Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

það sem Guð hefur gert til að frelsa mannkynið

það sem Guð hefur gert til að frelsa mannkynið

7. kafli

það sem Guð hefur gert til að frelsa mannkynið

1, 2. (a) Hvernig náði rómverskur hundraðshöfðingi að gera sér ljóst hver sonur Guðs er? (b) Hvers vegna leyfði Jehóva að Jesús dæi?

 EITT síðdegi að vori fyrir nærri 2000 árum horfði rómverskur hundraðshöfðingi á þrjá menn deyja hægum, kvalafullum dauða. Hermaðurinn tók sérstaklega eftir einum þeirra — Jesú Kristi. Jesús hafði verið negldur á tréstaur. Hádegishiminninn sortnaði er dauðastund hans nálgaðist. Þegar hann dó nötraði jörðin harkalega og hermaðurinn hrópaði upp yfir sig: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“ — Markús 15:39.

2 Sonur Guðs! Það var rétt hjá hermanninum. Hann hafði orðið vitni að mikilvægasta atburði sem gerst hefur á jörðinni fyrr og síðar. Við önnur tækifæri hafði Guð sjálfur kallað Jesú elskaðan son sinn. (Matteus 3:17; 17:5) Hvers vegna hafði Jehóva leyft að sonur hans dæi? Vegna þess að það var leið Guðs til að frelsa mannkynið frá synd og dauða.

VALINN Í SÉRSTÖKUM TILGANGI

3. Hvers vegna var við hæfi að eingetinn sonur Guðs yrði valinn í sérstökum tilgangi sem varðaði mannkynið?

3 Eins og við höfum lært fyrr í þessari bók var Jesús til áður en hann varð maður. Hann er kallaður ‚eingetinn sonur Guðs‘ vegna þess að Jehóva skapaði hann beint. Guð notaði að því búnu Jesú til að láta allt annað verða til. (Jóhannes 3:16, 18; Kólossubréfið 1:16) Jesús hafði sérstakt yndi af mannkyninu. (Orðskviðirnir 8:30, 31) Það er engin furða að Jehóva skuli hafa valið eingetinn son sinn til að þjóna sérstökum tilgangi þegar mannkynið komst undir bölvun syndarinnar!

4, 5. Hvað opinberaði Biblían um Messías og sæðið áður en Jesús kom til jarðarinnar?

4 Þegar Guð kvað upp dóminn yfir Adam, Evu og Satan í Edengarðinum talaði hann um framtíðarlausnarann sem „sæði.“ Þetta sæði, eða afkomandi, skyldi gera að engu það hræðilega böl sem Satan djöfullinn, ‚hinn gamli höggormur,‘ hafði komið til leiðar. Fyrirheitna sæðið myndi mola Satan og alla þá sem fylgdu honum. — 1. Mósebók 3:15; 1. Jóhannesarbréf 3:8; Opinberunarbókin 12:9.

5 Í aldanna rás hefur Guð stig af stigi opinberað meira um sæðið sem einnig er nefnt Messías. Eins og sýnt er á töflunni á blaðsíðu 37 greindu fjölmargir spádómar frá einstökum atriðum í lífi Messíasar á jörðinni. Til dæmis yrði hann að þola hræðilega misþyrmingu til þess að gegna hlutverki sínu í fyrirætlun Guðs. — Jesaja 53:3-5.

HVERS VEGNA MESSÍAS MYNDI DEYJA

6. Hverju myndi Messías koma til leiðar og hvernig, samkvæmt Daníel 9:24-26?

6 Spádómurinn, sem skráður er í Daníel 9:24-26 (Biblían 1859), sagði fyrir að Messías — hinn smurði Guðs — myndi láta stórkostlegan tilgang rætast. Hann kæmi til jarðarinnar til að „misgjörðin verði af máð, syndin burt tekin, friðþægt fyrir sektina, eilíft réttlæti aptur heimt.“ Messías myndi létta dauðadóminum af trúföstu mannkyni. En hvernig færi hann að því? Spádómurinn útskýrir að hann myndi „af máður verða“ eða líflátinn.

