjúkdóma og önnur vandamál? Nefndu nokkur dæmi úr þínu byggðarlagi.

17 Langvarandi veikindi geta líka dregið úr manni kjark og jafnvel gert mann niðurdreginn. Safnaðaröldungur nokkur segir svo frá: „Í bóknámshópnum mínum er ein systir með sykursýki og nýrnabilun, ein með krabbamein, tvær með mikla liðagigt og ein bæði með rauða úlfa og vefjagigt. Stundum eru þær niðurdregnar. En þær missa aðeins af samkomum þegar þær eru mjög veikar eða á sjúkrahúsi. Allar taka þær reglulegan þátt í boðunarstarfinu. Þær minna mig á Pál sem sagði: ‚Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.‘ Ég dáist að kærleika þeirra og hugrekki. Kannski gera aðstæður þeirra það að verkum að þær sjá skýrar hvað skiptir máli í lífinu.“ — 2. Korintubréf 12:10.

18 Ef þú glímir við heilsubrest, sjúkdóm eða eitthvert annað vandamál skaltu biðja Jehóva „án afláts“ um hjálp svo að þú missir ekki allan kjark. (1. Þessaloníkubréf 5:14, 17) Að sjálfsögðu er ekkert óeðlilegt að þér líði stundum illa en reyndu að beina athyglinni að því sem er jákvætt og andlega uppbyggjandi, sérstaklega hinni dýrmætu von um Guðsríki. „Boðunarstarfið virkar á mig eins og meðal,“ segir systir nokkur. Þegar hún segir öðrum frá fagnaðarerindinu hjálpar það henni að vera jákvæð.

Kærleikur hjálpar fólki að snúa aftur til Jehóva

19, 20. (a) Hvað getur veitt þeim sem hafa syndgað hugrekki til að snúa aftur til Jehóva? (b) Um hvað verður rætt í næstu grein?

19 Mörgum, sem hafa orðið veikir í trúnni eða syndgað, finnst ekki auðvelt að snúa aftur til Jehóva. En þeir geta fengið það hugrekki sem til þarf ef þeir iðrast í einlægni og glæða kærleikann til Guðs á ný. Tökum Mario a sem dæmi en hann býr í Bandaríkjunum. Hann yfirgaf söfnuðinn, varð alkóhólisti og fíkniefnaneytandi og 20 árum síðar lenti hann í fangelsi. „Ég fór að hugsa alvarlega um framtíð mína og lesa Biblíuna á ný,“ segir hann. „Smám saman fór mér að þykja vænt um eiginleika Jehóva, sérstaklega miskunn hans. Ég bað hann oft að miskunna mér. Eftir að ég losnaði úr fangelsinu forðaðist ég félagsskap við gömlu kunningjana, sótti samkomur og var að lokum tekinn aftur inn í söfnuðinn. Heilsufarslega er ég er að uppskera eins og ég sáði en nú hef ég að minnsta kosti stórkostlega framtíðarvon. Ég er óendanlega þakklátur Jehóva fyrir umhyggju hans og fyrirgefningu.“ — Sálmur 103:9-13; 130:3, 4; Galatabréfið 6:7, 8.

20 Að sjálfsögðu verða þeir sem eru í svipaðri aðstöðu og Mario að leggja mikið á sig til að snúa aftur til Jehóva. En kærleikurinn til Jehóva, sem þeir hafa endurvakið með biblíunámi, bæn og hugleiðingu, veitir þeim það hugrekki og þá einbeitni sem þeir þurfa á að halda. Mario sótti líka styrk í vonina um Guðsríki. Já, vonin, ásamt kærleika, trú og guðsótta, getur styrkt ásetning okkar til að breyta rétt. Í næstu grein fjöllum við nánar um þessa dýrmætu gjöf.

[Neðanmáls]

a Nafninu hefur verið breytt.

Hvert er svarið?

• Hvernig veitti kærleikur Jesú honum hugrekki?

• Hvernig gátu Páll og Barnabas sýnt einstakt hugrekki vegna kærleika síns til trúsystkina?

• Hvernig reynir Satan að grafa undan kristnum kærleika?

• Hvaða vandamál getum við haft hugrekki til að glíma við ef við höfum kærleika til Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Kærleikur Páls til annarra veitti honum hugrekki til að vera þolgóður.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Það krefst hugrekkis að halda fast við meginreglur Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Namangolwa Sututu