Frá „RNA-heiminum“ eða öðrum heimi?
Viðauki B
Frá „RNA-heiminum“ eða öðrum heimi?
Í ljósi þess að menn eru komnir í strand með útskýringar á tilvist samvinnunnar milli DNA, RNA og prótína, hafa nokkrir vísindamenn lagt fram kenninguna um „RNA-heiminn.“ Hver er hún? Í stað þess að fullyrða að DNA, RNA og prótín hafi orðið til samtímis og komið lífinu af stað segja þeir að RNA hafi eitt og sér verið kveikjan að lífinu. Er fótur fyrir þessari kenningu?
Á níunda áratugnum uppgötvuðu nokkrir vísindamenn að RNA-sameindir gátu á rannsóknarstofu hegðað sér eins og sín eigin ensím með því að rífa sig í tvennt og skeyta sig saman á ný. Menn gátu sér því til að RNA kynni að hafa verið fyrsta sameindin sem tímgaðist af sjálfri sér. Kenningin gengur út á það að með tímanum hafi þessar RNA-sameindir lært að búa til frumuhimnu og að lokum hafi hin lífræna RNA-heild myndað DNA. „Postular RNA-heimsins,“ skrifar Phil Cohen í New Scientist, „eru þeirrar trúar að kenningu þeirra skuli tekið sem fagnaðarerindi eða hún í það minnsta álitin það næsta sem komist verður sjálfum sannleikanum.“
Vísindamenn samþykkja þetta samt ekki allir. Cohen segir að efasemdamenn „komi með þau mótrök að allt of langt stökk sé frá því að sýna að tvær RNA-sameindir hafi limlest sjálfar sig lítilsháttar í tilraunaglasi til þeirrar fullyrðingar að RNA hafi verið fær um að mynda og annast frumu hjálparlaust og verða þess valdandi að lífið hófst á jörðinni.“
Annar vandi er hér á ferð. Líffræðingurinn Carl Woese heldur því fram að „kenningin um RNA-heiminn . . . sé meingölluð vegna þess að hún nái ekki að útskýra hvaðan orkan kom sem þurfti til framleiðslu fyrstu RNA-sameindanna.“ Vísindamenn hafa heldur aldrei fundið RNA-bút sem getur afritað sig frá byrjun til enda. Þá er líka spurningin hvaðan RNA er í upphafi komið. Þó að kenninguna um „RNA-heiminn“ sé að finna í mörgum kennslubókum er hún að mestu leyti „fræðileg bjartsýni“ að sögn vísindamannsins Gary Olsens.
Önnur kenning, sem sumir vísindamenn aðhyllast, er að lífið hafi borist til jarðarinnar utan úr geimnum í mynd einhvers konar „sæðis.“ En þessi kenning svarar í raun ekki spurningunni um hvernig lífið hafi orðið til. Ef menn segja að lífið hafi komið utan úr geimnum „flytja þeir ráðgátuna aðeins yfir á annan stað,“ bendir Boyce Rensberger á, rithöfundur sem skrifar einkum um vísindi. Það útskýrir ekki tilurð lífsins. Það sneiðir aðeins hjá viðfangsefninu með því að færa upphaf lífsins yfir í annað sólkerfi eða vetrarbraut. Það sem málið snýst um er enn óleyst.