7. Af hverju færðu Gyðingar dýrafórnir og fyrirboði hvers voru þær?

7 Ísraelsmönnum til forna var kunn hugmyndin um friðþægingu fyrir sekt eða misgerð. Í tilbeiðslu sinni undir lagasáttmálanum, sem Guð gaf fyrir milligöngu Móse, báru þeir reglulega fram dýrafórnir. Þær minntu Ísraelsþjóðina á að menn þarfnast einhvers sem friðþægir fyrir eða hylur syndir þeirra. Páll postuli orðaði þessa frumreglu í stuttu máli þannig: „Eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.“ (Hebreabréfið 9:22) Ákvæði Móselögmálsins, eins og þau að færa fórnir, ná ekki til kristinna manna. (Rómverjabréfið 10:4; Kólossubréfið 2:16, 17) Þeir vita líka að dýrafórnir geta ekki veitt varanlega og algera syndafyrirgefningu. Í stað þess voru þessar dýrafórnir fyrirboði langtum dýrmætari fórnar — fórnar Messíasar, eða Krists. (Hebreabréfið 10:4, 10; samanber Galatabréfið 3:24.) Þú kannt samt að spyrja: ‚Var dauði Messíasar virkilega nauðsynlegur?‘

8, 9. Hvaða dýrmæti glötuðu Adam og Eva og hvaða áhrif höfðu gerðir þeirra á niðja þeirra?

8 Já, Messías varð að deyja ef mannkynið átti að frelsast. Til að skilja hvers vegna verðum við að leiða hugann aftur til Edengarðsins og reyna að gera okkur ljóst hversu gífurlega miklu Adam og Eva glötuðu þegar þau risu upp gegn Guði. Þeim hafði verið gefinn kostur á eilífu lífi! Sem börn Guðs höfðu þau einnig bein tengsl við hann. En þegar þau höfnuðu yfirstjórn Jehóva glötuðu þau þessu öllu og leiddu synd og dauða yfir mannkynið. — Rómverjabréfið 5:12.

9 Það var eins og fyrstu foreldrar okkar hefðu sóað feiknamiklum fjármunum og steypt sér út í skuldafen. Adam og Eva létu þá skuld ganga til afkomenda sinna. Af því að við fæddumst ekki fullkomin og syndlaus býr syndin í okkur öllum og við deyjum. Þegar við veikjumst eða segjum særandi orð sem við vildum að hefðu verið ósögð eru áhrifin af arftekinni skuld okkar — mannlegum ófullkomleika — að gera vart við sig. (Rómverjabréfið 7:21-25) Eina von okkar liggur í því að öðlast aftur það sem Adam glataði. Við getum hins vegar ekki áunnið okkur eilíft líf. Þar sem allir ófullkomnir menn syndga ávinnum við okkur öll dauða, ekki líf. — Rómverjabréfið 6:23.

10. Hvað þurfti til að endurheimta það sem Adam glataði?

10 En var hægt að leggja eitthvað fram í skiptum fyrir lífið sem Adam fyrirgerði? Réttlætismælikvarði Guðs krefst jafngildis, „líf fyrir líf.“ (2. Mósebók 21:23) Þess vegna varð að leggja fram líf til að greiða fyrir lífið sem glataðist. En ekki dygði líf hvaða manns sem væri. Sálmur 49:8, 9 segir um ófullkomna menn: „Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann. Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu.“ Er ástandið þá vonlaust? Nei, svo sannarlega ekki.

11. (a) Hvaða merkingu ber orðið „lausnargjald“ í hebresku? (b) Hver einn gæti endurkeypt mannkynið og hvers vegna?

11 Á hebreskri tungu merkir orðið „lausnargjald“ upphæðina sem greidd er til að leysa út fanga og gefur einnig til kynna jafngildi. Aðeins maður, sem hefði til að bera fullkomið mannslíf, gæti lagt fram fórn sem jafngilti því sem Adam glataði. Fyrir utan Adam var Jesús Kristur eini fullkomni maðurinn sem lifað hefur á jörðinni. Þar af leiðandi kallar Biblían Jesú „hinn síðari Adam“ og fullvissar okkur um að Kristur ‚hafi gefið sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla.‘ (1. Korintubréf 15:45; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Adam arfleiddi börn sín að dauðanum en arfurinn frá Jesú er eilíft líf. Fyrra Korintubréf 15:22 útskýrir: „Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ Jesús er því með réttu kallaður „Eilífðarfaðir.“ — Jesaja 9:6, 7.

HVERNIG LAUSNARGJALDIÐ VAR GREITT

12. Hvenær varð Jesús að Messíasi og hvaða lífsstefnu fylgdi hann upp frá því?

12 Um haustið árið 29 fór Jesús til frænda síns, Jóhannesar, til að láta skírast og bjóða sig þannig fram til að framkvæma vilja Guðs. Jehóva smurði Jesú við það tækifæri með heilögum anda. Á þann hátt varð Jesús Messías, eða Kristur, sá sem smurður er af Guði. (Matteus 3:16, 17) Síðan hóf Jesús prédikunarstarf sitt sem stóð í þrjú og hálft ár. Hann ferðaðist um heimaland sitt þvert og endilangt, prédikaði Guðsríki og safnaði saman trúföstum fylgjendum. En eins og spáð hafði verið leið ekki á löngu uns andstaða reis upp gegn honum. — Sálmur 118:22; Postulasagan 4:8-11.

13. Hvaða atburðir leiddu til dauða Jesú sem trúfasts manns?

13 Jesús fletti hugrakkur ofan af hræsni trúarleiðtoganna og þeir leituðust við að fá hann líflátinn. Á endanum brugguðu þeir honum launráð þar sem við sögu komu svik í tryggðum, óréttmæt handtaka, ólögleg réttarhöld og falsákæra um að æsa til uppreisnar gegn yfirvöldum. Menn börðu Jesú, hræktu á hann, hæddu hann og hýddu með svipu sem reif upp holdið. Rómverski landstjórinn Pontíus Pílatus dæmdi hann síðan til dauða á kvalastaur. Hann var negldur á tréstaur sem síðan var reistur upp. Hver andardráttur var kvalræði og hann var margar klukkustundir að deyja. Í gegnum alla þessa eldraun varðveitti Jesús fullkomna ráðvendni við Guð.

14. Hvers vegna leyfði Guð að sonur hans skyldi þjást og deyja?

14 Hinn 14. dag nísanmánaðar árið 33 gaf Jesús líf sitt „til lausnargjalds fyrir marga.“ (Markús 10:45; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Af himni horfði Jehóva á ástkæran son sinn þjást og deyja. Hvers vegna leyfði Guð svona hræðilegum atburði að eiga sér stað? Hann gerði það af kærleika til mannkynsins. Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Dauði Jesú kennir okkur líka að Jehóva er Guð fullkomins réttlætis. (5. Mósebók 32:4) Sumir spyrja ef til vill hvers vegna Guð féll ekki frá réttlætisfrumreglu sinni sem krafðist lífs fyrir líf og leit ekki bara fram hjá því hve dýrkeypt syndug hegðun Adams var. Ástæðan er sú að Jehóva fylgir alltaf lögum sínum og styður þau, jafnvel þótt hann þurfi að kosta miklu til.

15. Hvað gerði Jehóva þar sem það hefði verið óréttlátt að binda enda á tilvist Jesú að eilífu?

15 Réttlæti Jehóva krafðist þess einnig að dauði Jesú yrði ánægjuefni þegar upp væri staðið. Væri það réttlátt að láta hinn trúfasta Jesú sofa að eilífu í dauðanum? Að sjálfsögðu ekki! Hebresku ritningarnar höfðu spáð því að hinn trúfasti sonur Guðs yrði ekki eftir í gröfinni. (Sálmur 16:10; Postulasagan 13:35) Hann svaf dauðasvefni hluta úr þremur dögum og síðan reisti Jehóva Guð hann upp til lífs sem volduga andaveru. — 1. Pétursbréf 3:18.

16. Hvað gerði Jesús þegar hann kom aftur til himna?

16 Þegar Jesús dó afsalaði hann sér mannslífi sínu að eilífu. Með upprisunni til lífs á himni varð hann lífgandi andi. Þegar Jesús steig upp til helgasta staðar alheimsins sameinaðist hann auk þess að nýju ástkærum föður sínum og bar formlega fram fyrir hann verðmæti fullkomins mannslífs síns. (Hebreabréfið 9:23-28) Verðmæti þess dýrmæta lífs mátti þá nota í þágu hlýðinna manna. Hvað þýðir það fyrir þig?

LAUSNARFÓRN KRISTS OG ÞÚ

17. Hvernig getum við nýtt okkur fyrirgefninguna á grundvelli lausnarfórnar Krists?

17 Hugleiddu á hvaða þrennan hátt þú hefur jafnvel nú þegar gagn af lausnarfórn Krists. Í fyrsta lagi færir hún fyrirgefningu synda. Vegna trúar á úthellt blóð Jesú eigum við „endurlausnina,“ já, „fyrirgefningu afbrota vorra.“ (Efesusbréfið 1:7) Jafnvel þótt við höfum drýgt alvarlega synd getum við þess vegna beðið Guð að fyrirgefa okkur í Jesú nafni. Ef við iðrumst í sannleika notar hann gildi lausnarfórnar sonar síns í okkar þágu. Guð fyrirgefur okkur, veitir okkur þá blessun sem hrein samviska er í stað þess að krefjast dauðarefsingarinnar sem við köllum yfir okkur með syndinni. — Postulasagan 3:19; 1. Pétursbréf 3:21.

18. Á hvaða hátt veitir fórn Jesú okkur von?

18 Í öðru lagi leggur lausnarfórn Krists grunninn að framtíðarvon okkar. Jóhannes postuli sá í sýn að „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið“ myndi lifa af komandi hamfarir þegar þetta heimskerfi líður undir lok. Hvers vegna lifir þessi múgur af þegar Guð eyðir svo mörgum öðrum? Engill sagði Jóhannesi að múgurinn mikli hefði „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins,“ Jesú Krists. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Eins lengi og við iðkum trú á úthellt blóð Jesú Krists og lifum í samræmi við kröfur Guðs munum við vera hrein í augum Guðs og eiga von um eilíft líf.

19. Hvernig sannar fórn Krists að hann og faðir hans elska þig?

19 Í þriðja lagi er lausnarfórnin hin endanlega sönnun um kærleika Jehóva. Í dauða Krists birtust tvö stærstu kærleiksverkin í sögu alheimsins: (1) Kærleikurinn sem Guð sýndi með því að senda son sinn til að deyja í okkar þágu, og (2) kærleikurinn sem Jesús sýndi með því að leggja fúslega fram líf sitt sem lausnarfórn. (Jóhannes 15:13; Rómverjabréfið 5:8) Ef við iðkum í sannleika trú nær þessi kærleikur til okkar hvers og eins. Páll postuli sagði: „Guðs son . . . elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ — Galatabréfið 2:20; Hebreabréfið 2:9; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.

20. Hvers vegna ættum við að trúa á lausnarfórn Jesú?

20 Við skulum þar af leiðandi sýna þakklæti okkar fyrir kærleikann, sem Guð og Kristur sýndu, með því að trúa á lausnarfórn Jesú. Það leiðir til eilífs lífs. (Jóhannes 3:36) Frelsun okkar er samt ekki mikilvægasta ástæðan fyrir lífi og dauða Jesú á jörðinni. Nei, það sem hann lét sig mestu skipta var jafnvel enn mikilvægara mál, mál sem varðaði allan alheiminn. Eins og við sjáum í næsta kafla snertir það okkur öll vegna þess að það sýnir hvers vegna Guð hefur leyft að illska og þjáningar héldu velli svona lengi í þessum heimi.

REYNDU ÞEKKINGU ÞÍNA

Hvers vegna varð Jesús að deyja til að frelsa mannkynið?

Hvernig var lausnargjaldið greitt?

Á hvaða hátt hefur þú gagn af lausnargjaldinu?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á bls. 67]